föstudagur, júní 29, 2007

litla raðhúsahverfið er rauðglóandi. fólk hvíslar sín á milli með froðu í munnvikunum og ráfar eins og uppvakningar með reytt hár á milli húsa. það er einhver rauð glóð í augunum á þeim öllum í dag.
forsaga reiðinnar er sú að gabríel í húsi 7 er að ljúka tímabili sínu sem umsjónarmaður. umsjónarmaður er sá sem rukkar alla og sér um garðyrkjufólkið, hliðlögguna, ruslakallana og svona. hann er víst ekki búinn að standa sig vel. og svo svindlar hann og segist vera búinn að breyta allskonar reglum eftir að hafa látið kjósa um það og fengið meirihluta húsanna með sér í lið. eftir nánari rannsókn kom uppúr kafinu og þessar ,,kosningar" hans voru bölvað svindl og svínarí og fátt af því sem hann hefur gert á sér löglegar forsendur. karlarnir eru núna saman heima hjá einum þeirra að spila dómínó og plotta einhverja svakalega starfsemi fyrir fundinn sem á samkvæmt löglegum kosningum að vera haldinn á morgun. ivonne konan hans gabríels er að fara að synda á laugardaginn svo að hún vill ekki láta halda fundinn á morgun (föstudag - það er ekki enn komið miðnætti hjá mér). þess vegna segir gabríel nei. en flestir hinir já.
svona er allskonar bull og vitleysa búið að hrærast í hausnum á körlunum sem eru sjóðandi bullandi brjálaðir og kerlur þeirra annað eins, enda góðar í slúðrinu og í því að láta smæstu sögur hljóma löðrandi safaríkar.
aumingja gabríel er víst orðinn hálf smeykur og vill helst sleppa við fundinn. láta loreto og fefu bara hafa umsjónarmennskuna undir borðið og þurfa ekkert að horfa framaní reiða lýðinn. það gerir lýðinn ennþá reiðari.
merkilegt hvað svona lítið samfélag getur orðið flókið.
við litla fjölskyldan í númer átta höldum hlutleysi okkar, enda utanríkismál. hús númer átta stendur nefnilega á íslenskri jörðu. við erum sendiráð. samkvæmt mér.
við erum líka alveg græn í þessu öllu, enda nýkomin. og satt best að segja gæti mér ekki verið meira sama.

dæmi um smámunasemi fólks í hverfinu: veronica setti málningardós ofaní aðra dós og í ruslið. ruslakarlarnir hrifsuðu dósirnar og smá hvít málning sullaðist á milli tunnanna. hún vill ekki segja neinum af því (nema mér því ég er sendiráð), því að hún skammast sín svo mikið. dularfulla málningarsullið er búið að vera á vörum kvennanna alla vikuna. hvernig stendur á því að löggan sá ekkert? gætu það hafa verið börnin í boltaleik? en þau voru hrein! löggan segist hafa fylgst með ruslaköllunum og ekkert séð. gæti hann verið að ljúga?

hann var útsmoginn og snar, enginn vissi hver hann var.....

fimmtudagur, júní 28, 2007

netið með stæla í dag. kemst ekki inn nema með því að stela þráðlausu tengingunni hjá nágrannanum. hún er leiðinleg. það tekur víst allt að 3 daga fyrir rassgötin að laga tenginguna mína.
vonandi lagast hún fyrr.
þangað til verð ég takmörkuð.

ps. hvað þýðir culo?
litlu rassgötin synir fráskildu konunnar stálu nokkrum af púslunum mínum. konan sem passar þá henti þeim í ruslið. og ég er svekkt.
ég er að hugsa um að banna dóttur minni að vera kærastan þeirra. í hefndarskyni.

móðir mín og faðir prófuðu messenger í fyrsta sinn í dag. þau voru alveg hissa hvað þetta er sniðugt fyrirbæri. fyrsti fjölskyldufundurinn á netinu var haldinn áðan. það var gaman. við erum nefnilega svo sniðug fjölskylda, þó ég segi sjálf frá.

í dag eldaði ég. aldrei þessu vant. og maturinn var góður. aldrei þessu vant. svona getur maður nú komið sér á óvart. ég sá að fólk var hálf hrætt við að prófa, af fenginni reynslu, en þau urðu jafn hissa og ég.
í fyrradag fór ég að kaupa í matinn allt dótaríið sem ég þurfti fyrir hina svakalegu grænmetisrétti sem ég eldaði í dag. í uppskriftinni stóð að ég þyrfti að nota kókosmjólk. ég fór og keypti eitthvað sem heitir crema de coco. 4 dósir því að ég ætla aldeilis að vera dugleg í eldhúsmálunum á næstunni. þegar ég opnaði fyrstu dósina í dag gerði ég mér grein fyrir því að þetta var svona sætt sull til að nota í piña colada, lyktaði eins og sólarvörn. ég rauk útí búð, enda með fullan pott af sætum kartöflum, lauk og graskeri, og bað um kókosmjólk. búðargaurinn fór með mig beint að hillunni þar sem piña colada-mixið var. ég sagðist nú aldeilis ekki ætla að gera sömu mistökin tvisvar, en hann kannaðist ekkert við kókos- mjólk. bíddu hægur, sagði ég og stakk nefinu inní allar hillur búðarinnar, svona eins og sherlock holmes myndi gera. mig vantaði bara stækkunarglerið og hatt. að lokum kom ég að hillunni þar sem asíski maturinn var. sushi dót og svona. þar stóðu þær, rauðar og glansandi og á þeim stóð ,,leche de coco importada" og svo eitthvað á kínversku. hróðug staflaði ég fjórum dósum í fangið og ráfaði með montsvip um búðina þangað til ég fann gaurinn aftur. sjáðu, sagði ég. þetta er kókós MJÓLK... ekki notuð í kokteila heldur til matargerðar. hann varð hissa og sagðist aldrei hafa séð þetta áður.
mig grunar sterklega að grænmetisréttatrendið sé ekki enn komið hingað til lands.
og ég get ekki fyrir mitt litla líf fundið túrmerik.

miðvikudagur, júní 27, 2007

var að bæta stínu við tenglalistann minn. ég held amk að þetta sé sú stína sem ég held. annars var ég bara að bæta einhverri stínu við... en það skiptir sosum ekki miklu.

