þriðjudagur, september 28, 2004

í gær kúkaði ég algjörlega í buxurnar (figuratively speaking). ég var að kenna minn fyrsta tíma í félagsfræði á ævinni minni stuttri og var búin að lesa svakalega vel og glósa allan kaflann sem ég ætlaði að fara yfir. svo þegar að tímanum kom fundust mér glósurnar eitthvað svo stirðbusalegar og mig minnti einhvernvegin að kennarar væru talandi út í eitt blaðalaust. nú svo ég byrjaði að tala einhverja bölvaða vitleysu. ætlaði að taka þetta svaka flott unplugged og læti en þegar á hólminn var komið held ég að ég hafi eiginlega frekar litið út eins og stamandi hálfviti. ég hélt steypunni á floti út fyrri klukkutímann og reyndi eins og ég gat að láta þetta líta út fyrir að það hafi átt að vera svona... og aumingja börnin horfðu á mig með óræðum svip þar sem ég frussaðist úr einu umræðuefni í annað upp og niður, út og suður, hægri vinstri, alveg niðrá tún.
svo sendi ég þau í frímínútur.
þær mínútur notaði ég til að ná úr mér taugaskjálftanum, taka andlitið mitt uppúr gólfinu og pússa það á aftur og síðast en ekki síst til að fara yfir glósurnar mínar.
í síðari kennslustundina mætti önnur stúlka en sú taugaveiklaða ruglingslega og óskipulagða sem hafði verið að prumpast við töfluna í fyrri tímanum. ég gerði punkt og greinarskil, ný málsgrein og byrja upp á nýtt. hér kemur kafli eitt: búmm. glósur. hér kemur kafli tvð: búmm. glósur... eru einhverjar spurningar? svar, svar, skila þessu í næsta tíma og lesa kafla nr.3. voilá og hananú. tan tan. saltkjöt og baunir. ég tók þetta í nefið þrátt fyrir kvefið. ég hljómaði eins og kennari og ég sá hvernig litlu ljósaperurnar í augum hormónafylltu ungæðinganna minna tindruðu á bak við "don´t give a shit"-svipinn. ég held að þau hafi skilið. ég skildi.

einhverra hluta vegna get ég ekki munað neitt úr fyrri tímanum. hann situr eftir þokukenndur í minningunni. helber afneitun.

það má læra af mistökunum og það er alls ekki eins auðvelt og það sýnist að vera kennari...ég skal nú bara segja ykkur það.

föstudagur, september 24, 2004

makinn hraut, frumburðurinn vaknaði myrkfælinn, síðburðurinn vaknaði á korters fresti, þakið nötraði og skalf og mér hefur sjaldan verið jafn illt á milli hryggjarsúlunnar og hægra herðablaðs. það á ekki af mér að ganga, dauð-þreyttri stúlkunni. í ofanálag mætti ég í gömlu vinnuna til að hjálpa til þar sem það hefur rifjast upp fyrir mér í allan morgunn hversu stjórnunarháttum er oft illa sóað á annars jákvætt starfsfólk. það ræddum við bestavinkona í hinni vikulegu kaffihúsaferð í gærkvöldi. slaka stjórnunarhætti í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. sérstaklega þó stofnunum.
gömlukynslóðarhugsunarháttur liggur þar að baki, óviðurkennd karlremba, aldursfordómar (gagnvart hinum yngri), skilningsleysi á þörfum og væntingum starfsfólks og bara almennur þurrpumpurassaháttur í bland við tilætlunarsemi og yfirlæti. vertu ekki með eitthvað væl og nöldur, þegar ég var ungur var manni þrælað út í verbúð og hent í sjóinn í síldartunnum og laminn í hausinn með hamri og maður bara lét sig hafa það og þraukaði og varð síðan harður nagli sem lærði á verðbréfamarkaðinn og spilar golf og veiðir lax.
hættu þessu bölvuðu væli stelpuskjáta.

úff

fimmtudagur, september 23, 2004

hálsbindi = gaur sem reynir að hengja sig
heftari = sá sem gerir andrúmsloft þvingað
megrun = nýjasta myndin frá hollívúdd þar sem meg ryan er maraþonhlaupari
þvottaklemma = á ég að þvo í dag eða má það bíða aðeins lengur?...
stimpill = sá sem lendir oft í stimpingum
teskeið = bresk hestaíþrótt
kveikjari = þessi sem fattar alltaf allt
barnabarn = afkvæmi mjög ungra foreldra
slökkvitæki = sjónvarp
reykskynjari = pabbi minn
vasaljós = jólaseríur í krukkum
hurðarhúnn = vel upp alinn bangsaungi
andartak = ákveðinn stingur í bakið sem veldur kjánalegri stellingu
göngulag = td. upp upp upp á fjall
rómantík = ítalskt hundakyn
pólitík = pólskt hundakyn
nasismi = það sem fjölmargir bílstjórar stunda þegar þeir halda að enginn sé að horfa
krossgötur = fríkirkjuvegur og kirkjustræti ásamt fleirum
bastarður = gróði af sölu basthúsgagna

og nú þarf ég að pissa.

bless á meðan.
miðvikudagur, september 22, 2004

alltaf þykir mér jafn kómískt þegar ég reyni óvart að vera fyndin við húmorslaust fólk. það er nefnilega svo að ekki er alltaf hægt að sjá fyrir hvernig fólk muni bregðast við bjánalegum kommentum frá fólki eins og mér sjálfri. ég (og reyndar systir mín líka) er þessi týpa sem er alltaf blaðrandi. kem inn í búð og heilsa og það bregst ekki að kommentin byrja að vella útúr mér. bara eitthvað um hvað sem er, yfirleitt í svona huh huh tóni því mér finnst ég nefnilega vera oft svo assgoti sniðug. uppáhalds fólkið mitt eru þeir sem fatta húmorinn og taka þátt svo að bullið nær að halda aðeins áfram og allir halda sína leið með glott á vör. svo eru þeir sem reyna að vera með en eru samt ekki alveg að fatta og samræðurnar misfarast svolítið, en ég fer samt út með bros því að þetta var góð tilraun og ágæt samskipti.
ein týpan segir bara já og humm og einmitt án þess að hafa hvorki áhuga né gaman af tilraunum mínum til að eiga mannleg samskipti við ókunnuga í amstri hversdagsins.
eftir svoleiðis fólk brosi ég þá helst að því hversu húmorslaus viðkomandi var.
svo er það fólkið sem einfaldlega þykist ekki heyra eða er svo svakalega skítsama og þykir ég svo hrikalega hvimleið og asnaleg að það svarar ekki. verða heyrnarlaus, mállaus og blind. tómt augnaráð og samandregnar varir.
þá líður mér eins og uppblásnu trúðatrölli sem er í engu samhengi við nokkurn skapaðan hlut. svo þagna ég og set upp herpta-rassgatsvipinn og er alvarlega konan sem kom bara inn til að skoða.
eins og það getur stundum verið gaman að eiga smá orðaskipti við ókunnuga.
ég á oft erfitt með að skynja í lyftum hvort það sé mál að skella fram eins og einu kommenti um veðrið, spegilinn eða eitthvað, eða hvort það sé best að stara á tölurnar uppi við loft og bíða eftir að sleppa útúr þrúgandi þögninni.
þá er oft þægilegra bara að segja einhvern fjandann. það versta samt við að segja eitthvað er að þá er best að halda áfram þangað til ferðinni er lokið því að það eina sem er verra en þrúgandi þögn er þrúgandi þögn á eftir kommenti.
já, listin að eiga við ókunnuga er flókin og spennandi.

ef þið hittið á förnum vegi tvær síðhærðar snótir, önnur dökkhærð og hávaxnari og hin ljóshærðari og minna hávaxnari, og þær blaðra við gesti og gangandi um eintóma steypu og hlægja svo oftar en ekki á eftir. tékkaðu þá hvort þær heiti ekki lóa og maja.

þriðjudagur, september 21, 2004

ég er að hugsa um að finna upp eitthvað ómissandi, fá einkaleyfi á því og lifa á gróðanum það sem eftir er.
nú er bara vandinn að búa til eitthvað ómissandi sem engum hefur dottið í hug fyrr.
látum okkur nú sjá....
ryksegull. nokkurskonar segull sem dregur til sín ryk í íbúðum. tækið er falið undir sófa eða úti í horni þaðan sem það sýgur bókstaflega að sér allt ryk í ákveðnum radíus. svo einu sinni í mánuði er skipt um segul og þeim eldri hent í ruslið. (þeir verða einnota svo að ég hætti ekki að græða). með þessari uppfinningu mun ég gera ryksugur svo til óþarfar á heimilum.
sjálfvirkur bak og axlanuddari. gúmmíhendur sem hengdar eru á bak og axlir og sett í gang. þá sjá hendurnar um að veita unaðslegt slökunarnudd. fjarstýring fylgir.
lyktarvari. lítill hnappur sem fólk ber með sér, einn í buxnavasa, einn í brjóstvasa, einn í hálsfesti og einn innsaumaður í skó. hnapparnir eru einskonar lyktarnemar sem skynja eingöngu svitalykt, táfýlu, andfýlu og almenna óhreinindalykt af þeim sem hnappana ber. fari lyktin yfir ákveðið hámark heyrist píp og þá getur eigandi hnappanna og lyktarinnar gert viðeigandi ráðstafanir.

nú þarf ég bara að finna útúrþví hvernig ég bý þetta dót til.

mánudagur, september 20, 2004

fékk verkfall í andlitið í morgun. henti frumburðinum í bleyti og gerði annarra barna móður ábyrga fyrir honum eftir að hann þornaði. fínt að þekkja svona listafólk sem er heima hjá sér að skapa allan daginn. frétti líka að mamman byggi til hasar mat. hasarmat, alhasamm alhamdulilah inshalla shukran.
mikið væri ég til í að tala arabísku. aneh mabedi mushkila. það þýðir víst "ég vil engin vandræði". gott að vita ef farið er í gönguferðir um stríðshrjáð lönd araba. ég var sko að tala við konu frá arabalandi áðan. hún er íslamstrúar (það er ekki vinsælt að nota orðið múslimi eða múhameðstrúar skilst mér). hún sagði mér frá því að hér á landi býr nú ágætis gomma af trúsystkinum hennar og er það vel að mínu mati. ég væri til í að kíkja í messu en ég hef ekki enn fundið bænahús þeirra ef eitthvað er.
mætti ég kaupa eins og 6 gáma, raða þeim saman og innrétta sem íbúðarhúsnæði? hvað kostar gámurinn? gámafermeterinn er líklegast ódýrari en fermeterinn í íbúðum í miðbænum, og víðsvegar annarstaðar ef út í það er farið. sennilega væri samt ódýrara að kaupa einbýlishús á patreksfirði en gám í 101. hvort ætti ég að kaupa mér pent hús eða penthouse?
sem minnir mig á hvað ég hef alltaf verið heilluð af öllu röndóttu. alveg frá því að ég man eftir mér. ætli það segi eitthvað um karakter fólks, hvernig mynstur þeim líkar best? svo eru sumir nottla einlitir. en ég er semsagt röndótt. það er bara eitthvað við þetta mynstur sem alveg gersamlega hringlar í skilningarvitunum á mér. röndótt röndótt það er ég. fann samt ekkert á útsölunni í polarn og pyret. hver röndóttur!
hvernig fara offitusjúklingar að því að troða sér inn í bíla?

ég þekki mann sem er andleg antíkmubla. mubla er tökuorð úr dönsku og hefur sennilega feststs í máli voru þegar yfirstéttin snakkaði þá tungu. mubla á spænsku er mueble, hvenær talaði yfirstéttin á spáni dönsku? eitthvað hefur greinilega farið framhjá sagnfræðingum í þessum efnum.

það er nú svo og svo er nú það.

föstudagur, september 17, 2004

finndu gildi fyrir töluna k þannig að línurnar y=kx+1 og y+2=-3(x+4) verði hornréttar hvor á aðra.

tveir vagnar með gormum, annar 0,96 kg á hraðanum 1,2 m/s til hægri en hinn 0,62 kg á hraðanum 1,6 m/s til vinstri, lenda í alfjaðrandi miðjuárekstri sem tekur 0,77 s.
hver var hámarkskraftur milli gormanna ef samanlögð skriðþungabreyting vagnanna var 4,22 Ns?

logandi ljósapera er sett í 7,9 cm fjarlægð frá 2,6 cm þykkri safnlinsu úr gleri og sést glóþráðurinn skarpur á blaði 8,3 cm hinumegin við linsuna.
hver er brennivídd linsunnar?

verðlaun fást fyrir rétt svör.

fimmtudagur, september 16, 2004

ég er í bloggmínus. glápi út í loftið og dettur ekkert í hug. hvað gera bændur þá?
mig langar að vera frjó og frumleg og fyndin. hef það bara ekki í mér eins og stendur. hljóma öll eitthvað paþettik þessa dagana.
samt er ég voða kát á öðrum sviðum. frumlegheitatengingin er einhvernvegin ekki að gera sig einmitt núna.

eins og ég væri til í að kreista fram eins og eitt gullkorn hérna í dag.
það verður víst ekkert úr því.

miðvikudagur, september 15, 2004

hvað ef ég er klón? ef ég kannski kem heim í kvöld og finn einhver sönnunargögn sem sýna að ég er ekki orgínallinn og að ég sé bara eins og ljósrit af einhverri gellu sem fannst hún svo frábær að hún ákvað að klóna sig og er svo kannski að fylgjast með mér úr leyni. djöfull væri það spúkí.

hvað ef ég er keng-spila-band-sjóðandi-geðveik? svo geðveik að ég héldi í rauninni inni í höfðinu á mér að ég væri rosalega skýr ung stúlka á uppleið, í fínni vinnu og ætti fína fjölskyldu og allt voða eðlilegt og kósí, en í raun er það bara hugarburður minn þar sem ég sit í spennitreyjunni minni úti í horni og lem höfðinu í vegginn með órætt bros á vör.

hvað ef ég er vampýra? lifi ósköp eðlilegu lífi á daginn en um leið og ég sofna vaknar hin hliðin á mér og ég læðist út í nóttina og sýg blóð úr rónum, nóg til þess að verða södd en þó ekki of mikið til að þeir verði bara rétt ringlaðir. svo skola ég á mér munninn því ég vil ekki að hin hliðin komist að næturbröltinu, áður en ég skríð upp í rúm þar sem ég vakna aftur sem dagfarsprúða ég.

kannski er það þessvegna sem ég þarf alltaf að pissa á morgnanna... ?

þriðjudagur, september 14, 2004

nú er ég kerlingin sem situr yfir nemendum sem eru að taka próf. þessi sem passar að enginn sé að svindla og segir "það eru 5 mínútur eftir" svo að allir verði stressaðir og drífi sig í stóru spurningarnar sem þeir voru að geyma þar til í restina. ég er þessi sem passar að það sé þögn og að enginn sé með gemsa á borðinu.
mikið fór fólk eins og ég í taugarnar á mér þegar ég var hinumegin við kennaraborðið.
held samt að ég nái ágætlega til grislinganna þrátt fyrir allt. þau segja mér amk hvaða kennarar eru leiðinlegir. tel það vera merki um traust.

vá hvað það er gaman að sitja í stúdíóinu á laugavegi og fylgjast með fólkinu ganga framhjá. segi mér svo enginn að íslendingar séu einsleitir.
gamlir karlar á ráfi, fullt miðaldra fólk sem hefur ekkert annað að gera en hangsa í bænum, ungar gellur með bert á milli í skóm sem segja klakk klakk, miðaldra konur í kasmír með rauðan lit í hárinu, verkamenn í göllum, ungir jakkafatar og dragt- naglar á uppleið, tölvugaurar á leið í nexus og tattúveraðir vöðvar með litað svart hár og sporðdreka á bak við eyrað.

hvaða týpa er ég eiginlega?

mánudagur, september 13, 2004

fari þeir í feitgráðuga rjómalagaða frussufiska.
hver segir að það sé hallærislegt að ráfa um ikea á sunnudögum? læt slíkt prjáltal flauelslagaðra bóhemafleggjara sem vind um eyru þjóta. það gerir blái sófinn minn líka því ég get tekið utanaf honum og stungið skyrinu í þvottavélina.
prump.
út um mela og móa
rýkur systir mín lóa
litla kokkinn að prófa
saman eta þau mat
aaaaaaaaaaa
:hanajaxl og rófa
nautahakk og ís
grjónagrautinn grófa:(kýs)
gúmmilaði mýs

(lag : út um mela og móa)

nú íbúð vil ég finna
og vantar hana fljótt,
hana fljótt fljótt fljótt, hana hana hana fljótt,
en gegn mér allir vinna og útlitið er ljótt,
það er ljótt ljótt ljótt, voða voða voða ljótt.

(lag : það var einu sinni kerling)

úff hvað ég er andlaus í dag.

föstudagur, september 10, 2004

ég er brjálæðislega fúl útí skítalabbana sem buðu hærra en ég í íbúðina sem mig langar í. hvaða endemis heimtufrekja og yfirgangur er þetta? aldrei má fólk vera í friði með sín fasteignaviðskipti án þess að aðrir fari að skipta sér af og langa í sömu íbúð. og það pakk á alltaf meiri pening en ég.
svo skil ég heldur ekki hvur djöfullinn gengur eiginlega á með 101 reykjavík en allar íbúðir sem koma á sölu og eru ekki skrilljón krónu dýrar eða algjört drasl sem þarf hreinlega að endurbyggja, eru seldar á 17 sekúndum eftir 35 tilboð. það er bara ekki hægt að standa í þessum andskota.
því hef ég ákveðið að bíða þangað til íbúðin finnur mig. hér með gerist ég örlagatrúar og geri einfaldlega ráð fyrir því að hún muni stökkva upp í hendurnar á mér þegar hún sjálf er tilbúin.
þá mun ég líka bara þurfa að borga fyrir hana það sem hún vill láta borga fyrir sig.

en jæja, nenni sosum ekki að velta mér lengur uppúr því í bili. tími ekki að eyða frímínútunum mínum í svona smámuni sem heimili eru.

nú er tjáningarkúrsinum að ljúka. síðasti tíminn er í dag. næst fer ég að kenna félagsfræði. ég er að reyna að sortera úr kennslubókinni það sem ég vil leggja mesta áherslu á. uppástungur?
ég hef hugsað mér að geyma íslenska vinnumarkaðinn, stéttarfélögin og það þangað til í lífsleikninni til að eiga til góða smá tíma í félagsfræðina.
eftir að einn 18 ára kom til mín í gær og tjáði mér að asíubúar á íslandi væru upp til hópa fífl sem nenna ekki að læra tungumálið, taka af okkur djobbin, hanga alltaf saman í klíkum og eru yfirleitt vopnaðir í þeim tilgangi að ráðast tíu saman á einn varnarlausan íslenskan ungling sá ég í hendi mér að ansi mikill tími muni fara í fordóma og að uppræta svona skítalabbahugmyndir.

