miðvikudagur, maí 31, 2006


þetta er mynd sem ég tók í kirkjubúð.
vantar þig krossfestan krist í fullri stærð fyrir altarið þitt? ef svo er ertu komin á réttan stað...

annars fórum við að skoða pýramída í dag. klifruðum uppá sólarpýramídann. mætti svíum á leiðinni niður. ég sagði ekki hejsan, en ég hugsaði það.
ég hefði verið til í að fá lánaða tímavél í smá stund á meðan ég var þarna. það hefði verið gaman að fá að sjá staðinn eins og hann var upprunalega. aztekar og mannfórnir og gull sem glóir. örugglega eitthvað gott að borða líka.
tengdaafinn sagði mér áðan frá því að fólk á þessum tíma (fyrir komu spánverjana), hafi ekki borðað kjöt nema þá helst af sköllóttu hundunum sínum. þeir höfðu engin dýr til að éta, hesta, beljur, svín eða kindur, þannig að þeir voru mestmegnis ef ekki alveg ávaxta og grænmetisætur.
mexíkanar í dag borða mikið mikið mikið kjöt. svín eru borðuð upp til agna og úr húðinni af þeim er framleitt snakk í poka. svona svolítið eins og kindin á íslandi, en reyndar er hún ekki alveg orðin snakk ennþá, hún er bara lopapeysa og ullarsokkar.

annars er veðrið bara fínt. mun betra en á íslandi samkvæmt mbl.is. mengunin alveg í rólegheitunum og lífið gengur sinn vanagang.
bless á meðan

mánudagur, maí 29, 2006

nú er ferðin búin og hún var svona:
keyrðum í ixtapan de la sal sem er vatnsrennibrautagarður. þar runnum við í vatni frameftir degi og keyrðum svo áfram til taxco. það er bær sem er byggður í fjöllum en húsunum hefur verið klambrað upp á lygilegan hátt. göturnar eru þröngar og liggja upp og niður á milli húsa sem virðast rétt hanga utaní hlíðunum.
þar gistum við.
daginn eftir var förinni heitið til playa ventura sem er pínulítið strandþorp. þar eru ekki hótel eða stórar byggingar heldur bara stráþök sem er tjaldað undir og lítil frekar fátækleg hús. íbúarnir liggja heilu dagana í hengirúmunum sínum og tildæmis nennti maðurinn sem leygði okkur stráþakið sitt ekki að elda ofaní okkur á veitingastaðnum sínum, heldur benti hann okkur á að banka uppá hjá nágrannanum sem fór heim að ná í konuna sína sem svo kom og gaf okkur að borða á meðan maðurinn skokkaði út í búð til að kaupa gosdrykki (þetta var sko veitingastaður).
hugmyndin um að tjalda á ströndinni hljómaði rómantísk og skemmtileg á leiðinni þangað.
þegar við lágum öll fjögur klístruð af salti, sandi og svita inni í tjaldi að reyna að sofna í 35 stiga hita og raka, hætti hugmyndin að virka. svo fór að rigna og allt varð blautara en það var fyrir.
daginn eftir pökkuðum við saman og keyrðum til acapulco.
þar biðum við í einn dag eftir stórfjölskyldunni, en ásamt þeim eyddum við því sem eftir lifði vikunnar við sundlaugarbakka með drykk í hönd, á góðum veitingastöðum og á hótelherbergjum með baðherbergi og loftræstingu.
á kveldin fórum við stóra fólkið út að fá okkur bjór og soleis og á aðfaranótt sunnudags fórum við á risastórt diskótek þar sem við reyndumst aldursforsetarnir.

ég man ekki betur en að við vinkonurnar höfum dansað ansi venjulega þegar við vorum þetta 17-20 ára. núna sá ég ekki eina einustu stelpu dansa öðruvísi en sexí, með mjaðmirnar útum allt og hreyfingar sem myndu sóma sér vel á klámbúllu.
hvað er það?

nema hvað, við komum í stórborgina aftur í gærkveldi og núna erum við að ná okkur.
makinn nældi sér í hálsbólgu, tengdamamman datt framúr rúminu og meiddi sig í hnénu og ég sofnaði í bílnum á heimleiðinni til þess eins að fá hnykk á hálsinn við að keyra í holu og nú er ég óskaplega fín með risastóran hvítan kraga um hálsinn.
svona fór um sjóferð þá...

mánudagur, maí 22, 2006

við erum ekki enn farin á ströndina. höfum verið á dinglumdangli hingað og þangað um bæinn en erum semsagt búin að pakka niður og munum leggja af stað á morgun á rúntinn. gistum heima hjá stærsta bróður í nótt eftir að drekka áfenga vökva, en það er um eins og hálfs til tveggja tíma keyrsla á milli heimila sem þó tilheyra bæði norðurhluta höfuðborgarsvæðisins.
í dag þar sem við keyrðum og keyrðum og keyrðum heimleiðis komst ég ekki hjá því að hugsa hversu svakalega þessi borg er komin langt frá náttúrunni sem hún eitt sinn var. jújú, það er sosum ágætis slatti af trjám hingað og þangað, en þessi tré eru samt eiginlega meira skraut en náttúrufyrirbæri. þau standa ofaní gangstéttum sem eru svo margar orðnar skakkar eftir tilraunir rótanna til að komast upp á yfirborðið.
í flestum hverfum má sjá eitthvað af trjám. í fátækustu hverfunum eru þau fæst og grámyglulegust. þar eru húsin svipuð og flest í zamora michoacan, gráir múrsteinakassar sem hefur verið klambrað upp á ótrúlegasta hátt, eða jafnvel bárujárn og pappakassar þar sem ástandið er allra allra verst.
gömlu hverfin skiptast í tvennt. þeim sem er vel viðhaldið og þau sem hafa fengið að grotna niður í tímans rás. ég bý í einu sem er því miður svolítið að grotna.
í þessum gömlu hverfum eru húsin rosalega falleg, með miklu skrauti í kringum glugga og dyr og fallega rimla fyrir (hér eru nefnilega rimlar fyrir öllum opum þar sem einhver gæti mögulega smeygt sér inn). húsin í miðbænum og þau sem eru frá tímum spánverjanna eru mörg hver ótrúlega flott, með ljónshausa og styttur í kringum glugga og hvaðeina.
þegar ég sé svona falleg hús sem eru að mygla klæjar mig í fingurna af tilhugsuninni um að fá að gera það upp, laga og færa í fyrra horf. úff hvað ég væri til í að stunda slíkt.
nema hvað, gömlu ríkustu hverfin eru gróðursælust. þar er hvert hús virki og lóðirnar stórar. þegar keyrt er um má sjá glitta í mjög fallegar villur á bak við ókleyfa múra og eftirlitsmyndavélar. þar er öllu haldið vel við.
í nýju ríku hverfunum er að finna háhýsi. allt voða bling bling eins og einhver myndi segja. stál og speglar. íbúðirnar eru fyrsta flokks og í bestu byggingunum má finna sundlaug, líkamsræktarsal, skrifstofur, hárgreiðslustofu, snyrtistofu, matvörubúð, veislusal, barnagæslu og ekki má gleyma gífurlegu eftirlits- og öryggiskerfi. margir kalla þetta gullbúrin, en þangað leitar nú fleira og fleira fólk af efri millistétt. svona eitthvað eins og ungt fólk á uppleið sem smalast saman í grafarholtinu.
ef ég hugsa nánar útí það þá er ég stödd í hverfi sem var einu sinni eitt af fínustu hverfunum í borginni. þegar tengdaafinn byggði það bjuggu hér í nágrenninu leikarar og frægt fólk. í næstu götu bjó meira að segja sjálfur fidel castro þegar hann var í útlegð að skipuleggja kúbönsku byltinguna.
hverfið inniheldur slatta af ósmekklegum nýlegri húsum og ég hef tekið eftir því að viðhald eldri húsanna er á uppleið. reyndar má finna góðan helling af húsum sem má laga, en ég hef þó séð það mikið mikið verra. í þessu hverfi er mikið um skakkar gangstéttar.

jamm og jæja.... svo skrifa ég bara meira þegar ég flækist í neti.

fimmtudagur, maí 18, 2006

miðvikudagur, maí 17, 2006

keyrðum í gær í rúma 4 tíma til zamora í michoacan héraði. þurrt landsvæði á leiðinni og góður slatti af múrsteinakumböldum sem fólk býr í. sáum mikið af fólki bogra yfir jarðaberjauppskeru og horaðar kýr í skuggum af gráleitum trjám eða risastórum kaktusum.
í norðri ganga karlmenn um með kúrekahatta í kúrekastígvélum og kúrekaskyrtum. konurnar eru með sítt hár.
við eyddum deginum á hóteli undir sólinni í volgri sundlaug. fínt hótel og ágætis miðbær í zamora þrátt fyrir ýmislegt óspennandi.
keyrðum aftur í stórborgina í dag. er að bíða eftir að fá dómínós-pítsu á mótorhjóli. hann hefur 4 mínútur, annars verður hún ókeypis.

mánudagur, maí 15, 2006

hér er voða mikið í gangi vegna forsetakosninganna sem verða 2. júlí næstkomandi. ein kona er í framboði en hún er ekki á meðal þriggja efstu samkvæmt könnunum. einn hinna efstu er andrés manuel lopez obrador, borgarstjóri höfuðborgarinnar. hans slagorð er hinir fátæku fyrst, í allra hag. hann er á vinstri kantinum. efri millistétt og efri stéttir eru ekki hrifnar af honum. mér þykir þó rökrétt hugsun að eyða glæpum og bæta þjóðfélagið með því að veita fátækum menntun og tækifæri. þá verða vonandi færri sem sjá sér hag í að ræna, skemma og meiða. hinir ríku eru hræddir um að peningarnir þeirra fari í subbulýðinn sem hefur ekkert gert til að eiga þá skilið.
um þetta má sosum deila fram og tilbaka og það er einmitt það sem fólk gerir hér þessa dagana.
annars gengur lífið sinn vanagang.
gaurarnir sem hafa verið hér úti á horni síðustu 20 ár að selja góða hirðisdót eru enn á sínum stað, gamli rakarinn á gömlu rakarastofunni í gömlu ljósbláu stuttermaskyrtunni sinni er þar sem hann á að vera, skósmíðahjónin er enn að laga skó og kjöt-, kjúklinga-, grænmetis- og ávaxtasalarnir eru allir á básunum sínum þar sem þeir hafa verið síðan ég kom hingað fyrst fyrir einum 13 árum síðan.
tengdaafi minn hefur ekkert elst síðan ég kynntist honum, hann er að verða 90 ára en hætti nýlega að nota staf. hann keyrir enn, reyndar svolítið eins og mister magú, en hann keyrir samt. sá gamli kemur hingað til tengdamóðurinnar í mat tvisvar í viku. þegar hann kemur segir hann okkur sögur frá því að hann var ungur drengur á árum mexíkönsku byltingarinnar. þegar hann reið um búgarðinn sem frændi hans sá um og hjálpaði indíánunum sem unnu við uppskeruna. hann segir okkur frá foreldrum sínum sem fengu ekki að giftast vegna þess að hún var af sígaunaættum og ekki talin samboðin barnsföður sínum sem var af fínum spænskum ættum. hann lýsir fyrir okkur frændanum á búgarðinum sem var stór og brúnn með mikið yfirvaraskegg, stóra sylgju á beltinu sínu, stóran hatt, stór stígvél og byssu í slíðri.
mér þykir gaman að fá að ferðast aftur í tímann með honum afa. magnað að hugsa til þess að á sama tíma voru ömmur mínar og afar á íslandi að alast upp við gersamlega ólíkar aðstæður.
hérna var þetta meira svona eins og kryddlegin hjörtu. fyrir þremur kynslóðum bróderuðu konur samfaralökin sín fyrir brúðkaupið, karlar komust upp með að taka sér konur í bókstaflegri merkingu og konur eyddu mánuðum og jafvel árum svartklæddar og meira og minna innilokaðar í sorg þegar einhver mikilvægur fjölskyldumeðlimur lést.
mmm.... gott ef ég sé ekki eitthvað sameiginlegt við gamla frostið á fróni.