í dag fór ég snemma með svilkonunni og yngri syni hennar, þessum óþolandi, börnunum mínum, loreto í næsta húsi og sonum hennar inní borg. við byrjuðum á því að fara með óþolandi krakkann til læknis. svo eyddum við deginum í verslunarklasa, á veitingastað og í bíó og enduðum með því að fara með nýrnaveika drenginn til læknis.
ég kom heim með hausverk eftir að hafa haft óþolandi drenginn fyrir aftan eyrað á mér alla leiðina heim. hann talar og talar og talar og talar. og ef hann er beðinn um að hætta að tala þá talar hann meira. og þessi rödd..... ó þessi rödd... ég gæti dáið. hún nístir merg og bein. nýrnaveiki drengurinn sat við hliðina á mér og andaði vondri lykt. enda nýbúinn að missa hálskirtlana.
hausverkurinn var samblanda af hávaðamengun og andfýlu.
mikið líður mér vel að vera komin heim.

þriðjudagur, júní 26, 2007

í dag var hellt úr fötu. frumur og geldingar. síðburðurinn vakti lukku í pollagalla og stígvélum á meðan innfædd börn hlupu úr skjóli í skjól með beyglaðar regnhlífar. börn í mexíkó eru ekki vön að leika sér í rigningu. þvert á móti eru þau skömmuð fyrir að hætta sér út í bleytuna. þau gætu orðið veik. hérna trúir fólk því að það muni veikjast af öllum skrattanum. ekki vera berfætt, þú gætir orðið veik. ekki vera á stuttermabol í rigningu, þú gætir orðið veik. ekki láta vindinn blása á þig, þú gætir orðið veik.... ekki nema von að þetta lið verði veikt af öllu ef það er alltaf að passa sig.

í dag fór ég og keypti í matinn. keypti fullt af allskonar dóti sem ég hef aldrei keypt áður vegna þess að á morgun ætla ég að elda! það er í raun í frásögur færandi. ég ætla meira að segja að búa til rétti uppúr hagkaupsuppskriftabókinni sem ég keypti mér í bjartsýniskasti einhverju áður en ég yfirgaf klakann. það verður spennandi að sjá hvað kemur útúr eldamennskunni atarna. ég er eiginlega spenntust sjálf.

vonandi verður betra veður á morgun.

ps. hvað þýðir paraguas?

mánudagur, júní 25, 2007

í morgun flaug lítill fugl inní stofu til mín þar sem ég sat og lærði. ég stökk upp af sófanum og hljóp í hringi um stofuna á meðan ég reyndi að ná mér saman í andlitinu og ákveða hvaða aðgerða ég ætti að grípa til. fyrst datt mér í hug að fá hjálp svo ég bankaði hjá nágrannanum. enginn svaraði. makinn minn sem sér yfirleitt um að leysa svona krísur var farinn að vinna og ég semsagt ein og hjálparlaus. þegar engin fékkst hjálpin fór ég að reyna að hugsa skýrt. ég gat ekki hugsað mér að koma nálægt þessum andskota svo að ég hljóp í andstæða átt við þá sem hann flaug. hér í stofunni eru tveir stórir gluggar/rennihurðir útí frímerkið sem við köllum garð. önnur hurðin var aðeins opin. fuglinn var að öllum líkindum jafn stressaður yfir uppákomunni og ég því hann gerði í því að reyna að komast út. fíflið sá bara ekki muninn á gleri og útgangi svo að hann flaug meðfram hurðunum sem gerði mér enn erfiðara fyrir að fara og opna fyrir honum. þarna þvældumst við, ég og fuglskrattinn fram og tilbaka um stofuna, hann með reyttar fjaðrir og ég með reytt hár og reyndum að koma ekki nálægt hvoru öðru. fyrir kraftaverk tókst mér að vippa hurðunum opnum og vitleysingurinn atarna slapp út. í þakklætisskyni skildi skíthællinn eftir kúk á gólfinu. eins og það hafi verið mér að kenna að hann hafi verið nógu vitlaus að fljúga inní hús. huh.

svo tapaði mexíkó fyrir bandaríkjunum í úrslitaameríkukeppninni þarna. af þeim sökum ríkir þjóðarþunglyndi, enda fátt jafn særandi fyrir mexíkanska þjóðarstoltið og að tapa fyrir erkifjendunum í norðri. en þeir voru bara betri. sorrí.
ekki það að ég hafi sosum áhuga á fótbolta...

aaaa.... og svo var ég að fá mér skype. eitthvað voða sniðugt svona tala saman ókeypis á netinu eitthvað. ef einhver hefur áhuga þá heiti ég majahjalmtys inní þessu apparati.
lóa... nú getum við sko spjallað.. vúhú!

laugardagur, júní 23, 2007

púslið er alveg að verða búið. bara erfiðustu bitarnir eftir.

ég hjálpaði við vöruskráningu í litlu gæludýrabúðinni í dag. skjaldbökur eru ógeðslega fyndin dýr. síðburðurinn sprangaði um búðina með græna eðlu á hausnum. ég er ekki viss hvort eðlunni hafi verið jafn skemmt. eðlur eru friðsemdardýr. samt ekkert tengd blessuninni henni friðsemd.
á bakvið búðina fann ég lítinn garð fullan af trjám. þegar ég skoðaði betur í kringum mig sá ég að þetta voru ávaxtatré. á þeim uxu lime, ferskjur, plómur og ýmislegt fleira sem ég kann ekki að nefna. þarna voru líka brómber. síðburðurinn lagðist á beit enda mikil ávaxtamanneskja. sem er gott.

frakkland, semsagt konan sem heitir frakkland (francia) kom í heimsókn og heimtaði að búa til stjörnukort fyrir mig. ég er ekki mikil stjörnuspekimanneskja en hún heimtaði. og ég settist og hlustaði...enda hlýðin. í kortinu kom fram að ég er voða einföld. ekki heimsk einföld heldur bara svona ,,what you see is what you get". svo sagði hún mér að ég væri gáfuð. það vissi ég svosem... enda gáfuð...hehehe....
stjörnuspeki já. ég þekki strák sem les alltaf stjörnuspána sína og lifir eftir henni. hann er yfirmáta trúaður og vinstrisinnaður í hjarta sínu. hann hefur gaman af miðilsfundum, tarotspilum og lófalestri. það fyndnasta við þetta allt er að hann er stærðfræðikennari. stundum kallaður siggi stæ. ég sem hélt að raungreinafólk væri ekki svona andlega sinnað...

góða helgi amigos.

ps. getraun dagsins. hvað þýðir rompecabezas?

föstudagur, júní 22, 2007

þetta er svolítið ruglingslegt með tímann. hjá mér er ennþá fimmtudagskveld en hún er að ganga föstudagur hjá ykkur. svo að dagsetningarnar hérna hjá mér eru aðeins skakkar. en það ætti svosem ekki að rugla aðra en þá sem eru tæpir á tímagreindinni.
nema hvað. rólegur fimmtudagur semsagt að kveldi kominn.
í dag púslaði ég eins og moððer og á bara eftir hvít púsl sem eru að gera mig geðveika. ég þarf greinilega að fara að finna mér eitthvað gáfulegra að gera á daginn.

ég var að fá hugmynd. mér datt semsagt í hug að reyna að gera eitthvað gagn á meðan ég er að nöldra þetta og þá fannst mér góð hugmynd að á hverjum degi myndi ég kenna ykkur sem kunnið ekki eitthvað smá í spænsku, segjum 10 orð. þetta litla hafið þið svo á heilanum þangað til þið komið aftur (ef þið komið aftur) og lærið næsta skammt.
hvernig líst ykkur á? (ég lofa að vera samt ekki með endalaust tungumálaþvaður)

ef fólk fer að kvarta, nú þá hætti ég bara... en til að byrja með ætla ég að byrja. þar sem ég sit í eldhúsinu verður fyrsti skammtur um mat:
pan = brauð
leche (borið fram letsje) = mjólk
refresco = gosdrykkur
manzana = epli
platano = banani
queso (borið fram keso) = ostur
jamón (borið fram hamon) = skinka
huevos (h er aldrei borið fram í spænsku) = egg
carne = kjöt
pollo (tvöfalt l er alltaf borið fram sem j eða pojo) = kjúklingur

úff...þetta er leiðinlegt. ég er hætt.

tölum frekar um eitthvað skemmtilegra...

fimmtudagur, júní 21, 2007

naggrís kominn í hús. hún heitir krúsí og var skírð af síðburðinum. stundum heitir hún dúlla sæta. yfirleitt krúsí.
skjaldbökurnar eru orðnar þrjár. terroristarnir synir fráskildu konunnar áttu eina sem átti víst í vök að verjast enda mikið fjör á því heimili. hún var ættleidd í dag af frumburði mínum sem er gífurlega samviskusamur skjaldbökufaðir.

púsluspilið gengur ágætlega. ég er farin að venjast því að þurfa að borða með diskinn á borðbrúninni því að hann kemst ekki fyrir á stóra eldhúsborðinu vegna fjölda púsla. það er þó farið að taka á sig mynd með mikilli aðstoð nágrannakvennanna sem hafa eytt hér mörgum klukkustundum við púsl. þær eru hinar áhugasömustu um aðgerðina og hafa sannarlega fleytt mér vel áfram, en ég er sú eina úr fjölskyldunni sem er ekki búin að gefast upp. enda þrjósk.

tengdamóðirin kom í heimsókn í dag. hún er gæðablóð. eini gallinn við hana er smekklausa hjálpsemin. hún er voða upptekin af því að gera heimilislegt hjá okkur og er alltaf að koma færandi hendi með punt og skraut og þessháttar. vandamálið felst í því að flest það sem hún hefur keypt, eins og tildæmis úber-silfruðu kerlingamyndarammarnir sem hún kom með í dag, fellur vægast sagt illa að smekk heimilisfólks. hvað gera bændur þá spyr ég sjálfa mig. nú mun líta skringilega út þegar hún kemur næst í heimsókn að forljótu rammarnir munu hvergi hanga uppi. nema þá helst inni á gestaklósetti þar sem henni hefur hvort eð er tekist að skreyta með undarlegheitum.
þessi elska var næstum því búin að fylla eldhúsið af beljuþema áður en ég kom til landsins. makanum tókst blessunarlega að afstýra því, en núna á ég beljumyndaramma, beljuklukku og beljukrukkur inni í skáp. hún varð svosem ekkert sár, amk ekki sjáanlega. hún sætti sig við að við héldum eldhúsgardínunum með gulu og bláu blómaskreytingunum. ég reyni bara að horfa ekki mikið á þær.

nema hvað... næst á dagskrá er að þýða umsóknarbréf úr spænsku á ensku fyrir svilkonuna sem er að reyna að senda son sinn, hinn óþolandi, á sumarnámskeið í herskóla í bandaríkjunum. hún er líka komin með nóg af honum.

miðvikudagur, júní 20, 2007

það er mjög mikilvægt að njóta lífsins og alls þess sem það hefur uppá að bjóða.
dönskukennarinn skrifaði mér um daginn að ég hjálpaði við að minna fólk á að taka sig ekki of alvarlega. mér þótti vænt um það. það skiptir nefnilega rosalega miklu máli að festast ekki í því hversdagslega og setja hluti uppá eitthvað plan sem þeir þurfa ekki að vera á. það er líka óhollt að vera reiður. reiði er orkusóun, sérstaklega ef maður bítur hana í sig lengi.
málið er að hafa gaman af lífinu. og lifa því vel.

það er sorglegt þegar fólk deyr ungt. hér í mexíkó hafa margir grátið í kvöld yfir stúlku sem dó ung. hinumegin við hafið.

fólk sem deyr ungt minnir okkur hin því miður á hversu dýrmætt lífið er og minnir okkur á að vera þakklát fyrir það sem við höfum.
ég er þakklát fyrir ykkur öll og mér þykir óskaplega vænt um ykkur og að þið nennið að lesa nöldrið í mér.

grátstafur í kverkunum...

þriðjudagur, júní 19, 2007

hér sit ég klukkan fjögur um nótt með stírurnar í augunum og er að fara að skila verkefni. þannig er nefnilega mál með vexti að ég er í fjarnámi við khí og í dag, nánar tiltekið núna, sitja samnemendur mínir í hlíðunum og eru að fara að svara sömu spurningu og ég. til þess höfum við 35 mínútur sem eru við það að hefjast.
svo fer ég aftur að sofa.
mér þykir mjög erfitt að vakna svona um miðjar nætur.
annars tókst aðgerðin á diego mjög vel. læknirinn hafði aldrei séð svona stóra hálskirtla áður. hann kemur heim á eftir.

jæja, ég er farin í skólann....

búin að skila. farin að sofa. góða nótt.

mánudagur, júní 18, 2007

mexíkó vann kosta ríka 1-0 í fótbolta í gær. það er einhver ameríkukeppni í gangi. merkilegt hvað það hafa allir mikinn áhuga á fótbolta hérna.
ég lét mér nægja að borða pizzu á meðan karlarnir öskruðu og góluðu í sætunum sínum.

í dag er verið að skera diego litla upp. taka úr honum hálskirtla og fleira dót sem er eitthvað að trufla. hann er fjórtán ára en lítur út fyrir að vera í mesta lagi tíu. nýrun í honum skemmdust útaf læknamistökum þegar hann fæddist. hann fékk nýra þegar hann var tveggja ára. það átti að endast í tíu ár. hann fer samt ekki á biðlista eftir nýju fyrr en hann hafnar þessu. samt er vitað að hann þarf nýtt. í dag fór hann í aðgerð númer tuttugu. hann er svo viðkvæmur að allar aðgerðir eru hættulegar fyrir hann. hann tekur þeim samt með jafnaðargeði. þegar hann fæddist var foreldrum hans sagt að hann myndi sennilega ekki endast lengi. hann er samt eins og energizer kanínan. endist og endist og endist og mun halda áfram að endast.
en hann er lítill. litli bróðir hans er stærri en hann. sonur minn er eins og ljósastaur í þríeykinu. en þeir eru góðir saman.
núna er ég að passa litla bróður diego, soninn og bróðurson makans, þennan óþolandi og þeir gera ekki annað en að rífast.
ég held ég verði að fá mér tequila.

sunnudagur, júní 17, 2007

ég hef aldrei haldið trúarbrögðum neitt sérstaklega að börnunum mínum. eitthvað hefur þó verið um að ömmurnar stundi slíka iðju.
rétt áðan lá ég við hlið 4 ára síðburðarins sem átti að loka augunum og munninum og fara að sofa. allt í einu og aldrei þessu vant spennti sú litla greipar og horfði uppí loft. svo byrjaði hún að tala...
,,elsku guð. þakka þér fyrir að passa lóu og járna og ömmu og afa og auðun og valborgu og langömmu og alla hina sem ég þekki á íslandi. þakka þér líka fyrir að passa dótið mitt og alla hina hlutina í skúrnum. viltu passa að enginn steli bílnum okkar. og viltu finna hús þar sem bara fullorðnir hafa átt heima svo að barnaherbergið verði mitt herbergi. viltu líka passa alla á barónsborg (öll nöfn kvenna og barna talin upp). viltu svo passa að langamma mín deyi ekki fyrr en ég er á íslandi. ég vil bara að hún deyi aldrei því hún er svo góð. hún gefur mér alltaf nammi. mér finnst leiðinlegt að langamma maja og langafar mínir eru dánir. ég myndi vilja að þau væru ung svona eins og mamma og pabbi og emil. segðu lóu að hún eigi að flýta sér að koma hingað til mín og járni líka og hrafnhildur og hulli og allir sem eiga heima með lóu. og amma og afi því þau eru svo góð. ég veit að guð hlustar á mann á næturnar og daginn og alltaf og hann hlustar á hjartað manns. þar eru karlar sem eru í hjartanu og maganum og búa til piss og kúk og svona og þeir vita alveg hvað maður vill svo guð má hlusta á hjartað mitt. góði guð. bæ. að eilífu amen. bæ."

besta bæn í bænum.

laugardagur, júní 16, 2007

gleymdi mér í gær. hringdi þó í hana beggu vinkonu og óskaði henni til hamingju með að vera orðin eldri en ég :)
í dag tók ég til. svitnaði við að skúra. mér finnst ömurlegt að skúra. bölvuðu ljósu gólfflísar og bölvaðir krakkar með drullu á skónum. bölvaðir mexíkanar að hafa ekki enn fattað uppá því að láta fólk fara úr skónum þegar það kemur inní hús.
á mánudaginn kemur snjór og hún mun skúra betur og þrífa klósettin. ég þarf amk ekki að gera það, en það er ekkert smáræði þegar fjögur baðherbergi eru til staðar. djöfuls bruðl.
frumburðurinn eignaðist tvær litlar skjaldbökur áðan. síðburðurinn mun fá lítinn naggrís á morgun. eins og ég skrifaði föður mínum kærum áðan og einhverntíman líka hér inni þá þoli ég ekki gæludýr. afkvæmin og makinn munu fá að sjá um þau algerlega án minnar aðstoðar. enda er ég upptekin við að skúra fjárans flísarnar.

jorge sonur fráskildu konunnar er fjögurra ára eins og síðburður minn. þau kyssast mikið og segjast vera par. nema stundum þegar hún nennir því ekki lengur því að hann grætur svo mikið. þá vill hún frekar vera kærasta átján ára frænda síns. hann grætur ekki. hún vill greinilega ekki eiga tilfinninganæman mann. eða amk ekki grenjuskjóðu.
minnir mig á myndina þarna með brendan þarna gaur þar sem djöfullinn breytti honum í tilfinninganæmasta mann í heimi. það var fyndið.