vúff... mikið starf fyrir höndum, en það skal takast. ég lofa ykkur hér með að sleppa þessu liði ekki aftur út í samfélagið fyrr en það kveður við annan tón.

fimmtudagur, september 09, 2004

það er eitthvað skrýtið við bloggerinn í dag. kommentakerfið virðist vera horfið... vonandi birtist það sjálfkrafa á ný, enda veit ég fátt um það sem ég gæti gert til að redda því ef það reddar sér ekki sjálft.
nema hvað, í gær skrifaði ég voða fína færslu um síðari ferð mína í útnárann á grafarvogi, copyaði hana og allt, en einhvernvegin tókst mér að glata henni. slíkt kemur jafnvel stóískum í vont skap en ég hef ákveðið að anda djúpt og læra að sleppa. sennilega var þessari færslu ekki ætlað að birtast. æðri máttarvöld tóku hana úr umferð. eða eitthvað.

skiptir svosem ekki máli enda ekkert voðalega spennandi að lesa um hvernig mér tókst að villast og keyra um í 45 mínútur án þess að rata útúr grafarvogi.

en nú þarf ég semsagt að rjúka að sækja síðburðinn sem þjáist af leikskólabakslagi.

barf

miðvikudagur, september 08, 2004

blessaður skoðunarmaðurinn kom hreinlega og sótti mig heim í gær. átti víst leið niður í bæ og ákvað að veita mér far út í útnára til að sækja bílinn minn.
hann keyrði og keyrði og ég fann fyrir vissri gleði þegar ég hugsaði til þess að ég skuli búa í landi þar sem ég þyrfti mjög ólíklega að vantreysta þessum miðaldra manni í bláum samfestingi sem ég þekki andskotann ekki neitt.
hann sótti mig á jeppanum sínum og við spjölluðum um bíla og bifreiðaskoðun (enda það eina sem við eigum sameiginlegt) og ég gerði í því að lýsa yfir fávisku minni í þeim efnum í þeim tilgangi að vekja hjá honum samúð og löngun til að hjálpa og styðja litlu elskulegu mig í gegnum skoðunarvandræðin.
svínvirkar.
hann keyrði og keyrði og keyrði þangað til við vorum komin út í rassgat heim til hans. þar skellti ég nokkrum seðlum í lófa kauða og hann skilaði mér bíllyklinum auk þess sem hann bauðst til að finna ókeypis handa mér nýjan afturhlera á bílinn og kannski eitthvað ljós sem vantar og kannski eitthvað fleira.
hvílík elska.
og svo var kominn tími til að keyra heim. takk fyrir og bless vinkaði ég þar sem ég keyrði úr hlaði. blágalli horfði á eftir mér keyra út af bílastæðinu og beygja í vitlausa átt.
ég sá hrúgu af ljósum í fjarska og vonaði að strætóskynið færi nú ekki með mig í ógöngur. svo keyrði ég og keyrði og keyrði og hlustaði á jerry rivera syngja ljúfa tóna. eitthvað þótti mér þó vera orðið gruggugt þegar ég endaði á bílastæði og gatan var búin. á bílastæðinu var einn bíll fullur af ástföngnu pari sem var að kela í myrkrinu.
ég snéri bílnum við en um leið og ég gaf í til að fara til baka rakst ég í flautuna og hef sennilega brugðið blessuðum turtildúfunum.
nema hvað... svo keyrði ég og keyrði og eyddi um hálftíma í einhverja endemis ruglingsþvæluferð um gjörvallan grafarvog. var farin að halda að það yrði mín gröf.
svo fann ég vatnsendaveg. eftir það fóru málin að skýrast og ég muldraði með sjálfri mér ,,þarna er þá reykjavík".

þriðjudagur, september 07, 2004

ég fór með bílinn minn í viðgerð í gær. ég hafði sko farið með hann í skoðun um daginn og þá kom í ljós að það þurfti að laga eitthvað í bremsunum og eitthvað í einhverju ljósi og svona smotterí til að geta fengið hann skoðaðan. skoðunargaurinn vippaði mér útundir vegg og bauðst til þess að laga þetta sjálfur fyrir slikk sem ég og þáði, enda ekkert vit í að spreða fátæktinni í bremsur og rugl.
við mæltum okkur mót heima hjá kauða en þegar ég lagði af stað gerði ég mér grein fyrir því að ég þurfti á landakorti að halda til að rata þennan andskota.
þar sem ég þekki bara til í hólahverfi í breiðholtinu og svo í 101 reykjavík og þar á milli kann ég bara aðal strætóleiðir tólfunnar lendi ég yfirleitt í vandræðum þegar fólk segist eiga heima í kópavogi, hafnarfirði, árbæ, grafarvogi eða einhverstaðar annarstaðar sem eru ekki mín heimasvæði.
nú ég opnaði símaskránna í farþegasætinu við hlið mér og gerði hring utanum áfangastað. svo fylgdi ég grænu línunum á kortinu eins og mér var frekast unnt. þegar líða tók á ferðalagið gerði ég mér grein fyrir því að kauði býr lengst úti í lengsta útnárarassgati á grafarvogi. ég er með hálfgerða grafarvogsfóbíu. þetta hverfi vex bara og vex út í alla móa og ég verð ekkert nema ringluð í þessu kraðaki grárra ferkantaðra húsa með gasgrillum á svölum, leikvöllum á 3ja fermetra fresti og litlausum þökum.
svei mér þá ef ég hefði ekki allt eins getað verið í útlöndum.
nema hvað, ég þurfti víst að skilja kaggann eftir og sem betur fer var ég með klink í vasa til að geta tekið strætó heim. ég lenti í heilmikilli útsýnisferð um grafarvoginn ásamt einstaka síðhærðum unglingi sem duttu inn og út úr vagninum víðs vegar um hverfið.
þegar við vorum loksins komin niður á suðurlandsbraut fór ég að kannast við mig (nja, nú ýki ég reyndar aðeins), og þegar ég sá glitta í gömlu ryðguðu og litríku bárujárnshúsin í miðbænum leið mér loksins eins og flugvélin væri lent. hjarta mitt dæsti af vellíðan og ég hugsaði með sjálfri mér að ég mun aldrei svo mikið sem íhuga að kaupa mér íbúð í súbúrbíu.
austan við tjörn og vestan við klambratún. þar bý ég.

ps. æpi nú hver sem vill að ég sé fordómafull og því verður ekki neitað.

mánudagur, september 06, 2004

jamm og jæja. best að vera ekkert að blogga þetta þegar íslenskir stafir eru ekki til staðar. frussuleiðinlegt að lesa þennan fjanda.

nema hvað...
afmælisveislan tvöfalda tókst bara ansi vel þó ég segi sjálf frá. upp gufuðu tvö föt af brauðrétti, tvær púðursykurtertur með rjóma og nóakroppi, vel rúmlega hálf skúffukaka, fjall af vöfflum, heil rúlluterta með jarðaberjum og einn pakki af saltstöngum.
ég kann ekki að elda en ég státa mig þó af því að vera ansi sleip þegar kemur að kökuhlaðborðum. verð samt að viðurkenna að skúffukakan kom frá þeirri konu er veitti mér líf og rúllutertan kom frá þeirri sem veitti henni líf. svo átti síðburðurinn þátt í skreytingum og plokki. þetta var semsagt fjögurra kynslóða hlaðborð.
en ég var samt aðal. þó ég segi sjálf frá.
(þetta er þáttur í einkaþerapíunni minni... ég komst nefnilega að því að ég tilheyri kynslóð sem hefur uppsprengda þörf fyrir hrós og getur lent í sjálfsímyndarkrísu sé þeirri þörf ekki fullnægt. þar sem öðrum kynslóðum er ekkert sérlega tamt að hrósa samferðafólki sínu getur verið lífsspursmál fyrir hróshungraða eins og mig að kunna að hrósa okkur sjálf. í því felst þerapían sem um ræðir. gott hjá mér.)

mér fannst voða gaman í afmælinu að bjóða fólki að fá sér kaffi og meððí af kökuborðinu sem svignaði undan kræsingunum, og skjóta inn um leið hinu klassíska ,,endilega fáið ykkur af öllum sortum, og fyrirgefiði hvað þetta er ómerkilegt". þetta sagði ég sko til þess að fá fólk til að glotta, brosa eða hreinlega skella uppúr yfir fáránleika afsökunarbeiðninnar, enda ekkert ómerkilegt við kökuhauginn. svo sagði ég ,,ég ætla samt ekkert að vera að fá mér sjálf því ég er svo feit" til þess að fá einhvern til að segja mér að ég væri sko bara alls ekkert feit.
nei nú er ég komin með svefngalsa.... bölvað rugl og vitleysa...hahahahaha......
ég er sko ekkert feit, ég er hasar kroppur og hasar kokkur og bara hasar yfir höfuð. ekkert að mér. hahahahaha.... þessum unglingum tekst sko ekkert að komast innfyrir brynjuna mína, þau skulu aldrei ná sálinni...ég þarf hrós, ég er fín, ég get þetta, það er allt í besta lagi og ég hef fullkomna stjórn á tilverunni.

já.

anda djúpt inn um nefið
og sleppa.

mánudagur.

sunnudagur, september 05, 2004

thad er nuna eda aldrei. mig hefur lengi langad til ad profa ad blogga undir ahrifum afengis. eg er bara svo sjaldan undir sliku ad thad hefur ekki tekist fyrr en nu. og tha hef eg enga islenska stafi.... makki...arg.... (samt godar tolvur).
eg var allavega ad koma ur brudkaupi (fyrir tha sem nenna ad lesa med utlenskum hreim).
thar drakk eg bjor sem heitir thvi villandi nafni pilsner. og nu er eg semsagt full af pilsner og barnaafmaeli a dofinni a morgun. vonum bara ad enginn sjai ser leik a bordi og bjalli i barnaverndarnefnd.
klukkan er sosum bara midnaetti og afmaelid ekki fyrr en kl. fjortan ad stadartima thannig ad thad er ekki hundrad i haettunni. vakna um kl. 10, skelli saman eins og einni pudursykurtertu og einum braudretti, skelli svo voffluduftinu i skal rett adur en lidid kemur og voila. afmaeli. eg er hvort ed er buin ad fara i bonus og nu erum vid 5 a heimilinu svo ad thad verdur nog af hreingerningarlidi.
aha. eg er ad fatta ad eg var ekkert buin ad segja fra 5ta heimilismedliminum. en hann er 15 ara brodursonur makans volgur fra mexico. var skutlad i hausinn a mer fyrir viku sidan og a vist ad dvelja her medal oss i 2 manudi. sosum fint enda godur i ad hafa ofananf fyrir afkvaemunum. en mikid assgoti geta unglingar sofid og etid.
nu hefur syningum kvoldsins verid lokid i regnboganum. en thar vinnur gaur i voda finum biomannabuningi sem er voda abudarfullur alltaf i ad sinna hlutverki sinu sem biostarfsmadur. voda duglegur vid ad skipta um plaggot og svona.
en allavega ... eg er ad gleyma brudkaupinu... mig er farid ad langa heitt ad komast i brudkaup sem er ekki eins. hofum vid virkilega ekki meira hugmyndaflug i brudkaup en svo? eg bara spyr. reyndar var sukkuladikakan algjort gegg (mikid hljomadi ordid gegg klisjulega..en well... afengi er afsokun). mig er samt farid ad langa i brudkaup thar sem allt er odruvisi.
jamm og eg fekk tar i augun thegar pall oskar song i kirkjunni og presturinn sagdi brandara. er ad hugsa um ad skrifa brandarann en finn ad eg nenni ekki. tharf eiginlega meira ad fara ad pissa.
pilsner... barf.

föstudagur, september 03, 2004

síðburðurinn er 2ja ára í dag. fyrir tveimur árum var ég með illt í maganum og kveið fyrir því sem koma skyldi. hóf starfsemina rétt undir morgun og sú stutta buslaði út rétt fyrir miðnætti. það var ansi langur dagur.
mikið er ég fegin að vera ekki að fæða barn í dag.

brúðkaup á morgun. best að fara að dusta rykið af mary poppins skónum mínum og brúðkaupsdressunum. vonandi er liðið búið að gleyma kjólunum mínum síðan í síðustu brúðkaupum. þá get ég farið að byrja umferð 2 í dressanotkun. ég tími engan veginn að vera að spreða í brúðkaupsföt, enda ekki föt sem ég nota oft og mörgum sinnum. þá vil ég frekar eiga eins og 3-4 umganga sem ég nota svo bara alltaf í hring, get skreytt dæmið með mismunandi fylgihlutum og treysti svo bara á lélegt minni fólks. reyndar eru alltaf einhverjir sem leggja föt annarra á minnið... merkilegt nokk. en þá verð ég bara að bíta í það súra að lenda á svarta listanum í þeim efnum. ekkert til að verða andvaka yfir. amk.ekki í mínum heimi.

barnaafmæli á sunnudaginn. verst að vita ekki hversu margir koma. en ég geri sosum alltaf alltof margar kökur hvort eð er þannig að það ætti ekki að vera mikið mál. mér finnst gott að eiga kökur í morgunmat í viku eða svo eftir hátíðleg tækifæri. þá nýtur maður þeirra lengur.

bekkjarpartý á mánudaginn. þá verður frumburðurinn 9 ára. ég tímasetti þetta allt svona fínt til að taka bara barnaafmælarassíu einu sinni á ári og ekkert rugl.
ætla þá bara að panta pizzur, kaupa kók og henda liðinu með geislaspilara og plastglös niður í kjallara þar sem þau geta farið í flöskustút og danskeppnir og hreinlega ganga af göflunum.

svo fer ég í frí í ár.