föstudagur, maí 12, 2006

soddan lúxus að vera í fríi. alltaf hægt að vera að gera eitthvað nýtt. eyddum miðvikudeginum í metepec þar sem elsti bróðirinn býr. borð og stólar úti í garði, mikill matur og mikið um drykki. ósköp kósí og fínt. brann reyndar óvart á öxlunum, veit ekki alveg hvernig því ég reyndi að vera í skugga allan daginn.
í gær ætluðum við með börnin og bróðurson makans í skemmtigarðinn six flags (sem hét áður reino aventura þar sem ég gerðist svo fræg að hitta keikó á meðan hann bjó þar árið 1994). nema hvað, í fréttum var okkur tilkynnt um hrikalegar mótmælagöngur út um allar trissur sem myndu loka öllum helstu götum allan daginn í gær þannig að við ákváðum að fara bara gangandi í næsta almenningsgarð og leyfa krökkunum að sprikla þar.
í dag ætluðum við svo í fánana sex en þá eyddi síðburðurinn nóttinni í hefnd moctezuma þannig að makinn fór einn með frændurna tvo og ég er hér heima með tengdamóður og síðburði á náttfötunum.
hefnd moctezuma er semsagt niðurgangurinn sem aztecakonungurinn sendir ljóshærðum ferðalöngum sem eiga leið um lönd hans, en hann er að hefna sín fyrir yfirtöku spánverjana á konunsdæmi sínu á sínum tíma.
það hefur farið framhjá honum að þó svo að dóttirin sé ljós yfirlitum er hún samt ein af samlöndum hans og á rætur að rekja í eina áttina til indíána.
annars er gaman að því að börnin mín geta rakið ættir sínar til vestfjarða, danmerkur, lækjargötu, gyðinga, spánverja, sígauna, frakka og indíána.
nema hvað, á morgun er ég að fara í kvennamorgunmat heim til láru frænku, á sunnudaginn ætlum við að reyna að fara að skoða uppstoppuðu fólks sýninguna þarna frá þýskalandi (hún er semsagt staðsett hér í augnablikinu), á mánudaginn förum við norður til guanajuato með hector mági, komum heim á miðvikudag, og förum svo til acapulco 24. maí.
ójá. margt að gera í fríinu.

miðvikudagur, maí 10, 2006

vaknaði í morgun með bólgna ökkla, hné, úlnliði, eyru, augnlok, neðra bak, hendur, tær og olnboga. svo er kláði í öllu draslinu bara svona rétt til að toppa ástandið.
í dag er mæðradagurinn hér úti og voða veisluhöld. og ég svona eins og uppblásinn grís.
mér skildist á lækninum sem skoðaði mig áðan að ég sé eiginlega bara of fín fyrir umhverfið. daman vön tæru lofti, unaðslegu vatni, ómengaðri fæðu og hreinu umhverfi.
andskotans stælar í líkamanum mínum....

mánudagur, maí 08, 2006

lenti í barnaafmæli í gær. jedúddamía. einhver arturo sem varð 7 ára og amma hans er vinkona ömmu minna barna þannig að okkur var boðið þó svo að hvorki ég né dóttir mín höfum séð hann fyrr. fór með síðburðinn, en frumburðurinn er of þroskaður að eigin mati fyrir svona lagað.
veislan var í leigðum sal. veggirnir voru málaðir með ýmsum disney fígúrum og það voru rennibrautir, kastali, gryfja með svömpum til að hoppa ofanaf kastalanum, lítil borð og stólar fyrir foreldra. í einu horninu var vifta sem náði þó ekki að Þurrka svitann af mér, en ég hef aldrei áður eytt heilum degi með blautar rasskinnar (plastsetan á stólunum hjálpaði heldur ekki til).
nú og þarna hlupu sveittir krakkar upp um allt og mín þar á meðal. tónlistin dunaði og yfirgnæfði næstumþví krakkaskarann. ætli það hafi ekki verið um 100 eða 150 manns á svæðinu.
allir fengu að éta tacos og fótboltavallarköku eftir að trúðarnir komu í heimsókn og tvær pinjötur voru slegnar í klessu. eftir 4 klukkustunda hamagang og læti vorum við leystar út með pokum fullum af nammi.
nú situr innkaupapoki með nammi uppi í skáp og ég er alveg að losna við suðið úr eyrunum.

