föstudagur, desember 28, 2007

það gerðist eitthvað þessa daga sem ég var blaðakona á dé vaff. eitthvað slökknaði í mér og ég get varla fengið mig til þess að skrifa. hvað þá að ég viti hvað skal skrifa um. eigum við ekki bara að segja þetta gott í bili? í boði mannsins með hattinn.

kannski kemst ég í stuð aftur þegar ég byrja að kenna... kannski finn ég essið mitt og fer í það. kannski byrja spennandi hlutir að gerast og aðrir síður spennandi sem gaman er þó að skrifa um. kannski.

en þangað til ætla ég ekkert að vera að eyða tíma ykkar... þínum.

þriðjudagur, desember 25, 2007

jasso. eftir mikla barninga málninga snúninga og bygginga erum við flutt. nú búum við opinberlega við skólavörðustíginn. þá fallegu götu. dagana fyrir jólin sungu kórar reglulega jólalög fyrir neðan gluggann okkar og þar var líka fólk að gefa kakó og mandarínur svo að við höfum ákveðið að halda okkur bara þarna. ég efast um að finnist jólalegri staður á landinu. fyrir utan að við getum horft inní jólabúðina allt árið.
en nú er semsagt næstum allt komið. vantar bara sturtu og efri hluta eldhúsinnréttingar og gardínur og höldur á skápa og vegg fyrir klósettið og vask á baðið og að setja innréttinguna á sinn stað þar og setja saman hjónarúmið og setja saman síðasta fataskápinn og kaupa mublu undir útiföt og mottu fyrir innganginn og ná í sófann. en það er ekki neitt miðað við allt sem við erum búin að gera nú þegar.
jólin eru búin að vera kósí. ég át á mig gat í gær og aftur í kaffi hjá ömmu áðan og sé framá að gera slíkt hið sama enn eina ferðina í hangiketi í sumarbústaðnum hjá lillý frænku á morgun. árlegur viðburður og ómissandi hefð.
svo ætla ég líka að eta góðan slatta á gamlárs en eftir það mun ég reyna að komast aftur á rétt ról.

ég er að bíða eftir sjónvarpskallinum sem ætlar að hleypa okkur í sjónvarpsgláp (reyndar hefur verið ósköp kósí að hafa ekki sjónvarp yfir jólin) og internet og símakallinum sem ætlar að leysa úr bölvuðu flækjunni sem leigjendurnir hérna á undan skildu eftir sig. þá loksins fæ ég net og kemst í alminnilegt samband við umheiminn.
en þangað til ætla ég að borða.

gleðileg jól.

miðvikudagur, desember 12, 2007

hana. þá er sex daga ferli mínum sem blaðakona lokið. ég fékk smá innsýn í veröld sem er nokkuð ólík því sem ég hafði gert mér í hugarlund, en samt lógísk ef ég hugsa málið nánar. það er allavega ekki það sama að skrifa fréttir og það sem ég hélt að væri að skrifa fréttir.
en ég ákvað semsagt eftir mikil heilabrot og vangaveltur að setja fjölskylduna í fyrsta sætið og valdi starfið sem býður hentugri vinnutíma, minna álag og fleiri frí. svo losna ég líka við litla kalla með hatta sem yfirmenn.
ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þó svo að það sé ákveðið egókikk í því að birta texta undir nafni á opinberum vettvangi finnst mér skemmtilegra að kynnast fólki, vinna með því og eiga samskipti önnur en þau að reyna að kreista upplýsingar útúr fólki sem vill ekkert endilega tjá sig um ófarir sínar.
nema hvað. þetta var semsagt ákvörðun dagsins og ein af ákvörðunum lífsins.
í tilefni af henni ætla ég að eyða dögunum fram að jólum við að gera fínt í nýju íbúðinni og drífa mig svo hið fyrsta í að tengja internetið þangað svo að ég geti haldið áfram að skrifa. en þá ætla ég líka bara að skrifa það sem ég vil. gleðifréttir.
sem minnir mig á það. helsta fréttin í gær, að mínu mati, er sú að sem betur fer var ekkert að gerast á lögreglustöðvum landsins. Ég fékk bara ekki að birta það.
Heimurinn er ekkert eins slæmur og hann hljómar þegar allt það sem birtist er um erfiðleika og ósætti.

þriðjudagur, desember 11, 2007

segjum að ég hefði úr tveimur störfum að velja.... segjum að þau séu mjög ólík.... segjum að launin séu mjöööög svipuð.... segjum að ég þurfi að velja helst strax...

eftir hverju á ég þá að fara þegar ég vel?

sunnudagur, desember 09, 2007

það er svooo mikið að gera við að laga nýju íbúðina og fylgjast með fréttunum að ég var næstum því búin að gleyma síðunni minni blessaðri. hún á bráðum fjögurra ára afmæli. mikið líður tíminn hratt og það er eiginlega svolítið fyndið að lesa afturábak og skoða hvað margt hefur gengið á. ég hef búið víðsvegar og unnið hingað og þangað og þetta fer greinilega upp og niður. aðallega upp samt sem betur fer.
núna líður mér eiginlega frekar út og suður.... þetta ætti þó allt að skýrast eftir áramótin.

miðvikudagur, desember 05, 2007

obbosí. bjó óvart til nýtt orð...held ég. var sko að tala um að geta ekki notað hendurnar og þá, eftir langa umhugsun sagði ég að ég væri alveg handvana......og nú get ég varla hætt að hlæja.
nafnið mitt er ekki komið inn, en ég er að pikka inn fréttir á dv.is hehe.... ótrúlegt en satt...
ætla að sjá til hvað ég endist.
það er amk mikið að gera.

mánudagur, desember 03, 2007

hananú. þá er skólinn bara búinn. einn tveir og bingó. ég tók nú lokasprettinn ekki með neinu trompi. eyddi sunnudeginum, semsagt gærdeginum, uppí skóla við lestur og spjall um lesefnið en á heimleiðinni fann ég hvernig að ég varð klessukenndari með hverju skrefinu. þegar ég loksins kom heim fékk ég kulda og hita og verk í augun og hausinn og verstan í hálsinn. og svo las ég bara ekki meir.
í morgun krumpaðist ég í gegnum prófið, sem var sem betur fer sanngjarnt mjög og fór svo bara heim þar sem ég skreið uppí sófa og sofnaði. ég sem ætlaði svo mikið að halda uppá að vera búin... en nú þarf ég á öllum mínum kröftum að halda þar sem nýja vinnan bíður mín í fyrramálið og ekki smart að byrja ferilinn á því að hringja sig inn veika. ónei. ekki minn stíll.

til þess að fagna því að ég get hætt að lesa um heimspekinga og uppeldisfræðinga er ég að hugsa um að verða mér úti um síðustu harry potter bókina. þessa sem systir mín á. djöfull ætla ég að lesa hana í klessu... þegar ég verð orðin hress.

laugardagur, desember 01, 2007

er búin að fá vinnuna ligga ligga lái! lái mér hver sem vill fyrir að vera montin. lá lengi í rúminu í morgun. lá vel á mér eftir gærdaginn.

þá er það bara prófið.
og svo byltingin...mér sýnist ég verða ein um hana...