á morgun ætla ég á shrek 3 með afkvæmin og nágrönnunum og nágrannaafkvæmunum. fólk í mexíkó er mikið fyrir að gera hluti í hjörðum. systir mín kær fékk að kenna á því eitt sinn þegar við fórum um 15 saman í verslunarklasa. bara það að fara upp og niður í rúllustiganum er tímafrekt þegar alltaf þarf að bíða eftir að hjörðin hópi sig saman. einn fer að skoða skó og hinir bíða. sumir vilja borða þetta og aðrir hitt. bíðið aðeins, ég þarf að pissa.... tíminn sem fer í bið er óneitanlega mikill og langur.
það er hægara sagt en gert að hreyfa sig í hrönnum.

miðvikudagur, júní 13, 2007

í gær áttu sumir afmæli. í dag eiga sumir afmæli. á morgun eiga sumir aðrir afmæli. ég ætla að hringja í suma á morgun og syngja afmælissönginn. á íslensku.

núverandi dagur er langur og tíðindalaus dagur. eða hvað...
ég fékk gaur með yfirvaraskegg heim til mín og hann lagaði internetið. kom í ljós að símainnstungan sem ég hafði verið að tengja módemið við var tóm að innan. þar var bara ein lítil könguló sem var ekki tengd við alnetið og gat þar af leiðandi ekkert hjálpað til.
svo kom annar gaur með yfirvaraskegg sem tengdi sjónvarpið mitt. nú er ég með sjónvarp. ég er samt of upptekin af púslinu til að geta horft á það.
núna er gaur með yfirvaraskegg úti að tæma ruslatunnurnar.
bráðum kemur mágur minn með yfirvaraskeggið sitt heim úr vinnunni.
hvað er málið með öll þessi yfirvaraskegg?
erik hinn hollenski í húsi eitt er búinn að vera hérna of lengi. það sést á því að hann er með stórt ljóst yfirvaraskegg.
makinn minn er búinn að vera nógu lengi á íslandi til að vera yfirvaraskeggslaus.

á meðan ég man.... ef þú ert nemandi í menntaskólanum hraðbraut þá sæki ég hér með um að fá senda útskriftarbók takk. og á næsta ári líka. takk.

heimilisfang tengdamóður minnar (sem er betur staðsett en ég uppá póst að gera) er:
maría hjálmtýsdóttir c/dolores alvarez de ortiz
huasteca 311. col. industrial
cp. 07800 zp. 14
mexico df
mexico

þriðjudagur, júní 12, 2007

svilkonan var í fjóra klukkutíma með tannlækni uppí sér í gær að grafa eftir endajaxli. í dag er hún með fyndna kinn sem henni finnst ekkert svo fyndin.
ég er heima að læra með rólegar kinnar.

lífið rúllar sinn vanagang. börnin úti í boltaleik. makinn að vinna. ég fór með kerlunum að borða morgunmat á kaffihús. ekki alveg minn stíll en ég fór samt. þær spjölluðu um mis-áhugaverða hluti en ég geri bara það sama og venjulega. brosi og kinka kolli.
sólin skín, fuglarnir syngja og ísskápurinn rymur. bróðursonur makans er að æfa sig á trommur og álkulegir unglingsfélagar hans með rytjulegt hár spila með á gítar og bassa. það heyrist um allt hverfið. móður hans er ekki skemmt enda hún ábyggilega með trommuslátt í tannholdinu.

í gærkveld byrjuðum við litla fjölskyldan á 1500 eininga púsluspili. ramminn er að byrja að smella saman. þetta er mjög spennandi afþreying.
framhald á púsluspilasögunni ógurlegu síðar...
nieves þýðir snjór í fleirtölu. nieves er nafn konunnar sem þrífur fyrir mig. hún er lágvaxin, breiðvaxin og brosmild indíánakona á óræðum aldri. hún á fimm ára strák sem heitir mauricio. henni finnst fyndið hvað ég er mikill heimilishaldsauli. það hafa fleiri hlegið að því.

í dag sátu loreto og veronica hér í stofunni minni og töluðu tímunum saman um hinar kerlurnar. þær eru yfir sig hneykslaðar á ivonne (sem býr í húsi 7) vegna þess að hún fór og sagði þeirri fráskildu að hinar tvær og svilkonan hefðu verið að tala illa um hana. sem þær gerðu ekki beint. þær voru meira að gagnrýna kærastann fyrir að vera frekur við hana. veronica fór að gráta yfir því að kerlurnar í hinum húsunum virðast vera búnar að safna liði gegn litla vinkonuhópnum þeirra (sem ég telst víst hluti af) og eru leiðinlegar.
sú fráskilda kom svo og sagði okkur að henni væri skítsama og að hún væri áfram með okkur í liði. nú er ég semsagt óafvitandi komin í lið.
merkilegt samfélag atarna.

mig langar í sund.

sunnudagur, júní 10, 2007

afmæliskvöldmaturinn tókst vel. eiginkonurnar og sú fráskilda voru yfir sig hrifnar af eftirréttunum mínum, sérstaklega ávöxtunum með súkkulaði og marens og þeyttum rjóma. hver yrði svosem ekki hrifinn af slíku gumsi? en fyrir þeim var þetta amk nýjung og ég voða stolt eftirréttagerðarkona.
svo var drukkið og slúðrað og hlegið. einkaþjálfarinn (hann er víst í alvöru einkaþjálfari), kærasti hinnar fráskildu er núna heitasta umræðuefnið. hann drullaði algerlega uppá bak á föstudagskvöldið og kom sér sjálfur í þá stöðu að eiginkonurnar nota hvert tækifæri til að blaðra um hann. hann kom nefnilega rétt fyrir miðnætti þegar við vorum nýkomnar í stuð, til þess að sækja afmælisbarnið því að honum leiddist svo að vera einn. og hún hlýddi og fór úr eigin afmæli. eiginkonurnar urðu svo yfir sig hneykslaðar að þær hafa varla gert annað en að tala illa um kauða síðan. og líka hvað hún sé mikill kjáni að njóta sín ekki í einhvern tíma svona nýskriðin útúr hjónabandi áður en hún fer að láta annan gaur negla sig niður.
nema hvað...
í gær fór ég með nágrannasvilkonunni í heimsókn til kaupóðu svilkonunnar og þar mátaði ég og mátaði og mátaði föt. kom heim með svartan ruslapoka troðfullan af fötum. núna er fataherbergið mitt fullt. eða svona næstumþví. ekki alveg samt.
þrátt fyrir allt það sem ég fór með heim sér ekki á fataskápunum og skúffunum hennar. það er ennþá jafn troðið. en ég er örugglega hundrað þúsund kallinum ríkari í fötum.

munið þið eftir nágrannanum með geirvörturnar fjórar?
ég á annan skrýtinn nágranna. hún loreto sem býr við hliðina á mér er semsagt mamma nýrnaveika drengsins hans diego. hún er þrjátíu og sjö ára og hefur kúkalabbahúmor sem er alveg mér að skapi. okkur kemur mjög vel saman.
nema hvað... hún er með einhverskonar svefnsýki sem lýsir sér í því að í hvert skipti sem hún verður mjög reið eða æst eða fer að hlæja... þá sofnar hún.
hún heldur reyndar alveg meðvitund en líkaminn hennar fer bara að sofa. þess vegna situr hún mikið af því að ef hún fær hláturskast standandi þá dettur hún bara niður eins og klessa.
það er ógeðslega gaman og fyndið að segja henni brandara og hlusta á hana bulla. þegar hlutirnir fara að verða fyndnir leggst hún framá borð eða hnén á sér og sofnar. hlæjandi. svo smám saman lyftist hún upp aftur en yfirleitt svolítið skökk í framan, svona eins og þegar maður er að vakna allur linur.
maðurinn hennar skammast sín því hann segir að hún verði svo ljót í framan þegar hún hættir að hlæja. mér finnst hann vera asni að segja það.

eitt enn áður en ég fer. ég veit ekki hvort þið vissuð það en hér í mexíkóborg er til alvöru ofurhetja. hann heitir super-barrio og er með svona glímukappagrímu, er í rauðum og gulum þröngum galla og með skykkju.
ég er að hugsa um að gera bíómynd um kauða. hann er algerlega magnaður, og það besta er að lágstéttarfólkið sem hann hjálpar (stendur tildæmis fyrir þegar á að bera einhvern út úr húsnæði og svoleiðis), trúir í alvöru á hann. hann er svona hetja fjöldans mætti segja.

en nú er ég farin að borða alvöru tacos.
bið að heilsa heim í heiðardalinn heiðdalinn og heim í hraðbraut.

laugardagur, júní 09, 2007

ég er komin í betra skap. það er ennþá föstudagur hjá mér en komið yfir miðnætti hjá ykkur. á eftir verður afmæliskvöldmatur þeirrar fráskildu og allar kerlurnar í húsunum mæta, nema þær sem vilja ekki tala við hinar. ætli við verðum ekki um 8-9.
í dag eyddi ég öllum deginum í að gera eftirrétti. gulrótarköku og þennan þarna með rjómanum og ávöxtunum. gerði marens sem fór allur í klessu, en það sést ekkert því hann er á botninum. kerlurnar voru hérna að hjálpa mér að rífa gulrætur og svoleiðis og spjalla. þær spjalla um karlana sína og börnin og hinar konurnar og kærasta þeirrar fráskildu (þegar hún er ekki), en hún er jafn gömul og litla systir mín. kaupóða svilkonan kom hingað líka með mági mínum og hún er með í farteskinu gegnsæja verkfæratösku fulla af gerfinaglagræjum. á meðan ég kláraði að gera eftirréttina gekk hún frá öllum hinum konunum með langar plastneglur. nú er ég sú eina sem er með stuttar neglur.
þær töluðu líka um hjálpartæki ástarlífsins, klámblöð og aðlaðandi karlmenn. eiginlega svona aðþrengdar eiginkonur hitta beðmál í borginni. og svo drakk ég bjór eins og elva og lóa stungu svo viturlega uppá.
hér er eiginlega hálfgerð kommúnustemming hjá kvenpeningnum. þær vinna ekki úti og eru með indíánakonur til að þrífa og elda svo að það mætti segja að þær séu í krónísku fríi. á morgnana fara þær saman að fá sér morgunmat á kaffihúsi og slúðra. svo fara þær saman að útrétta, kaupa inn og stússast og slúðra. eftir hádegi fara þær saman að sækja börnin í skólann og slúðra. svo borðar hver í sínu húsi, stundum. stundum borða börnin mín heima hjá einhverjum öðrum og stundum borða ég hér og stundum annarstaðar. á kvöldin safnast þær saman í einhverju eldhúsinu og slúðra.
ég rottast með. samt nenni ég því ekki alltaf þó svo að þær séu ósköp indælar blessaðar. þá þykist ég þurfa að læra. eða fer að læra í alvörunni.

í höfuðborginni eru allir að deyja úr hita. þrjátíu og eitthvað gráður. fólk sefur með viftur í botni til að drukkna ekki í svita.
hérna er svalt og fínt. mæli meððí.

á morgun fer ég heim með kaupóðu svilkonunni, þessari sem á áttatíu og eitthvað gallabuxur, hundrað og eitthvað kjóla og þar frameftir götunum. hún ætlar að gefa mér öll þau föt sem mig langar í. verst að það verða bara efrihlutar því hún er svo lítil. en samt... hún kaupir bara dýr og fín föt svo að á sunnudaginn verð ég örugglega tilbúin til tískusýningar.

ég er farin að fá mér annan bjór.

föstudagur, júní 08, 2007

bakslag

getur einhver nefnt mér eina góða ástæðu fyrir því að ég sé hérna?

fimmtudagur, júní 07, 2007

var ég búin að skrifa í dag? ég man það ekki. tíminn líður svo hratt.
í gær fór ég með síðburðinn til læknis því hana sveið við að pissa. blöðrubólga hét það á mínu heimili. núna er hana hætt að svíða því hún fékk meðal.
frumburðurinn er búinn að vera í skólanum alla þessa viku til að fá að vita hvernig hann stendur miðað við jafnaldra sína. hann þarf að læra nokkur grunnatriði í spænskri málfræði í sumar og smá slatta úr sögu mexíkó. hann er fínn í stærðfræði og enn betri í ensku. hann er líka voða feginn að þurfa ekki að vera með yngri krökkum í bekk, enda erfitt að missa kúlið þegar maður er að verða 12 ára.
tólf ára... talandi um að tíminn líði hratt...

