þriðjudagur, júní 12, 2007

svilkonan var í fjóra klukkutíma með tannlækni uppí sér í gær að grafa eftir endajaxli. í dag er hún með fyndna kinn sem henni finnst ekkert svo fyndin.
ég er heima að læra með rólegar kinnar.

lífið rúllar sinn vanagang. börnin úti í boltaleik. makinn að vinna. ég fór með kerlunum að borða morgunmat á kaffihús. ekki alveg minn stíll en ég fór samt. þær spjölluðu um mis-áhugaverða hluti en ég geri bara það sama og venjulega. brosi og kinka kolli.
sólin skín, fuglarnir syngja og ísskápurinn rymur. bróðursonur makans er að æfa sig á trommur og álkulegir unglingsfélagar hans með rytjulegt hár spila með á gítar og bassa. það heyrist um allt hverfið. móður hans er ekki skemmt enda hún ábyggilega með trommuslátt í tannholdinu.

í gærkveld byrjuðum við litla fjölskyldan á 1500 eininga púsluspili. ramminn er að byrja að smella saman. þetta er mjög spennandi afþreying.
framhald á púsluspilasögunni ógurlegu síðar...

Engin ummæli: