þriðjudagur, janúar 30, 2007

við hlið mér liggur svoooona stór bunki af ritgerðum, verkefnamöppum, dagbókum og fleira dótaríi sem ég þarf að fara yfir. með rauðum penna. rauðir pennar eru fallegir. bunkinn stækkar eins og óð fluga því á sinn einstaklega krúsídúllulega hátt tekst mörgum nemendum að vera að skila langt framyfir síðustu stundu. og bunkinn stækkar.
ætli ég eigi þetta ekki skilið fyrir að láta þau læra heima blessuð. vissulega væri allt mun rólegra bæði fyrir mig og þau ef við létum alla svona skriffinsku vera, en ætli ég væri þá nokkuð á réttri hillu í lífinu... það myndi menntamálaráðuneytinu allavega ekki þykja. og fleirum. og eiginlega bara mér sjálfri... svo er líka bara gaman að skrifa. fólk virðist samt því miður oft ekki fatta þá staðreynd fyrr en eftir að það er komið útúr skólum. það hefur sennilega eitthvað með það að gera að fólki finnst því vera þröngvað til að skrifa þegar það er í skóla. jújú ég þröngva sosum, en bara af góðmennsku og væntumþykju, enda langar mig til að sjá sem flesta uppfylla þau skilyrði sem uppfylla þarf til að fá hvítu húfuna við ferðalok. og í raun býst ég við því að þau vilji sjálf útskrifast, enda tilgangurinn með skólasetu. þau fatta það bara stundum ekki í amstri hversdagsins þessi sykurpúðarassgöt... mússí mússí.
ef það væri ekki ég þá væri bara einhver annar að segja þeim sömu hlutina. enda liggja pólitískar ákvarðanir að baki en ekki geðþótti minn.
bara ef einhver hefur áhuga á að vita hvað mér finnst.........

svolítið gaman að vera komin hérnamegin við borðið í skólamálum. nú lít ég gömlu kennarana mína öðrum augum. (reyndar ekki alveg alla...en flesta þó)

fimmtudagur, janúar 25, 2007

skemmtilegt að fá svona margar athugasemdir í athugasemdakerfið vegna síðustu skrifa minna. sýnir bara að það eru fleiri sem lesa en ég hélt. slíkt er alltaf skemmtilegt. það er eins og sum umræðuefni hreyfi frekar við fólki og fái það til að segja skoðun sína. yfirleitt virðist ég þó skrifa um hluti sem fær þá sem lesa bara til að hugsa umhm... og halda svo áfram lífinu án þess að finna knýjandi þörf fyrir að gera athugasemdir. ég ætla ekkert að greina þau viðbrögð nánar, enda gæti ég bara komist að niðurstöðum í samræmi við skap mitt og sjálfsmynd einmitt þessa stundina.

nema hvað... tölvan er í viðgerð. það er verið að losa mig við rjúpuna. mikið er ég annars háð blessuðu tækinu hérna á vinnustað. ég er sem handa og fótalaus væri.

fátt að frétta sosum. líður að lokum vinnulotu og þá er alltaf mest að gera. blessuð börnin dæla í mig verkefnum, sem ég hef reyndar kallað yfir mig sjálf, og þá er fátt annað að gera en lesa og gefa einkunnir og lesa aðeins meira og gefa aðeins fleiri einkunnir. ætli ég neyðist ekki til að kaupa mér kók og nammi til þess að komast í gegnum allar ritgerðirnar og prófin sem þarfnast yfirferðar. hver sagði svo að það væri auðvelt að kenna? puh... ekki var það hún ég.
sem minnir mig á það... af hverju er kennaratyggjó svona dýrt?

sem minnir mig á það... rosalega er dýrt að láta laga tölvur.
sem minnir mig á það... mig langar í sól og hita.
sem minnir mig á það... ég er að fara í rauðvínsklúbb í kvöld en mér þykir rauðvín vont.
sem minnir mig á það... ég kann hvorki að sauma né prjóna.
sem minnir mig á það... ég er orðin svöng og ég fór ekki í sturtu í morgun og verð því að fara í sturtu ís turtu íst urtu ístu rtu ístur tu ísturt u í kvöld ík völd íkv öld íkvö ld íkvöl d. þetta er svokallað bloggstam. stamar þú?
ég stama ekki en ég ruglast stundum. ég skrifa oft aðra stafi en þá sem ég hugsa á töfluna. svo segi ég svona förum til amma og öfu. uppáhaldið mitt sagði ég samt þegar ég var unglingur og lá á bakinu við hliðina á fyrstu ástinni með plötuumslagið af plötu með bubba og megasi (nú skrifaði ég óvart bugga áður en ég leiðrétti...hehe), nú og ég horfði á umslagið og spurði vininn svo hvernig honum litist á nýju plötuna með muggasi og beba... hahahahahaha...... það var ógeðslega fyndið. samt held ég að það hefði verið fyndnara fyrir þig ef þú hefðir verið á staðnum og heyrt þetta sko....hahahaha.... en þá hefðir þú þurft að vera heima hjá mér á réttri stundu á árinu 1989... en kannski varstu ekki einu sinni til þá... ef þú ert nemandi minn allavega....hahahaha....

nú er ég hætt.

sunnudagur, janúar 21, 2007

stundum þegar ég á erfitt með að sofna fer ég í huganum nákvæma yfirferð yfir hvert einasta skúmaskot í íbúðinni á efstu hæð til hægri í þrastarhólum tíu. ég byrja niðri í sameign og fer upp stigana. einhverra hluta vegna byrja ég alltaf á íbúðinni innst í þvottaherberginu þar sem frystikistan var, straubrettið og grindurnar þar sem við hengdum þvottinn áður en við fengum þurrkara. í dyrunum var hengi. í eldhúsinu var innrétting sem ég man í smáatriðum. gæti jafnvel talið upp innihald ruslaskúffunnar. ég ferðast í gegnum stofuna og aukaherbergið (skrifstofuna), framhjá fataskápunum sem voru líka veggir og spegill, kíki inná bað, inn til mömmu og pabba og systur minnar, rek nefið fyrir hornið í sjónvarpsskotið (get samt ómögulega munað hvaða sófi var þar...), og enda svo við innganginn þar sem mitt herbergi var. þangað fer ég inn og loka á eftir mér. þá er ég komin inn í eggið mitt.
ég sæki einhverja öryggistilfinningu í minninguna um þennan stað. mér líður vel að vera þar í huganum en á sama tíma sakna ég einhvers sem var. ætli það sé ekki tengt öryggi æskunnar. þegar mér hefur liðið illa langar mig aftur ,,heim" í herbergið mitt sem ég átti frá fimm til tuttugu ára. litla konungsríkið mitt.
núna líður mér vel. ég er samt að hugsa um að skreppa í göngutúr um gamla hverfið fljótlega.
nostalgía....mmmmm.....

fimmtudagur, janúar 18, 2007

hananú. þegar ég kveikti á tölvunni minni í morgun var dauð rjúpa á skjánum.
einhvur andskotinn hefur komið fyrir og núna er hann brotinn upp í furðulega liti og þvert yfir hann þveran og endilangan hornanna á milli og út um allt er hvít rjúpulaga klessa með svartan gogg. ætli ég þurfi ekki að fá nýjan skerm, ég meina skjá... skrattinn.
annars er ég bara með mjög pirrandi ósýnilegt augnhár í auganu, bólur á milli augabrúnanna eftir svilkonuna með vaxandskotann og ósamstæða lengd á nöglunum. ekki það að það trufli mig reyndar....
lífið dúllast áfram í sínum litlu rútínum. reyndar er makinn frá heita landinu farinn að örvænta aðeins yfir kuldakastinu og vill helst synda til kanaríeyja ekki seinna en strax. ég bíð bara þangað til sú löngun hverfur, enda vopnuð eins og áður hefur komið fram, óendanlegu jafnaðargeði og þolinmæði. stundum er reyndar ekki gott að vera of þolinmóður og rólegur því þá á fólk til að vaða. ég kötta á fólk sem veður þó gott sé veður fái ég veður af slíku.
cucurrucucu paloma......

laugardagur, janúar 13, 2007

ég var að enda við að horfa á 3ja þátta bbc seríu sem heitir the power of nightmares. ég vil leyfa mér að mæla með henni við alla sem hafa ekki séð hana og mér þætti gaman að heyra hugsanir ykkar um innihaldið. (hún er sko ekki um svona drauma-martraðir heldur pólitískt ástand heimsins)
http://www.informationclearinghouse.info/video1037.htm

mánudagur, janúar 08, 2007

í morgun lá innihald hanskahólfsins eins og hráviði um bílinn eftir einhvern aparass sem hefur fattað að makinn gleymdi að læsa hurðinni í gærkveld.
barnabílstóllin, útvarpið, regnföt og ónotaðir vegglampar voru á sínum stað. semsagt efnisleg verðmæti voru skilin eftir.
annað hvort hefur þjófurinn verið frá spænskumælandi landi, verið blindur eða verið fífl því það eina sem hann tók voru geisladiskarnir mínir sem ég dunda mér við að syngja með í bílnum. eða gerði amk. þar til nú.
mexico en la piel með luis miguel, más með alejandro sanz, brenndur diskur með salsatónlist og annar með kúbanskri sveitatónlist var innihald míns litla fjársjóðar.
ekki beint það sem ég býst við að dóparar eða fávitar í undirheimum reykjavíkur séu að hlusta á dags daglega. það gæti þó reyndar alveg verið...svona tæknilega....
einhverra hluta vegna grunar mig þó að diskarnir mínir séu komnir í ruslafötu einhverstaðar.
mikið er ég svekkt.

föstudagur, janúar 05, 2007

nú er ég aldeilis ekki búin að vera dugleg að tjá mig, enda nóg að gera.
snúa sólarhringnum við eftir frítíðina, koma skipulagi á nemendurnar, gerast nemönd sjálf og tékka mig aftur inn í raunveruleikann.

annars er gaman frá því að segja að nýja skólanum mínum er skrambi fínt. ég er semsagt lögð af stað í fjarnám í káháí en þar er fólk að kenna mér að kenna fólki. sem er gott, enda má ávalt á sig blómum bæta og að gráðum gæta og vitið væta og kollinn kæta og markmiðum mæta og takmörk tæta og skoðun sæta og það heldur betur allt í senn nema hvort tvegga sé ef vera skyldi bæði og hérumbil og hananú.

það er margt fólk og mismunandi lagt af stað í sama námi og ég. allir sem ég hef eitthvað átt saman við að sælda hafa reynst hið fínasta fólk, nema leiðinlega konan í hvítu úlpunni. en það er ekkert að marka hana því mér hefur þótt hún leiðinleg síðan 1995. samt þekki ég hana ekki. bara ein af fáum týpum sem stinga mig í taugarnar án alls samneytis. og við samneyti hvursu smávægilegt sem það er. og þarf mikið til. svei mér þá ef það er ekki bara einhver undirliggjandi beiskja og óhamingja og ótrúverðug ytri semi-almennilegheit hennar sem eru að stuða mig. ... eitthvað við þetta augnalausa bros...

nema hvað. heimilið er að komast í samt lag eftir brottför útlendinganna minna og matvælin í ísskápnum aftur aðlöguð að einföldum neysluvenjum okkar heimilismeðlima. ég á bara eftir að losa mig einhvernvegin við fullan poka af sellerí (sem mér finnst mjöööög vont), þrjár radísur, poka af basilíku, nokkra allskonar skrýtna lauka, gula papriku, tómatdjús og helling af lime sem þau keyptu og skildu eftir en ég kann ekkert að nota. ég losaði mig við laxahrognin og laxapatéið til foreldranna en gleymdi að troða fjárans selleríinu uppá móður mína sem étur slíkan ófögnuð.

hvar er annars systir mín?

þriðjudagur, janúar 02, 2007

hana. gleðilegt árið.
enn eitt ár byrjað og það ansi kúl... 007. í ár verður gaman að fæða börn þann sjöunda júlí. sérstaklega fyrir fólk með kennitölueinhverfusyndróm eins og mig.
leitt að ég skuli ekki vera ólétt og komin eina 2 mánuði á leið. það verður víst ekki á allt kosið.
annars voru áramótin fín. haldin í fyrsta sinn heima hjá mér sem fullvaxta dömu. foreldrarnir komu í mat (sem makinn eldaði reyndar) en fóru svo heim til að hegða sér eins og íslendingar yfir skaupinu. ég og útlendingarnir spændum í perluna til að geta gónað í hringi á meðan á uppskotunum stóð. þau þarna að utan voru voða glöð, leið víst eins og í disneylandi, en makinn sprengdi og brenndi og endaði uppákomuna með því að brenna af sér hálfa augabrúnina og framanaf augnhárunum eftir að einhver api í nágrenni við okkur tendraði kolbeyglaðan flugeld sem fór beinustu leið inní mannfjöldann.
það vantar aldrei vitleysuna sosum. ég er þó fegin að ekki hafi farið verr.
nú og eftir eldaáhorf keyrðum við aftur niður í bæ þar sem börnunum var skilað í pössun og svo röltum við ein 15 skref að barnum svokallaða þar sem við drukkum öl og brostum framaní tannlausan englending á amfetamíni til um klukkan fjögur. þá var mér allri lokinni og svo svaf ég eins og grjót vel framyfir hádegi.
nú liggur mér á að snúa sólarhringnum við eftir allt þetta jólafrísframeftirvökumorgunhangsfyllerí. það verður hægara sagt en gert.
fyrsta skref verður að endurheimta mjúka rúmið mitt á miðvikudaginn þegar mágurinn og svilkonan fljúga 6 klukkutíma aftur í tímann.

en nú er ég semsagt farin að sofa.
góðar stundir.