núna er ég ringluð.
ég er búin að fara út að keyra ein og yfirgefin hér í landi umferðarníðinga andskotans. og ég sem er algerlega áttavitalaus í kollinum komst meira að segja heim án þess að keyra hringinn í kringum bæinn. enginn klessti á mig og ég klessti ekki á neinn. halelúja.
kvefið er á undanhaldi, mér sýnist þau vera hætt við að reyna að drepa mig. í bili.
ekki nema þetta með bandvitlausa kettlinginn sem einhver er alltaf að lauma inn til mín sé hluti af stærra plani. einhverra hluta vegna er ég bara hrifin af dýrum úr fjarska. þegar ég er komin í návígi er ég hreinlega ekki eins hrifin. eiginlega bara hrædd.
einu sinni þegar ég var lítil stelpa í sveitinni á enni bjó þar hundur sem hét lappi. lappi var ljósbrúnn labrador. lappi er eina dýrið sem ég man virkilega eftir að hafi verið vinur minn. svo dó hann.
þegar ég var smábarn, svo ung að ég man ekki eftir því áttum við víst ketti sem allir hétu halldór ólafur. ég er fegin því vegna þess að ef ekki hefði verið fyrir kettina héti ég í dag halldóra ólafía. halldórarnir ólafarnir dóu allir í bílslysum ef ég man rétt.
pabbi minn er kallaður týri. konunum sem unnu með mömmu þegar keyrt var yfir halldór ólaf og honum hent í ruslatunnu fengu sjokk þegar hún sagði þeim frá því í vinnunni. þær höfðu alltaf staðið í þeirri meiningu að halldór ólafur væri eiginmaðurinn og týri kötturinn... eins og gefur að skilja.
ég man ekki eftir neinum halldóri ólafi. bara lappa.

nafnlausi kettlingurinn sem er alltaf að klóra sófann minn þykir mér ekki skemmtilegur.
ég átti einu sinni gúbbífiska. þeir voru fjórir. svo blikkaði ég augunum og þá urðu þeir þúsund. ég var búin að gefa hálfu breiðholti gúbbífiska þegar ég gafst upp. síðan þá fæ ég hálfgerða klígju þegar ég kem nálægt skrautfiskum.
ég er hrædd við hesta og allt sem er stærra en ég. kindur virka flestar grimmar á svipin og hvað þá geitur.
nja... mér dettur ekkert dýr í hug sem ég gæti hugsað mér að halda á og klappa.
ég gæti svosem klappað henni lóu systur minni.... ég er nú eiginlega ekkert góð í því heldur...

þriðjudagur, júní 05, 2007

ekki skánar kvefdjöfullinn. ég lít út eins og sjórekið lík og líður litlu betur.
flestar nágrannakonurnar eru búnar að koma í heimsókn með bestu kvefmeðulin úr lyfjaskápunum sínum. þær vorkenna mér hrikalega og vilja mér greinilega allar vel. nema auðvitað að þær séu með subbulegt plan í gangi um að eitra fyrir mér með öllum kvefmeðulunm sem eru kannski rottueitur eða þaðanaf verra og svo hyggjast þær taka manninn minn og afkvæmin í gíslingu eftir að ég hrekk uppaf með froðu í munnvikunum. enginn mun leita að mér fyrr en eftir langan tíma því að fjölskyldan mín og vinir eru langt í burtu og fjölskylda makans áræðanlega með í ráðum um að losna við mig.
kannski hafa þau líka borgað jube fyrir að eitra smám saman fyrir mér í gegnum eldamennskuna... ég varð kvefuð eftir að hún eldaði fyrir mig í fyrsta skipti... aha.
þetta er strax farið að tengjast saman. svo er sonur mágsins sendur yfir til að eyða orkunni minni og hrinda mér hraðar yfir grafarbakkann. hann er að verða fjórtán ára strákkvikindið atarna og ég hef þekkt hann síðan hann var bumba á mömmu sinni. hann er eina barnið/ungmennið í heiminum sem ég hef hreinlega aldrei getað haft gaman af.
undirförull og grimmur... kæmi mér ekki á óvart að hann hafi verið að koma einhverju fyrir til að losna við mig áðan þegar ég staulaðist niður í eldhús og fann rassinn á honum standandi útúr eldhússkáp. hann sagðist vera að leita að chili-hnetum til að fá sér. ég sagði honum að honum væri velkomið að spyrja hvort ég ætti og væri til í að gefa honum hnetur ef hann langaði í. honum væri hinsvegar ekki velkomið að róta og gramsa í skápum hjá mér eins og hann ætti þá. hnetur smetur.... lygi. þau eru öll að reyna að drepa mig...

sunnudagur, júní 03, 2007

og núna er ég komin með kvef. ekkert venjulegt kvef heldur kjarnorkukvef.
hor í nös og rauð augu.
mig dreymdi vinnuna mína í nótt. svo varð ég döpur yfir að vera hætt.

laugardagur, júní 02, 2007

flugur. ef eldhúsið er ekki fullkomlega hreint koma flugur. venjulegar svartar húsflugur.
ég hef ekki orðið vör við moskítóflugur. ætli það sé ekki vegna veðurfarsins. þær eru svo hamingjusamar í hita og raka.
ég er ekki hamingjusöm í hita og raka. ég er ekki moskítófluga. ég þoli ekki moskítóflugur.

mágurinn og svilkonan flugu í gær til las vegas til að halda uppá fertugsafmæli mágsins. við makinn keyrðum þau inn í borg á flugvöllinn. flugvöllurinn var einu sinni í útjaðri borgarinnar. mexíkóborg er búin að gleypa hann svo að í dag er hann næstum því í miðbænum. góð staðsetning.
í gær voru tólf kröfugöngur víðsvegar um höfuðborgina. tólf kröfugöngur í sex-milljón-bíla-borg virka stíflandi. þyrlur flugu yfir öllu og við hlustuðum á útvarpið segja okkur hvar væri best að fara um og hvar væri ómögulegt að komast áfram. helstu götur borgarinnar voru eins og risavaxin bílastæði. fólk sat sveitt og pirrað undir stýrum sínum og farandsvaladrykkjasalar slógu sölumet inn á milli bílanna.
við lentum sem betur fer ekki inní verstu stíflunum (enda dugleg við að hlýða útvarpinu) svo að ferðin varð ekki eins óbærileg og hún hefði getað orðið.
svo komum við aftur til metepec og svei mér þá ef ég kann ekki enn betur að meta þennan bæ eftir stórborgarheimsóknina í gær. hér er hreinna, hér er himininn blár (ekki brúnn), hér heyrist fuglasöngur, hér eru börnin úti að leika, hér er fólk afslappað og hér eru ekki umferðarstíflur. og hér verður ekki eins heitt og niðri í dal (þar sem mexíkóborg er).

