fimmtudagur, ágúst 31, 2006

svei mér þá ef ég hef ekki nælt mér í anorexíu í síðustu viku þegar ég dröslaðist aftur í litla líkamsræktarsalinn minn. þar steig ég á vigt og fann hvernig himnarnir hrundu yfir mig, sem aftur hjálpaði ekkert til þar sem það er ákveðin þyngd í himnunum. samt er ég ekkert mikið þyngri en ég var í vor. ég er bara aðeins meira biluð en ég var í vor. og nú þjáist ég af geðveilu á háu stigi sem felst í stanslausri löngun til að borða drasl og hreyfa mig til að losna við kílóin atarna og borða hollan mat og liggja eins og klessa, allt á sama tíma. kannast einhver við sindrómið?

nema hvað. nýju nemendurnar mínar eru eintómir snillingar. stórskemmtilegt fólk og ekki skemmir að þau eru drullusniðug upp til hópa. mig er reyndar farið að gruna að nokkur þeirra séu komin í beinan ættlegg af bibbu á brávallagötunni, enda flæða gullmolarnir uppúr þeim eins og þau fái borgað fyrir, sem er ekki.
ein tilkynnti okkur tildæmis um daginn að sessunautur hennar væri hræddur við loft. skömmu síðar kom í ljós að drengurinn var lofthræddur.
ég er farin að stelast til að skrifa hjá mér svona ,,best-of" lista...hér er byrjunin á honum:
tvær óstjórnlausar lestir rákust saman og mikil skelfing tók um sig. smátt saman róaðist þó fólkið en lögreglan talaði við lestarstjórana og svipti af þeim ökuleyfinu.
ég versla áfengið mitt í vínvörubúðinni.
kæru ræðugestir...
vinkona mín var með bólimíu...
stundum getur það hentað sér vel að prufureyna hlutina.
hér er ég með lykil sem ég man ekki hvað gengur að...en ég er búin að einka mér skáp.
nú og þá tók ég bara mál með vexti og reddaði hlutunum.

stundum velti ég fyrir mér hvort ég er eina manneskjan í stofunni sem virkilega tekur eftir þessu... en mikið assgoti langar mig oft til að skella uppúr. hef þó hemla á mér.

snillingar segi ég...eintómir snillingar...

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

er að hlusta á eddie skoller syngja what did you learn in school today.
eintóm hreinasta snilld, en ég er ekki alveg að átta mig á því hvað varð um indverjann sem sagði no rice and curry, but lots of peanutbutter and jam. eitthvað soleis.

annars er það að frétta að ég þjáist af bloggleti eins og sjá sosum má undanfarið. ég er hreint ekkert að brillera á ritvellinum. er samt almennt ánægð með lífið og tilveruna. þjáist ekki af þunglyndi né nokkru slíku. er frekar þekkt fyrir léttlyndi ef eitthvað er.

mig langar í dansskóla. ég kann að dansa beisik salsa og er fín í merengue en væri alveg til í að læra meiri hristing og djöfulgang.

nema hvað. þarf víst að vinna...

sunnudagur, ágúst 20, 2006

sá löður til sölu í búð í útlandi. langar til að sjá þá aftur til að kanna hvort þetta séu í raun eins skemmtilegir þættir og þeir eru í minningunni. væri líka til í að kíkja á cosby show, en einhverra hluta vegna grunar mig að þeir myndu valda mér vonbrigðum í dag. það sama held ég um húsið á sléttunni.
mig langar að sjá prúðuleikarana aftur því ég missti af þeim hérna um árið þegar þeir voru að mig minnir endursýndir á einhverri ruglaðri stöð. nú og svo væri gaman að sjá derrick og íslensku þættina þarna um fjölskyldurnar í raðhúsinu. man ekki í augnablikinu hvað þeir hétu. ég hef ekki nennt beverly hills og dallas aftur á undanförnum árum og svo varð ég fyrir heiftarlegum vonbrigðum þegar ég sá aftur áfram-mynd sem mig hafði minnt að væru yfirmáta fyndnar og skemmtilegar. slatta árum síðar þóttu mér þetta hálf aumkunarverðar klám- og karlrembubrandaralegar tilraunir til fyndni. benny hill datt ofaní sama pytt. það er sennilega af hræðslu við það sem ég þori ekki að horfa aftur á bleika pardusmyndirnar. svo er það kannski frekar ég en myndirnar sem er gölluð. ónýt eftir að læra mannfræði og verða ,,fullorðin", húmorslaus og gagnrýnin, get ómögulega haft gaman af ljótum körlum hlaupandi á eftir hálf nöktum skrækjandi stúlkum sem gætu verið barnabörn þeirra. óttalega húmorslaus og beisk eitthvað.
ef ég pæli nánar í því þá þarf alltaf meira og meira til þess að ég hlægi. svona almennilegum ha ha ha ha ha hlátri. svona illt í magann eða tár í augun.
nja, jú, ég hlæ alveg. jújú, hvaða vitleysa.... ég er alveg hress...

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

komin til landsins og byrjuð að vinna. það er súrt að búa í boxum en ég ætti svosem að vera vön, jújú oseisei. mig langar í sýklalyf því ég þarf endalaust að pissa sviða en það er ekki heiglum hent að fá slíkt við slíku, hvað þá að ná í fjandans lækninn sem hefur valdið yfir lyfseðlunum. hvar þarf ég að panta tíma og hversu lengi þarf ég að bíða og svíða? mig vantar lækna express eða apótek sem getur afgreitt mig um það sem ég þarf þegar ég þarf það án milliliða eða margra klukkustunda þjáninga. já ég veit að það þarf að passa svona dót eins og lyf en mér líður illa og heimilislæknirinn minn er upptekinn þangað til á morgun, læknavaktin opnar ekki fyrr en í kvöld og það er hvergi símatími fyrr en eftir klukkutíma. á meðan sit ég með súran svip og líður hreint ekki vel.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

nú er verið að undirbúa heimför. kaupa dótarí og svoleis.
verst að andrés, sá sem lenti í öðru sæti í forsetakosningunum er að gera mér erfitt fyrir.
þannig er nefnilega mál með vöxtm að hann er ekki sáttur við útkomuna og segir kosningarnar hafa verið svindl. fylgjendur hans hafa hlýtt kalli karls og hafa sett upp tjaldbúðir hirst og her um helstu stræti borgarinnar þannig að nú er þessi múltimilljónmannaborg í kaos, enginn kemst neitt, metro að sprengja utanaf sér og við erum ef svo mætti kalla, gíslar á heimilinu. eins gott að gísli kom ekki með.
ég sem ætlaði í miðbæinn í innkaupaferð. þar er nú fólk sofandi á götunum og það sem áður hefur tekið okkur 20 mínútur að keyra tekur nú einn til tvo tíma, og þá verður ekki einusinni hægt að leggja nálægt áfangastað. svona virðist ástandið ætla að verða út vikuna.
bölvaðir vitleysingar. margir eru farnir að sjá eftir að hafa kosið hann. ég sæi eftir því hefði ég getað kosið og hefði ég í því tilfelli kosið hann.

nú er ég farin að henda útrunnum lyfjum úr meðalaskúffu tengdapabbans. svona til að hann fari ekki að drepa sig á þessum andskota blessaður karlinn.