þriðjudagur, ágúst 30, 2005

ef einhver veit um bakvöðvagjafa þá vinsamlegast látið þá hafa samband við mig í gegnum athugasemdakerfið. mig vantar þessa þarna sem liggja á milli herðablaðanna og valda tölvuviðsetuverkjum. ég er alltaf að reyna að flikka uppá þá sem mér voru gefnir í móðurkviði en þeir eru bara ekki alveg að gera sig. skítt að þessir skrattar komi ekki með ábyrgð og skiptimiða.

ég var að lesa óskaplega skemmtilega bók um félagsfræði en hún var rituð einhverntíman á sjötta eða sjöunda áratugnum. nema hvað að þar er talað um andlegt hispursleysi. þetta þótti mér hljóma svo skemmtilega og spennandi að ég skrifaði það á töfluna hér við hlið skrifborðs míns og svo glotti ég við og við þegar ég rek augun í andlega hispursleysið. hinsvegar get ég ekki alveg sagt að ég skilji hvað felst í orðunum að öllu leyti. hvernig mynduð þið skilgreina andlegt hispursleysi? er það gott eða vont?

jæja, nú er ég orðin hungurmorða og þá er best að borða, fá sér forða án þess að einskorða sig við samlokuborðið, nú hef ég orðið og játa á mig morðið á gamla bílnum.

sjitt hvað ég er lélegur rappari....

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

tölvan mín dó. það var víst vatninu að kenna sem sullaðist yfir hana um daginn. síðan þá hefur hún verið að veslast upp greyið og í gær drukknaði hún endanlega.
blessuð sé minning hennar.
en harði diskurinn er í lagi svo að upplýsingunum mínum er borgið. heill sé himnunum og þökk sé sófóklesi og lengi lifi allir heilagir andar og veðranna guðir og verndandi englar og gæfunnar smiðir.
landsins æskulýður og aðrir þroskaðir lesendur, lærið af fyrrverandi yfirvofandi katastrófu í lífi mínu áður en hún mun ná að læsa klóm sínum beittum í hold yðar þaðan sem ljúfustu tónar munu eigi ná að tæla hana og fá hana til að sleppa af yður hvössu sársaukafullu takinu og óáreitt mun að endingu draga yður til andlegs dauða og sálarlegrar eymdar.
vistið reglulega upplýsingar yðar úr rafeindaskjátölvubúnaði og eigið afrit af öllu því er þér megið ómögulega missa.
munið boðorðið, því meira sem eigið þér á diski hörðum, því gífurlegri hættan á háu falli af himnum ofan. nema himnarnir hrynji yfir okkur á undan tölvukerfunum....

hjálpi okkur allir heilagir!

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

jæja, þá er tölvan mín enn eina ferðina með stæla og hér sit ég inni á skrifstofu að stelast í stóru tölvuna svo ég fái ekki kaldan kalkúna sökum internetskorts.
heimilið mitt er hlaðið mexíkönum þessa dagana og er það vel. gott að fá hlýja menningarstrauma í kjallarann og tequila í eldhússkápinn. svo kemur þetta lið alltaf með svo fjandi mikið af gjöfum að það mætti næstum halda að jólin væru komin. þá hefði ég nú bara sagt feliz navidad og sungið bóní emm lög í tilefni dagsins.
eini gallinn á gjöfunum er sá að einhverra hluta vegna virðist þessi blessuð tengdafjölskylda mín endalaust misskilja mig og minn smekk og stíl og þau gefa mér alltaf skartgripi og fatnað sem ég læt bara sjá mig í og með í þeirra návist. svo fer klabbið ofaní skúffu þar sem það bíður næstu heimsóknar.
en börnin mín og makinn fengu voða fínt og mun nothæfara dót, og nóg af því, enda eru gestir dagsins kaupsjúklingar.
mér finnst alltaf fyndnast að sjá takkþettaeræðislegtúffsvipinn á minni elskulegu systur þegar hún fær alveg eins glingur og ég.....híhíhí......
ég hlakka líka til að sjá svipinn á mömmu þegar hún fær svarta þykka bjölluskreytta hálsfestar og armbandssettið sem bíður hennar heima í kjallara.....muahahaha....

