fimmtudagur, janúar 31, 2008

á laugardaginn síðasta vaknaði ég klukkan sjö til þess að vekja frumburðinn og skutla honum á leiðinlega tímasetta körfuboltaæfingu. þegar ég vaknaði heyrði ég háværa tónlist sem hljómaði úr íbúðinni á neðri hæðinni. ég fann fyrir svolitlum pirringi þar sem ég ráfaði svefndrukkin á nærbuxunum um íbúðina, en eftir að ég vaknaði betur róaðist pirringurinn og ég fyrirgaf nágrannanum partýið. líður nú og bíður og enn hljómar tónlistin. við skruppum á snjóþotu á arnarhóli uppúr hádegi og röltum svo í bakaríið áður en við fórum heim, en þá var kominn eftirmiðdagur. þegar heim var komið heyrði ég að karlfjandinn sem býr þarna einn fyrir neðan okkur var ekkert á þeim buxunum að fara að skrúfa niður í skrambans tónlistinni og þá var ég orðin pirruð. ekki síst vegna þess að hann var sá sem sendi mér miða um daginn þegar ég ruglaðist aðeins á klukkuni og þvoði eina þvottavél uppúr klukkan 23. makinn rauk niður þegar við vorum búin að fá nóg og sagði manninum að troða tónlistinni einhvert þangað sem sólin eigi skín. og síðan þá hefur verið þögn.
þangað til í morgun. þar sem ég dundaði mér við að snúsa á milli vekjaraklukkuhringinga heyrði ég hávær högg, svona eins og einhver hefði sparkað af öllu afli í vegginn eða jafnvel uppí gólfið hjá mér. og dynkirnir héldu áfram þangað til ég gafst upp á svefni og drattaðist af stað að koma fjölskyldunni í gírinn. um klukkan hálf tíu leiddumst við mæðgur fram á gang tilbúnar í tuskið, á leið í leikskólann og framhaldsskólann. (sem minnir mig á það, ég er opinberlega komin með leyfi til að kalla mig kennara, takk fyrir það). nema hvað... þegar við beygjum niður stigann til að fara framhjá hurð karlfjandans opnast dyrnar og út kemur enginn annar en..... taddaraaaaa..... lalli jóns, hinn eini sanni landsþekkti dópisti, fyllibytta, rugludallur og glæpamaður, kengfullur og ógeðslegur. með hvítt þurrt slím í munnvikunum hóf hann kurteisishjal sem var að miklu leyti beint að dóttur minni og hann sagði okkur eitthvað um að löggan hefði verið á eftir sér. sannarlega ekki alveg það sem mann langar í svona rétt eftir að klára að bursta tennurnar.
ég er alveg að spegúlera hvort ég ætti að flytja einu sinni enn.....

Engin ummæli: