mánudagur, júní 25, 2007

í morgun flaug lítill fugl inní stofu til mín þar sem ég sat og lærði. ég stökk upp af sófanum og hljóp í hringi um stofuna á meðan ég reyndi að ná mér saman í andlitinu og ákveða hvaða aðgerða ég ætti að grípa til. fyrst datt mér í hug að fá hjálp svo ég bankaði hjá nágrannanum. enginn svaraði. makinn minn sem sér yfirleitt um að leysa svona krísur var farinn að vinna og ég semsagt ein og hjálparlaus. þegar engin fékkst hjálpin fór ég að reyna að hugsa skýrt. ég gat ekki hugsað mér að koma nálægt þessum andskota svo að ég hljóp í andstæða átt við þá sem hann flaug. hér í stofunni eru tveir stórir gluggar/rennihurðir útí frímerkið sem við köllum garð. önnur hurðin var aðeins opin. fuglinn var að öllum líkindum jafn stressaður yfir uppákomunni og ég því hann gerði í því að reyna að komast út. fíflið sá bara ekki muninn á gleri og útgangi svo að hann flaug meðfram hurðunum sem gerði mér enn erfiðara fyrir að fara og opna fyrir honum. þarna þvældumst við, ég og fuglskrattinn fram og tilbaka um stofuna, hann með reyttar fjaðrir og ég með reytt hár og reyndum að koma ekki nálægt hvoru öðru. fyrir kraftaverk tókst mér að vippa hurðunum opnum og vitleysingurinn atarna slapp út. í þakklætisskyni skildi skíthællinn eftir kúk á gólfinu. eins og það hafi verið mér að kenna að hann hafi verið nógu vitlaus að fljúga inní hús. huh.

svo tapaði mexíkó fyrir bandaríkjunum í úrslitaameríkukeppninni þarna. af þeim sökum ríkir þjóðarþunglyndi, enda fátt jafn særandi fyrir mexíkanska þjóðarstoltið og að tapa fyrir erkifjendunum í norðri. en þeir voru bara betri. sorrí.
ekki það að ég hafi sosum áhuga á fótbolta...

aaaa.... og svo var ég að fá mér skype. eitthvað voða sniðugt svona tala saman ókeypis á netinu eitthvað. ef einhver hefur áhuga þá heiti ég majahjalmtys inní þessu apparati.
lóa... nú getum við sko spjallað.. vúhú!

Engin ummæli: