miðvikudagur, júlí 26, 2006

ég er eitthvað voðalega löt og þreytt á að skrifa. skil samt ekki alveg þreytuna því að það er asnalegt að vera þreytt á einhverju sem ég er ekki að gera hvort eð er. hvaðan kemur þreytan? ég er alveg á nippinu með að hætta að ætla að verða rithöfundur þegar ég verð stór. finn það einhvernvegin ekki gerast...

nema hvað, við erum nýskriðin í hús eftir tæpra tveggja vikna ferð um norður-héruð landsins. komum meðal annars við í kirkjugarði í pínulitlu þorpi sem heitir jiquilpan (lesist híkílpan), þar sem við lagfærðum gröf langalangalangafa barnanna minna, en hann kom hingað frá frakklandi fyrir löngu síðan og settist hér að eftir að flýja stríð í evrópu. í gegnum internetkraftaverkið voru franskir ættingjar þessa manns að komast að afdrifum hans í fyrsta skipti síðan hann gufaði upp á tvítugsaldri. fjölskyldan hélt alltaf að hann hefði verið drepinn en veit semsagt fyrst núna að hann skildi eftir sig risastóran ættlegg í mexíkó. magnaður andskoti.

nú og svo borðuðum við mikið af góðum mat og svei mér þá ef ég hef ekki bætt einhverju utaná mig af öllu þessu áti. ég er að hugsa um að skella sökinni á hann fidel. fidel er sko þjónninn sem afgreiddi okkur alltaf í morgunmatnum á hótelinu í guadalajara. svaka duglegur við að dæla í okkur eggjum og tortillum og ávöxtum og djús og kókómalti og chilaquiles (lesist tsjílakíles), sem eru nokkurskonar nachos í rauðri sósu með sýrðum rjóma og rifnum osti og er oft borðað með eggjum í morgunmat hér á bæ. nema hvað... fyrir utan hvað maðurinn var duglegur við að dæla þá má ég til með að skrásetja tilveru hans hér með vegna þess að hann var ein af þessum ókunnugu mannverum í veröldinni sem vekja hjá mér óútskýranlega væntumþykju, ef ekki hálfgerða móðurtilfinningu. (skítt að ég skuli ekki hafa tekið mynd...)
fidel er semsagt maður, tja...á fimmtugsaldri. lágvaxinn og hokinn með stutt sleikt svart hár og við þau tækifæri sem ég sá hann (semsagt í vinnunni), klæddur í svartar buxur, hvíta skyrtu og svart vesti. fidel er með lítil svört gleraugu sem eru ábyggilega 4 sentimetra þykk, enda sýndist mér hann vera hokinn af því að reyna að sjá. hann er alveg eins og teiknimyndamoldvarpa í framan og er haldinn einhverju óræðu en um leið indælu krónísku brosi. það er ekki stórt bros en það glampar á eitthvað í augunum á honum og hann er allt annað en alvarlegur á svip. svona svolítið eins og kotroskin moldvarpa í vesti. mig langaði hreinlega að knúsa hann, stinga honum í vasann og fara með hann heim sem minjagrip.
en allavega, ef þið eigið einhverntíman leið hjá carlton misión hótelinu í guadalajara í mexíkó skulið þið endilega skreppa í morgunmat og setjast innst í salinn. þá munið þið hljóta þann heiður að kynnast einum af okkar yndislegu sam-jarðarbúum, honum fidel.

sunnudagur, júlí 23, 2006

nu erum vid buin ad vera ad ferdast um internetlausar lendur og skoda hitt og thetta. i augnablikinu erum vid stodd i guadalajara og erum um thad bil ad fara ad leggja af stad i ferd til baejarins tequila thadan sem drykkurinn kemur (eins og gefur ad skilja). svo mun eg tja mig meira um lifid og tilveruna thegar eg kemst aftur i almennilegt lyklabord.
langadi bara til ad senda kvedju svona rett a medan.
hafid thad gott...

þriðjudagur, júlí 11, 2006

jæja, þá er mín aftur komin til mexíkó og sosum allt gott um það að segja. einhverra hluta vegna hefur þó verið skýjað síðan ég kom, svo virðist sem ég hafi komið með skýin með mér. það er samt hlýtt og gott.
það var líka gott að hitta litlu familíuna mína þó svo að það hafi líka verið gott, holt og nauðsynlegt að fá smá frí. ég var hreinlega búin að gleyma því hvernig er að vera ein án þess að þurfa að hugsa um neitt annað fólk. það ætti að vera í lögum að mæður og makar fái amk viku á ári í orlof einhverstaðar þar sem enginn nær til þeirra. svo kemur fólk endurnært og afslappað tilbaka tilbúið til að takast á við meiri skammt af raunveruleika hversdagsins.
jemm... hananú

föstudagur, júlí 07, 2006

ókey, ef það er ennþá einhver þarna úti vil ég vinsamlegast biðja ykkur um álit.
semsagt...ég keypti íbúð. henni fylgdi leigjandi með samning til 1.júlí. hún bað um að fá að vera eins lengi og mögulegt væri og ég bauð henni að vera til 1.ágúst. hún hafði greitt tvo mánuði fyrirfram í tryggingu í upphafi sem ég fékk afhenta og við sömdum um að sá peningur færi uppí leigu fyrir júní og júlí.
þann þrítugasta júní hringdi hún í mig og sagðist vera að flytja út og að hún ætlaði að láta mig hafa lyklana eftir helgi. núnú, gott og vel sagði ég og hugsaði mér gott til glóðarinnar með að flytja dótið mitt inn áður en ég fer aftur út núna á laugardaginn... svo líður og bíður.
í dag hringdi ég í hana til að tékka og þá tilkynnti hún mér að íbúðin væri svotil tóm fyrir utan tvo kassa. svo vildi hún fá að vita með endurgreiðsluna á tryggingunni, en hún hefði nú velt fyrir sér að láta mig ekki hafa lyklana fyrr en ég hefði borgað. (sagði að þetta væri ekkert persónulegt en hún gæti varla treyst fólki sem hún þekkir ekki)
ég er nú einhvernvegin þannig karakter að ég fer alltaf í mínus og segi já við öllu þegar ég lendi í ákveðnum týpum af fólki sem gerir mig stressaða. þessi er ein af þeim.
en svo eftir að hafa skellt á fór ég að hugsa... af hverju þarf ég að borga henni til baka þegar hún fer út án uppsagnarfrests? (mér skilst að munnlegur samningur teljist sem ótímabundinn samningur sem þarf amk 3 mán. uppsagnarfrest). af hverju þarf ég að borga henni til baka fyrir mánuð sem hún hafði samþykkt að leigja en ég hefði getað leigt öðrum þennan mánuð ef ég hefði vitað að hún færi? af hverju drífur hún ekki út þessa tvo fjandans kassa svo ég geti fengið íbúðina strax? (ég er búin að segja henni að ég sé að fara út á laugardaginn og þurfi tíma til að athafna mig). af hverju verð ég alltaf eins og aumingjakleina þegar sumt fólk talar við mig og er ákveðið? hvernig get ég aftur gert lífið einfalt og gleðilegt eins og það var áður en hún hringdi í mig? og hvernig get ég leyst þetta án þess að þurfa að hitta hana og líða illa?
(já og hún var semsagt búin um síðustu mánaðarmót að skrá hita og rafmagn af íbúðinni á mig þó svo að tæknilega séð væri hún enn leigjandi og sá kostnaður var ekki hluti af tryggingunni).

hjálp!

sunnudagur, júlí 02, 2006

úff, það er mikið að gera að vera heima. fullt af skemmtilegu frændfólki sem kenndi mér að segja kæmpe spa á norsku. og drekka bjór. ég kunni það samt fyrir, þau kenndu mér það eiginlega ekki en þau eru samt góð í því.
ég er orðin blogglöt. ekki samt alveg eins og systir mín.
sumt fólk er leiðinlegt þegar það er drukkið. ekki þetta fólk en sumt annað fólk.
ég held að ég sé allt í lagi. annars veit ég það ekki því ég er alltaf of full til að sjá það sjálf. svona svipað og að reyna að sjá sig sofa. ekki hægt því þú ert sofandi.
ég græt hrikalega auðveldlega þegar ég kveð fólk. sérstaklega skemmtilegt fólk. samt fór ég ekki að gráta í gær þegar ég kvaddi. fékk samt smá kökk í magann. sem er fyndið því ég var bara búin að hitta þau um fimm sinnum á þessari viku sem þau voru. það er bara leiðinlegt að kveðja fólk sem gefur þér góða strauma og gleði.
mér þykir líka skrýtið að kveðja krakka sem útskrifast úr vinnunni minni. ég á voða erfitt með svona breytingar, þó svo að ég sé þekkt fyrir stórar breytingar. ætli ég myndi ekki greina mig með endalokafóbíu eða kveðjukvíða. ég fæ kökk þegar góð tímabil líða undir lok á sjáanlegan hátt. svona eins og útskrift og kveðjustund.
leitt að mér skuli þykja skammarlegt að gráta fyrir framan fólk. leitt að fólki skuli þykja óþægilegt að umgangast grátandi manneskjur. það fara allir einhvernvegin í hnút eins og það sé óeðlilegt. stundum samt ekki. fer eftir aðstæðum svolítið. ég hugsa samt að krökkunum myndi þykja skrýtið að sjá kennara gráta við útskrift. þess vegna mun ég hlaða klósettpappír í töskuna mína og vera dugleg við að telja allt í kringum mig á meðan á athöfninni stendur. þannig höndla ég aðstæður betur.
jemm...það er nú svo og svo er nú það...