nema hvað, nú er ég í laumi að passa loreto, konuna við hliðina á mér því svilkonan bað mig um að vera dugleg að fylgjast með henni og finna uppá einhverju að gera svo að hún missi sig ekki í áhyggjum. eftir nokkra daga á að gera einhverskonar kirtlaaðgerð á nýrnaveika syninum og hún hefur eðlilega miklar áhyggjur því hann er svo veikburða. við ætlum að spila spil í kvöld og kannski fá okkur eins og eitt stykki bjór með.

ps. leiðrétting á röðun íbúanna í hús...ég er búin að vera að átta mig betur á þessu undanfarið.

1. hollendingurinn erik og fjölsk.
2. mágurinn, svilkonan og synir.
3. lizzy hin fráskilda, synirnir tveir pablo (3ja) og jorge (4ra) og að því er virðist miguel vinurinn líka
4. annette, tómas froskur og jú þau eiga víst son, tómas jr. sem er eins og lítill froskur.
5. corina og luis og nýfædd dóttir. corina er með mikið krullað hár og er voða glaðleg en nú eru allir hættir að tala við hana nema annette eftir að corina sendi nágrönnunum bréf þar sem hún óskaði eftir ,,einungis nágrannalegum samskiptum".
6. ?
7. ivonne einhver og fjölsk. þekki ekki til.
8. moi
9. loreto, fefu, diego og lorenzo (sem eru synirnir)
10. flanders fjölskyldan
11. gaby, maðurinn með geirvörturnar fjórar og litla dóttirin
12. veronica, rori og isabella (dóttirin). veronica er jafn gömul og ég. dóttirin er tæplega 2ja.
13. fabiola, pepe, patricio (sem er spastískur) og ivana sem er fimm ára vinkona dóttur minnar.

föstudagur, júní 01, 2007

gaby er ein af nágrannakonunum. hinar þola hana fæstar, enda er hún snobbuð og hálf fúllynd eitthvað. maðurinn hennar er indæll, lágvaxinn og feitur með svartar krullur. þau eiga tæplega eins árs gamla dóttur sem er alveg eins og pabbinn. lágvaxin, feit og með svartar krullur. ég vona samt að hún sé ekki alveg alveg eins og hann vegna þess að hann er með....... tatararamm.........haldið ykkur nú fast....
FJÓRAR GEIRVÖRTUR!
(hann hefur sýnt þær á fylleríi svo að ég hef vitni)

jube, konan sem eldar fyrir okkur er lágvaxin, dökk og með sítt svart hár. hún hætti í skóla þegar hún var sjö ára og byrjaði að vinna níu ára til að hjálpa mömmu sinni að eiga í og á yngri systkini sín. í dag er hún fertug, fráskilin, fimmbarna móðir sem fer á milli húsa og eldar og þrífur. hún eignaðist fyrsta barnið sitt sautján ára með fyrrverandi manninum sínum sem er leigubílstjóri. leigubílstjórar í þessu landi eru ekki fínn þjóðflokkur. maðurinn hennar jube (borið fram húve), var víst rosalegur macho, úti allan daginn að keyra og haldandi framhjá henni. kom svo heim og heimtaði mat og hrein föt og lamdi konuna sína í buff ef þannig lá á honum.
mér finnst hún kúl að hafa hent honum út. hún sagði að það hafi frekar verið útaf því að hann hélt framhjá henni en af því að hann lamdi hana. indíánakonur eru frekar illa upp aldar í þessum málefnum. en nú er hún glöð. á kærasta sem fær ekki að búa heima hjá henni svo að hann fari ekki að vera leiðinlegur, vinnur sér inn sína peninga (karlinn leyfði henni aldrei að vinna) og hittir uppkomnu börnin sín þegar hún á frí. jube sagði mér að henni þætti gaman að vinna inni hjá fólki því þar fær hún að vera fluga á vegg og hún veit vel hvað er að gerast á hverju heimili. hún segir fátt en hlustar vel. hún talaði reyndar mikið hjá mér því ég var svo forvitin um hana, en yfirleitt er hún bara látin í friði. henni þykir gaman að tala.
mér líka. og nú erum við jube vinkonur. hún hló dátt að vankunnáttu minni í eldhúsinu og ég held að hún líti á mig sem hálfgert hjálparstarf.

síminn er kominn í lag. heimasíminn minn er (0052-722)-344-0301. ég man ekki ennþá gemsanúmerið mitt. þegar síminn hringir ofaní töskunni minni eða vasanum syngur hann ,,hjálpaðu mér upp, ég get það ekki sjálfur. ég er orðinn leiður á að liggja hér...osfrv". ég glotti í hvert sinn sem hann hringir. verst að engin annar skilur brandarann...
vinur fráskildu konunnar lítur út eins og einkaþjálfari. hún er fíngerð, bláeygð með rauðleitt hár og svo hvít að nicole kidman lítur út eins og svertingi í samanburði. hún er sko af spænskum ættum en fædd og uppalin hér. vinurinn er hávaxinn og meðal-dökkur. með stóran brjóstkassa og handleggi sem leggjast ekki alveg niður með hliðunum á honum út af vöðvum. mjög skipulagt rakaða skeggbrodda og gel í hárinu sem krullast aðeins upp í hnakkanum. í gær var minn maður í þröngum gallabuxum og skyrtu. sem er varla í frásögur færandi nema af því að hann var í bláum krókódíla kúrekastígvélum og með belti í stíl. undir fráhnepptri skyrtunni glitti í rakaða bringu og gullhálsfesti.
ég held ég geti dáið.

svo segi ég frá konunni sem eldar fyrir mig síðar... núna er hún að elda. og tala.