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

ég hefði sennilega átt að gerast verkfræðingur. gerði það þó ekki sökum stærðfræðifælni á háu stigi. fékk þá fælni um leið og einkunnirnar fóru niður í 6 og 5 í lokaáföngum framhaldsskóla en þá var mér semsagt ætlað að diffra og tegra en hugurinn var staddur í ástarbréfum til útlanda svo að ég diffraðist öll í klessu og tegraði mig út í horn. síðan þá hef ég staðið föst á því að ég sé óhæf til stærðfræðilegra hugsana.
reyndar er ég voða klár við að fatta allskonar reglur þegar á hólminn er komið, en ég hef forðast öll hin síðustu ár að leggja af stað á hólminn. þessvegna lærði ég félagsvísindi og tungumál og þess vegna ákvað ég að aðferðafræðin væri hryllingur. samt stóð ég mig ágætlega þar miðað við að hugurinn var duglegur við að telja mér trú um að ég væri ömurleg og þetta væri pynting.
nema hvað, pælingin um verkfræðina kemur til af því að hér í kennaravinnuherberginu er sko hlussu-málm-rimla-gardína sem slæst alltaf með hávaða og látum í glerhurðina þegar einhver stingur hausnum inn eða jafnvel öllum líkamanum.
í morgun féll dropinn sem fyllti minn annars risavaxna mæli og ég fór á vettvang þar sem ég safnaði saman kennaratyggjói, bréfaklemmum og rúllu af borða í íslensku fánalitunum. vopnuð þessum græjum tók ég til við að hneppa renna smella hnýta og voilá, nú má skella og vesenast án þess að í gardínunni heyrist múkk.
múkk eru hvimleið.
og nú sit ég hér með smækkaða hátalara í eyrunum og hlusta á suðrænu tónlistina mína og vonast til þess að einhver fari að drullast til að mæta og taka eftir meistaraverkinu svo ég geti barið mér á brjóst og sagst vera snillingur. (að sjálfsögðu væri ekki verra ef einhver tæki af mér ómakið og segði mig snilling að fyrra bragði, en ég er tilbúin til þess að gera það sjálf ef út í það fer).

hvar eru allir?

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

djöfullinn, ég skrifaði færslu í gær, voða fyndin og sniðug eins og alltaf, svo dó hún.
hún var um að ég var semsagt að byrja að kenna aftur í gær sko og mér fannst svo sniðugt hvað þetta eru litlir krakkar sko þúveist nefnilega eru þau fædd nítjánhundruðáttatíuogníu og þá var ég byrjuð að djamma og djúsa á leið útúr grunnskóla og átti kærasta og var formaður nemendaráðs og átti háhælaða skó og rauðan varalit og perlueyrnalokka og svo skrifaði ég í gær sko að þá var þetta lið ennþá legvatnsblautt og þá fannst mér ég svo fyndin þúveist að hérna ég hló eiginlega alveg bara að því hvað þetta var sniðugt hjá mér skiluru og svo bara hvarf hérna færslan sko...

föstudagur, ágúst 12, 2005

og nú er ég öll hvítklístruð á fingrunum vegna þess að makinn ákvað í einhverskonar sparnaðarkasti að kaupa ekki terpentínuna sem ég otaði að honum þar sem við stóðum í málningarbúð og fjárfestum í viðarvörn fyrir innganginn. klístrið er þó eiginlega meira hvíta lakkinu að kenna sem ég klístraði á gluggakarmana inni á nýgræna stigaganginum mínum þar sem ég stóð á tröppum í tröppum með lofthræðsluhnút í maganum, lakkdós í einni, aumingjalegasta pensil í heimi í hinni og tunguna út um munnvikið.
heimilið mitt er að verða voða fínt. ætli ég panti ekki barasta pítsu í tilefni dagsins og dugnaðarins.

og nú vil ég biðja ykkur foreldra stúlkubarna um að ráðleggja mér. hvernig er hægt að losna við króníska klobbalykt af litlum koppanotandi stúlkum sem fara þó í bað daglega?

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

ég er stödd á litlu námskeiði þar sem er verið að kenna kennurum á innraskólatölvukerfið sem við eigum víst að notast við héðanífrá.
voða viðskiptavænn þessi tæplega fertugi snyrtilegi og vel klæddi maður sem er búinn að selja okkur kerfið.
en mikið andskoti slettir þessi skratti mikið á ensku...

sunnudagur, ágúst 07, 2005

vika eftir af fríinu mínu. tilhugsunin vekur undarlega söknuðartilfinningu fram í tímann. ég sakna frísins sem ég er ennþá í. ekki það að vinnan mín er svosem ósköp fín, sérstaklega fyrir áramót, en frí eru skemmtilegri.
hvaða störf gæti ég fundið mér sem veittu mér svigrúm til þess að vinna heima hjá mér á mínu eigin tímaplani? ég er nefnilega vampírutýpan. vinn mun betur á næturna heldur en snemma dags. gæti auðveldlega unnið á kvöldin eftir að börnin eru sofnuð. geri það meira að segja þegar þannig verkefni liggja fyrir s.s. semja próf, fara yfir ritgerðir og þessháttar.
hvaða fólk vinnur heima hjá sér?... rithöfundar, mmm...hljómar vel en ég veit ekki hvort ég hef það sem þarf. hvað er annars það sem þarf?
úff, mig langar að vinna við að skrifa og búa til dót og hugmyndir og fá fullt fullt af peningum fyrir það.

en mér dettur ekkert í hug.......