má ég þá frekar biðja um kökur og meððí í rólegheitunum heima svona eins og ég geri á íslandi.

föstudagur, maí 05, 2006

þá er litla familían semsagt komin aðeins hærra en hvannadalshnjúkur. krakkarnir eru hin ánægðustu og við líka. litlar tæplega 4 ára frænkur hafa verið óaðskiljanlegar síðan við lentum í gærkveld, önnur talar spænsku og hin svarar á íslensku en einhvernvegin skilja þær hver aðra fullkomlega. (reyndar virðist vera að byrja að hrikta í stoðunum einmitt núna...)

annars langar mig mest til að segja ykkur frá honum claudio.
hann heitir claudio torres velazquez og fæddist í mars 1982 í 300 húsa þorpinu tlapitzalapan. hann er með svart burstaklippt hár, brúna húð, frekar grannur og lágvaxinn og fyrir ofan munninn er hann með hár og hár á stangli sem eru að reyna að líkjast yfirvaraskeggi. indíánum vex lítið líkamshár, en á móti verða þeir ekki sköllóttir.
hann sat fyrir framan okkur í flugvélinni frá new york til mexíkó. á einhverjum tímapunkti flugferðarinnar kom hann til okkar og bað okkur um að hjálpa sér við að fylla út eyðublöð fyrir tollinn vegna þess að hann kann hvorki að lesa né skrifa, enda hefur hann alltaf þurft að vinna og hefur ekki verið í skóla. það er hvort eð er ansi lítið af menntun að fá í þorpinu þó svo að frambjóðendur lofi bæjarbúum alltaf gulli og grænum skógum rétt fyrir kosningar.
hann sagðist hafa verið rúm 2 ár í bandaríkjunum, en þangað fór hann til að vinna fyrir sér og freista gæfunnar. hann hafði aldrei flogið áður, en hann hafði borgað einhverjum gaur 1800 dollara fyrir að hjálpa sér yfir landamærin. hann gekk í 22 klukkustundir frá mexíkó til texas. endaði svo sem aðstoðarmaður á veitingastað í new york.
hann var stressaður yfir því að komast í gegnum vegabréfaskoðun vegna þess að hann á ekkert vegabréf. hann var með snjáð fæðingarvottorð og fölsuð persónuskilríki. hann var á leiðinni heim af því að pabbi hans lést og nú verður hann að taka við af honum og vinna fyrir móður sinni heima í tlapitzalapan. hann sér ekki fram á að fara aftur úr landi.
það eina sem er hægt að gera í þorpinu hans er að rækta kaffi, appelsínur, mangó eða aðra ávexti og grænmeti. það skiptir víst ekki miklu máli hvaða tegundir hann ræktar, þær eru allar illa borgaðar. mikil vinna fyrir sama og engan pening. ástæðan fyrir því að hann fór í burtu til að byrja með.
nema hvað, við fórum samferða claudio í gegnum flugvöllinn, leiðbeindum honum og biðum eftir því að hann kæmist í gegnum vegabréfaskoðunina. hann komst í gegn.
eftir að við lentum átti hann eftir að koma sér á rútubílastöð og sitja svo í rútu í 7 klukkutíma.
á leiðinni út af flugvellinum rétti makinn minn honum nafnspjald með tölvupóstfanginu sínu. á íslensku benti ég honum á að maðurinn kynni ekki að lesa, en claudio brosti bara og sagðist hvort eð er ekki vita hvað tölvupóstur væri.

þriðjudagur, maí 02, 2006

á morgun leggjum við land undir fót og leggjum af stað til le mexique.
þegar þangað verður komið ætla ég að reyna að vera dugleg að komast í netið til að skrásetja ferðir mínar sléttar og jafnvel dæla inn einhverjum ljósmyndum.

úff, nú er ég komin með fiðring í maga og stressræpu.