miðvikudagur, mars 28, 2007

tengdamóðir mín á sextugsafmæli í dag. hún ákvað í tilefni dagsins að halda veislu (sem er að byrja einmitt núna).
vinkonum hennar, systur, frænkum og tengdadætrum var öllum boðið en engu karlkyns. (þeir fá að bjóða henni út að borða á morgun)
þema veislunnar eru prinsessur. tengdamóðirin saumaði sér stóran öskubuskukjól, skreytti skóna sína með fjöðrum og blómum, varð sér úti um kórónu og svo er salurinn víst skreyttur í hólf og gólf með prinsessum í stíl við afmælistertuna og piñötuna sem verður slegin í veislunni. frá þessu sagði hún blessunin mér í hláturskasti, enda mjög glöð kona.
ég er svekkt að vera ekki stödd í mexíkó núna en ég er alveg að hugsa um að geyma hugmyndina og nota hana þegar ég verð sjálf sextug.

mánudagur, mars 26, 2007

ég átti erfitt með að sofna í gær. sofnaði þó að lokum uppúr klukkan eitt.
klukkan nítján mínútur yfir tvö hringdi dyrabjallan. einhverra hluta vegna komst hringjarinn sem reyndist vera ung stúlka inn. hún reyndi að komast inn til konunnar á efri hæðinni. svo kom hún niður og opnaði hurðina inn til mín. þar stóð ég berrössuð með sængina utanum mig, ekkert voðalega vakandi, og spurði hana hvort hún væri að leita að einhverjum. snéri stúlkan sér þá við og hljóp út.
konan á efri hæðinni kom fram á sloppnum og ég í sænginni og við spurðum hvor aðra hvort hin hefði einhverja hugmynd, sem hvorug hafði. í því byrja þá allar dyrabjöllur í húsinu (sem eru reyndar bara hjá konunni og mér), að hringja á fullu. ég tók upp dyrasímann og sagði uþb tíu sinnum halló. konan á efri hæðinni náði í símann og bjóst til að hringja í lögregluna. hætti þá hringjarinn skyndilega, stökk upp í bíl sem var lagt beint fyrir utan dyrnar og keyrði í fússi í burtu. ég sá reyndar bílnúmerið út um gluggann og hef það vandlega geymt í fórum mínum.
mér datt þó helst í hug örvinluð kærasta að fara húsavillt, en hvað veit ég sosum...
svo fór ég í rúmið með hjartslátt og kaldan svita og var eitthvað hálf skelkuð. gott ef ég var ekki í eina þrjá tíma að sofna aftur til þess eins að vakna klukkan sjö til að vekja frumburðinn. eitthvað tókst mér að dotta til klukkan níu, en mikið óskaplega er ég þreytt...

sunnudagur, mars 25, 2007

mér var boðið á gusgus tónleika í gær. fínn félagsskapur og ágætis ástæða til að bregða undir mig betri fætinum og bregða á mig betri snyrtivörunum og bregða útaf vananum og bregða mér á ball og bregða þar með þeim sem höfðu efasemdir um félagsfærni mína.
fékk mér bjór. fékk mér annan. fékk mér nokkra í viðbót. það mætti segja að ég hafi verið komin í ansi gott skap þegar ég þjappaði mér í röð og þjappaðist að lokum inn. ég er ekki frá því að þetta hafi verið í fyrsta skipti í mínu lífi sem ég fer í víæpí röð sem er semsagt styttri en sú lengri. hafði sú staðreynd eitthvað með fjölskyldutengsl á gera. ekki mín fjölskyldutengsl heldur tengsl annars fólks við hvort annað sem ég fékk að njóta ávaxta af. semsagt í þessari styttri röð.
nema hvað, ég komst semsagt inn í heilu lagi og óskrámuð.
við fundum okkur fínan stað með góðu útsýni og ágætis persónulegu rými á mann. ég skaust á barinn til að bæta á bjórforðann en á leiðinni á barinn hitti ég nemanda mína. spjallaði aðeins við hana og allt gott með það. nú þar sem ég mjakaðist nær barnum rakst ég á tvær fyrrverandi nemendur mínar. spjallaði aðeins við þær og allt gott með það. loksins kom röðin að mér á barnum en þegar ég leit upp til að yrða á barþjóninn var þá ekki þar kominn einn nemandi minn. spjallaði sama og ekkert við hann, enda upptekinn drengur, og allt gott með það. svo fór ég aftur til míns fólks og dillaði mér með bjór í hönd.
eftir að hafa komið bjórnum á sinn stað var kominn tími á að skila síðasta bjór út og ég rölti í átt að klósettinu. þar var röð. fyrir framan mig í röðinni var fyrrverandi nemandi mín. fyrir aftan mig í röðina bættist önnur fyrrverandi nemandi mín. spjallaði aðeins við þær og allt gott með það. á leiðinni tilbaka rakst ég á enn eina fyrrverandi nemanda mína og ég verð að segja að það voru farnar að renna á mig tvær grímur á þessum tímapunkti. þrátt fyrir grímurnar tvær var ég óttalega hress, enda með nokkra bjóra innanborðs, en svei mér þá ef það er hreinlega hægt að fara út að skemmta sér í þessum litla bæ, enda nemendur á hverju strái.
ég hélt þó alveg stílnum og hef litlar áhyggjur.
ætli það verði samt ekki glott á barþjóninum þegar ég byrja að kenna honum í fyrramálið...

föstudagur, mars 23, 2007

fimmtudagur, mars 22, 2007


þetta er rassinn á dóttur minni sumarið sem við bjuggum á hverfisgötu.
ég vil fá svona veður aftur takk.
mig langar að hafa svona veður í 8-9 mánuði á ári. hina mánuðina má falla hlussulegur jólasnjór sem hægt er að hnoða í snjókall. ég þarf ekkert þar á milli. bara gott veður hlýtt eða gott veður kalt. vindur er óþarfi. rigning líka. ég þarf ekki mikið frost eða haglél. slabb er ónauðsynlegt með öllu. gola er fín, hún má vera.
er ekki einhvernvegin hægt að stilla mengunina og útblásturinn og hvað þetta allt heitir nú þannig að veðrið verði drullupasslegt allt árið? þarf alltaf allt að vera of eða van? í hæl eða hnakka? á tá og hæl? í sleggju og stein? í eyra eða ökkla? í fugl né fisk?
maður bara spyr sig...
ég væri svo hamingjusöm við svona fullkomnar veðuraðstæður vegna þess að ég lít alltaf mikið betur út í réttu veðri. þegar það er gott veður en snjór er ég voða krúttíleg svona í snjóbuxunum mínum fjólubláu sem ég fékk þegar ég var í kringum fermingu og í úlpu og með prjónahúfu og trefil og vettlinga og rautt nef og rauðar kinnar sem stingast út á milli húfunnar og trefilsins. hraustleg og glöð og útitekin.
þegar það er gott veður og sól fer ég í ljósu pilsin mín eða kálfasíðu buxurnar mínar og léttar rómantískar sumarblússur ef blússur má kalla. svo fer ég berfætt í opna sandala og tek hárið upp í tagl og verð örlítið brún eða bleik á húðina og þá njóta litir sín svo vel. hraustleg og glöð og útitekin.
við þessar aðstæður er ég uppá mitt besta þar sem ég spranga hamingjusöm um fröken reykjavík og sýg í mig fegurð um leið og ég dreifi hamingju minni um stræti og torg.

alla hina dagana, sem eru um 360 á ári fer ég bara í eitthvað af því að veðrið er bara einhvernvegin og ekkert er krúttílegt við neitt þar sem ég strunsa með andlitið ofaní brjósti til að reyna að forðast vindinn/haglið/rigninguna/frostið á leiðinni úr húsi í bíl eða bíl í hús. ekki hraustleg, ekki glöð og svo sannarlega ekki útitekin.

þriðjudagur, mars 20, 2007

taaaa ram tam tam taaaa ram tam tam gúllí gúllí gúllí gúllí gúllí ram tam tam. -II-
hér er ég, hér er ég, gúllí gúllí gúllí gúllí gúllí ramtamtam. -II-

aní kúní sjáání. aní kúní sjáání. ajaja beggjanasjæna, ajaja beggjanasjæna. íání, bísíbí. íání, bísíbí...

attíkattínóa, attíkattínóa, emissa demissa dollaramissa dei. setrakollamissa radó. setrakollamissa radó. attíkattínóa, attíkattínóa, emissa demissa dollaramissa dei.

dúakí dúakí dúakí dúakí dúakí dúakí domm domm domm domm, dúakí dúakí dúakí dúakí dúakí dúakí domm domm domm domm, dúakí dúakí dúakí dúakí dúakí dúakí domm domm domm domm dúakí dúakí dúakí dúakí domm, olei!

ginn gann gúllí gúllí gúllí gúllí vasha gingangú gingangú, ginn gann gúllí gúllí gúllí gúllí vasha gingangú gingangú. heila og heila seila og heila seila heila húúúú, heila og heila seila og heila seila heila hú. shalli valli shalli valli úmba úmba úmba...

simsalabimbambassaladússaladimm

inkepinke palevú palevú palevú

sunnudagur, mars 18, 2007

í dag var ég á aldeilis fínu og stóru bernhöftsniðjamóti. semsagt fullt af afkomendum bakara frá danmörku sem komu saman og átu bakkelsi, hvað annað?
búist var víst við einum tvöhundruð manns sem urðu nær þrjúhundruð þegar allt kom til alls. einhver snirlingurinn hafði pantað ljósmyndara fyrir hópmyndatöku og hafist var handa við að troða þrjúhundruð manns saman á 10 fermetra, á stólum, pöllum og stólum á pöllum. plássið var fullt áður en helmingur fólksins var kominn á sinn stað. þjappið ykkur aðeins meira sagði ljósmyndarinn og ég fann hvernig naflinn á konunni fyrir aftan mig var í laginu þar sem hún þrýstist inní bakið á mér. og það varð heitt. og það varð heitara. og við þjöppuðum okkur betur saman.
að lokum á einhvern óútskýranlegan máta tókst okkur öllum að koma okkur fyrir, ég stóð á einni löpp með mjöðmina í kleinu og konu í bakinu. ég er ekki ennþá viss hvort það hafi verið svitinn af mér eða svitinn af henni sem bleytti á mér hrygginn. vonandi var það bara minn.
eftir að liðið var orðið svo þétt að sardínur hefðu vorkennt okkur fór ljósmyndarinn að vera fyndinn. auðvelt að vera fyndinn þegar maður stendur laus og liðugur með nóg pláss. jújú. við systurnar komumst í nöldurstuð þar sem við þrýstumst saman og muldruðum bölv og ragn ofaní hárið á manninum í næstu röð fyrir neðan. en svo brostum við öll og eftir einar sjö mínútur í helvíti var ljósmyndatökunni lokið og hópurinn sprakk í sundur eins og graftarbóla sem sleppur undan húð..... hahahahaha... graftarbóla...hahaha.....
úff, ég held að ég hafi orðið fyrir súrefnisskorti í dag. eða kannski frekar sykurlosti af kökuáti. eða kannski bara blöndu af bæði. fjúff... stórhættulegar þessar ljósmyndatökur og fjölskylduveislur.

miðvikudagur, mars 14, 2007

ég var að komast að því að ég á forföður sem hét samson samsonsson.
svona hlutir gerast þegar gramsað er í bók þeirri er kennd er við íslendinga.
eini gallinn er að ég virðist vera skyld öllum. flestum þó fjar.

þriðjudagur, mars 13, 2007

jasso. ég er að fatta að til eru risastór bloggsamfélög.
já hnussið bara og sveiið yfir því hversu sein ég er til. mér er alveg sama.
ég hef heyrt útundan mér að fólk talar um moggablogg og svo er víst eitthvaðannaðblogg og það er víst svolítið eins og að vera í mr eða versló, svona bloggrígur...eða eitthvað. kannski er ég bara að misskilja. en þetta er semsagt til. ég komst að því í eigin persónu núna bara rétt í þessu þegar ég valt inná síður sem voru kyrfilega merktar mbl.is. svo sá ég líka að fólk þarna inni er með rosalega langa lista yfir bloggvini og mynd af þeim flestum og allt.
þetta er svona svolítið eins og að hellingur af fólki hafi breyst í lítið fréttafólk þar sem liðið bloggar þvert og endilangt um málefni líðandi stundar. frumvörp, klámráðstefnur, smáralindarbæklinga, stjórnmálafólk og kvóta. og ekki vantar skoðanirnar svei mér þá.
kannski hef ég bara verið að misskilja þetta allan tímann og hinn raunverulegi tilgangur bloggs sé að vera fréttatúlkunarmiðill. ég hef bara verið að lesa síður hjá öðru fólki sem er líka að misskilja og þess vegna hef ég ekkert fattað villu míns vegar. en mér finnst bara einhvernvegin miklu skemmtilegra að lesa ruglumbull og venjulegheit sem eru oft óvenjuleg. mér þykir tildæmis sérstaklega skemmtilegt að dýfa mér inní hugarheim minnar kæru systur (bróður lúí) sem er með eindemum geðsjúk á geði og hnyttin.
ég er að hugsa um að vera ekki fréttakona, enda nóg af liði um hinar háværu umræður.
pant vera gaurinn sem fær að skrifa um ekki neitt.
ps. það eru líka til megrunarbloggsamfélög. þetta er ég allt að fatta núna. í dag.
hér eru semsagt niðurstöður úr mjög vísindalegu netprófi sem ég tók:
You are the Gender Abolitionist type of feminist. This means that you feel the best way to destroy patriarchal oppression is to rid ourselves of misguided gender roles, and instead live in a society that does not make such marked assumptions about gender differences. The Gender Abolitionist is culturally radical, but rather conservative when it comes to sexual liberation and politics. You have a strong sense of human rights for all. In fact, you are actually a very moral person. You don't see people in terms of gender and are thus very philosophical in order to perceive the world in such a manner. You think people shouldn't identify others in terms of gender. When most people see a person, the first thing they think is "That person is a woman" or "That person is a man", but they do NOT think "That person is a short-fingernail". Most make someone's gender their IDENTITY, but fingernail length would never be considered part of their identity. A gender abolitionist would claim gender should be like fingernail length--it shouldn't be part of someone's identity. By making gender a part of identity, difference is emphasized and oppression is often justified. Thus, gender shouldn't be regarded to such a large extent by society. You are mostly concerned with seeing women become fully equalized with men by eliminating gender roles, as these roles oppress women.
eitthvað kom þetta furðulega inná síðuna...

mánudagur, mars 12, 2007

ég er búin að vera með verk í jaxli og kjálka síðan ég fór til tannlækis síðasta þriðjudag. í morgun gafst ég upp á hörkutólastælum, fór að gráta og hringdi í áðurnefndan lækni sem bað mig vinsamlegast að drífa mig bara til sín svo hann gæti kíkt á mig. svo fór ég til hans og settist í stólinn. lýsti mjög nákvæmlega öllum mínum kvölum og höfrungum og gapti svo uppá gátt. hann boraði holu í nýju fyllinguna (reyndar eftir að hafa deyft mig) og fór svo að stinga prjónum eða nálum eða pinnum eða einhverju dóti lengst ofaní gatið og núa svo í hringi eins og handvirkur bor ofaní tannrótina mína. deyfing virkar ekki í rótinni bara svona ef einhver var ekki með það á hreinu. ég fékk pot ofaní fyrirfram auma tannrót svo nísti í öllum mínum beinum, innyflum og hársrótum. nú og svo var það rót númer tvö og að lokum rót númer þrjú. hann sagði að ef ég hefði verið komin með rótarbólgu hefði sársaukinn verið mun meiri. best að fá aldrei rótarbólgu. öll mín samúð er hér með tileinkuð fólki með rótarbólgu og konum sem fæða börn. og fleirum svosem en það yrði kannski langur listi að telja allt upp, en þetta er svona það sem mér dettur fyrst í hug... nema hvað... svo fyllti hann götin af einhverju gúmmulaði og lokaði fyrir. nú er ég semsagt með dauða tönn. það skrýtnasta er samt að mér er ennþá illt. ekki jafn, en er sársauki í dauðri tönn ekki svipað og að vera illt í hárinu? frekar ómögulegt?