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

ég fór með makann til læknis í morgun. hann hefur nefnilega verið sárþjáður í neðra baki og ég pantaði fyrir hann tíma hjá heimilislækninum þegar ég gat hreinlega ekki horft uppá þessa hörmung lengur. (verkina sko, ekki makann).
núnú, sem oft og endranær var heimilislæknirinn í fríi þannig að okkur var vísað til staðgengils hans sem reyndist vera hávaxinn, hárlítill ungur maður talsvert yfir kjörþyngd. ósköp indæll og eiginlega bara svolítið bangsakrúsílegur. allavega jafn krúsílegur og hárlitlir hávaxnir menn yfir kjörþyngd geta orðið.
nema hvað, hann teygði og tosaði makann, lamdi hann í hnén, beygði hann fram og aftur, hægri og vinstri og ég túlkaði öll litlu læknisfræðilegu orðin sem makinn kannaðist ekki við að skilja.
það getur verið óheyrilega skemmtilegt að fylgjast með fólki tjá sig við útlendinga á íslensku, það verður eitthvað svo sniðuglega ýkt í líkamlegum útskýringum.
nema hvað, bangsímon skrifaði uppá verkjastillandi og bólgueyðandi og þuldi svo upp ýmiskonar ráð sem bakviðkvæmum ber að fara eftir í þeim tilgangi að forðast framtíðarverki. framtíðarverkir eru sko verkir sem eru ekki enn komnir en munu koma ef ekki er farið að áðurnefndum ráðum.
nema hvað, að upptöldum löngum lista ráða ákvað sá þungi að setja punktinn yfir i-ið með því að sýna okkur þessar líka fínu bakstyrkingaræfingar sem við ættum endilega að prófa. minn maður skellir sér með andlitið á hurðina, treður höndunum á sér á milli brjóstanna og hurðarinnar og teygir svo höfuðið eins og fimasti svanur í átt að okkur. þetta endurtók þessi elska um það bil sjö sinnum eins og til að leggja áherslu á orð sín um hvað þetta væri góð æfing, nema auðvitað ætti að framkvæma hana liggjandi á gólfinu.
þóttu mér þetta nú frekar skondin tilþrif en þegar ég leit mér á hægri hönd og sá hvar makinn faldi andlitið í höndum sér sökum óviðráðanlegs hláturskasts gat ég ekki haldið aftur af mér og fékk kjánafliss.
afgangurinn af læknisheimsókninni fór í að þurrka tár, sjúga upp í nef, forðast augnsamband við makann og reyna að stynja upp einhverri fáránlegri útskýringu á því hvers vegna við sætum þarna með hland í brókunum úr hlátri.
krúsilíus brosti bara að okkur en á svip hans tókst mér engan veginn að sjá að hann hafi gert sér grein fyrir raunverulegri ástæðu hláturkastsins. hann hefur sennilega bara haldið að útlendingurinn hafi prumpað.
þetta var hreint út sagt sú hressilegasta læknisheimsókn sem ég hef lent í.
og makabakið er allt að skána.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

séu einhverjir eftir sem lesa ennþá þessa himinbrúnu síðu mína langar mig til að spyrja ykkur álits á því sem skrumskælir þanka mína í dag.
til þess að spara ykkur langan lestur og forsögu ætla ég að vinda mér beint í þungamiðju vandamálsins, þangað sem stóra spurningin (samkvæmt sjálfri mér) liggur.
skiptir engu máli hver kennir félagsfræði á framhaldskólastigi?

dótturspurningar þessarar spurningar væru svo eftirfarandi:
er ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum félagsfræðilegum metnaði í félagsfræðikennslu á þessu skólastigi og þarf svo ekki að vera? er félagsfræðin í raun svo mikið kommon sens kjaftafag að hver sem er getur sett sig inní hana á nóinu? getur skrifstofukona með guðfræðimenntun kennt hana á sömu forsendum og manneskja tja segjum til dæmis með ba próf í mannfræði? (mannfræði er sko systir félagsfræðinnar fyrir þá sem ekki vita).
er félagsfræðilegur þankagangur ekki eitthvað sem teljast má gott og gilt og jafnvel nauðsynlegt að kynna fyrir ungviði þessa lands? (svo ég taki nú fullorðinslega til orða)
hefði mannfræðiútskrifaða manneskjan (sem má þó ekki kalla sig mannfræðing því hún er ekki með master), þá alveg eins getað skippað háskólanum og farið beint að kenna félagsfræðina?

allt þetta leiðir mig svo að einum og sama staðnum, sínkt síknt sýknt signt og heilagt, sem er hin talsvert opna spurning: eru íslenska, enska og stærðfræði einu fögin sem virkilega skipta máli allt framundir háskólann og þau einu sem virkilega virkilega virkilega þarf að leggja metnað í?

spyr sú sem hreinlega ekki veit lengur...