fyrir fólk sem er að velta fyrir sér ástæðu þess að ég sé með svona ónýta tönn þá er hún sú að hún fæddist gölluð. það segir tannlæknirinn minn og hann er bestur og veit allt. þetta hefur ekkert með kókdrykkju að gera, enda drekk ég kók bara með einni tönn. ég bursta alltaf rosa vel, nota tannþráð og munnskol. þetta er bara fæðingargalli. bara svo þið vitið það.... og ég bursta á mér tunguna líka. og hananú.

fimmtudagur, mars 08, 2007

endemis ólukkans nöldur
fer innum mín fínu sjáöldur
á skápunum hef ég svo höldur
en nóttin er ekkert svo köld-ur

ég verð ekki með neinar refjar
í morgunmat borða ég trefjar
hér er vefur um vef til vefjar
(nú finn ég ekki fjórða orðið...)

að ríma er gaman á stundum
furðuleg orð oft við fundum
ég er ekki hrifin af hundum
og versla mjög sjaldan í pundum

mig undrar hve margir mig lesa
hér finn ég ekk'einn lúðablesa
á spænsku er jarðaber fresa
og náttúr'er naturaleza

nú ellefu orðin er klukkan
ég finn hvernig fjarar út lukkan
engin þó brotnaði krukkan
á andlit mitt bættist ein hrukkan

ég er ekki alveg að nenna
að teygja mig, tosa og glenna
mér líður sem róttæk boðflenna
er þjálfarar líkamsrækt kenna

hér finnur enginn höfuðstafi
í slíku var góður minn afi
nú er ekki víst hvort hann hafi
komist mjög heill úr því kafi

hér lokið læt mínum leirburði
og vona að engan mann furði
enginn mun end'útí skurði
ég þekki víst konuna urði

þú merkja mátt við ef þú lest
því hryssan hún gleðst nú við flest
bros verður á andlit mitt klesst
svo þarf ég að ráðgast við prest

miðvikudagur, mars 07, 2007

el liston de tu pelo er gott lag. er með það í eyrunum eins og við tölum (as we speak sko) og er að hlusta í fyrsta skipti. mæli meððí.

hvað er annars að frétta....hmmm... látum okkur nú sjá.... tja.... mmmm..... puff. ekkert. nóg að gera bara...ha... jújú... bara próf og svona....

best að vera ekkert að þessu nöldri.
yfir og út.

sunnudagur, mars 04, 2007

eyddi fimmtudegi til laugardags við nám. eyddi laugardegi til sunnudags í veikt barn. mun eyða mánudegi í vinnu og veikt barn. veik börn eru vinna. veika barnið vinnur mig alltaf í spilum.
ég er þreytt á geði eftir þessa daga. ég get ekki annað en hlakkað til frískleika barnsins míns og þess að klára verkefnaskil og kennsluundirbúning næstu daga. við skulum bara segja að ég hlakki til í næstu viku. eða kannski bara hlakka ég til næsta fimmtudags. það er nær.
kannski hlakka ég bara til næstu nætur sem ég mun geta sofið í heilu lagi. hún kemur vonandi fljótlega. vonandi. kannski samt ekki fyrr en um næstu helgi. kannski ekki.
ég hlakka eiginlega bara til að fá að vera ein. í smá stund. það er nauðsynlegt að vera stundum ein. bara smá. það er lýjandi að hlusta á fólk allan daginn. alltaf.
kannski hlakka ég bara til þess að allir fari að sofa nema ég og líka þegar slökkt verður á sjónvarpinu. þá verður þögn. ég hlakka til þagnarinnar.
ég hlakka til þess að fá reglu aftur á dagana mína. regla er góð. stundum ekki. mig langar í bakpokaferð í kringum heiminn. ég hlakka til þegar ég kemst í svoleiðis ferð. ég hlakka til að hætta að skulda peninga. það veitir líka ákveðna ró. inní sálinni. það er óþægilegt að skulda. skuldir setjast í undirmeðvitundina og skapa óróa, svona seyðandi ósýnilegt stress. það er kannski þess vegna sem fólk verður þunglynt og allskonar skrýtið. nema þeir sem eiga allt og skulda ekkert. það eru fáir. verst fyrir þá að hafa ekkert til að hlakka til.