í kvöld ætla ég að halda kökuskreytingafund með brother louie.

fimmtudagur, september 02, 2004

júllírú. þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem mánaðarmót hafa runnið upp og heimabankinn minn lýsist ekki upp eins og rauð jólakúla. í dag eru tölurnar grænar og það er fallegt á að líta. hugur og hjarta halda takti, andardrátturinn er ekkert þyngri en venjulega og mig langar ekki til að gráta.
samt var ég næstum því farin að gráta áðan. ég var sko að þvælast yfir bílastæði hagkaupa í skeifunni þegar ég sá hann. labbandi um áttaviltur og ringlaður með annan vænginn lafandi niðurmeð líkamanum. hann var kannski ekki engill en hann var samt hvítur og vængjaður. þessi týpa sem fer í taugarnar á mér þegar ég er að reyna að gefa öndunum brauð og þeir koma í hópum fljúgandi og gargandi og stela brauðinu af andarkrílunum. en þessi mávur átti bágt (er ekki annars v í mávur?).
vængbrotnir fuglar og önnur lasin dýr og ósjálfbjarga verur valda þjáningu í mínum hjartarótum.
nema hvað,
þarna stóð ég eins og kjáni á bílastæðinu og reyndi að láta mér detta í hug ráð til að bjarga vængbrotna greyinu. ekki gat ég vafið honum inn í peysuna mína og tekið hann heim til hjúkrunar vegna þess að í fyrsta lagi hefði hann ekki treyst mér og hefði örugglega barist um á hæl og hnakka, í öðru lagi er ég hrædd við dýr (þó svo að ég vorkenni þeim), í þriðja lagi veit ég ekkert hvernig maður læknar vængbrotna máva og í fjórða lagi treysti ég fuglum ekki fyrir því að vera ekki með lús.
já og svo skíta þeir út um allt.
þar sem ég gat ekki hugsað mér að taka hann til fanga sá ég ekki hvernig ég ætti að fara að því að koma honum til dýralæknis, og svo veit ég hvort eð er ekki hvernig dýralæknir hefði tekið heimsókninni...og hvert yrði svo framhaldið á þeirri heimsókn?
ég var eiginlega skák og mát.
yfirkomin af vorkunn og hryggð, en algerlega hugmyndasnauð með lausnamálin.
loks fékk ég hugmynd. ég varpaði ábyrgðinni (sem ég hafði gert að minni eigin) yfir á yfirvaldið. ég hringdi í 112, fékk samband við lögregluna og tilkynnti þeim að það væri óskaplega dapurlegur vængbrotinn mávur á bílastæðinu við hagkaup í skeifunni.
manninum fannst ég hvorki fyndin né krúttleg en lofaði þó að senda bíl ef hann sæi sér það mögulega fært. það hljómaði þó ansi hæpið enda lögreglur bæjarins uppteknar við að leysa glæpi, elta þjófa og ræningja og góma róna við hlemm.
ég þakkaði pent fyrir hönd veika fuglsins og skellti á.
svo leit ég í eitt síðasta skipti á litla greyið og hugsaði ,,ég vona að þér gangi vel litli minn...ég gerði þó að minnsta kosti ekki ekki neitt fyrir þig".
svo snéri ég mér við og hélt áfram leið minni.
nokkrum skrefum síðar fékk ég sting af dapurleika.

spurning hvort vegi þyngra, gleðin yfir að geta borgað alla reikningana eða sorgin yfir óráðnum örlögum vængbrotna fuglsins.

spurning...

miðvikudagur, september 01, 2004

mér þykir ansi merkilegt að hlusta á fólk tala um femínisma undanfarið. (þá er ég samt ekki að fjalla um hann ingó, enda trúi ég því staðfastlega að hann sé haldinn djúpum og stundum ansi óræðum húmor).
nema hvað, ég finn mig oftast verða hissa þegar ég geri mér grein fyrir því að sumt fólk sem rökræðir málið er alls ekki að grínast.
ég hef af óskýranlegum orsökum oft orðið vitni að umræðum um femínisma síðustu daga, vikur og mánuði, og umræðan er yfirleitt einstaklega svipuð. þeir sem hafa ekkert lesið sér til um femínisma nema það sem aðrir ólesnir hafa skrifað kvarta mikið yfir femínistum, segjast samt vilja jafnrétti og að þeir kjósi að kalla sig jafnréttissinna því að femínismi séu öfgar. þau rök eru oftast studd með dæmum um bandbrjálaðar gellur sem halda að þær geti eitthvað breytt heiminum standandi í bleikum bolum með spjöld fyrir utan strippklúbba og fegurðarsamkeppnir.
baráttumálin eru þó flest gúteruð, en þó vill fólk skella þeim undir jafnréttissinna-hattinn frekar því femínistar eru kjánalegir. það eru allir sammála um að fólk ætti að fá sömu laun fyrir sömu störf og að kvensal í vændisheiminum sé hið versta mál. ekki hef ég heldur heyrt neinn neita því að uppræta þurfi félags-líkamlega sjúkdóma eins og anorexíu og búlimíu eða heimilisofbeldi og nauðganir.
þeir sem samþykkja þörfina fyrir upprætinguna koma þó sjaldnast með uppástungur að nálgunaraðferðum eða mögulegum aðgerðum.
svo er alltaf þetta með jákvæðu mismununina og karlahatrið. það er ekki körlum að kenna að konur þori ekki og sæki ekki eins mikið í stóru stöðurnar. það eru nú fleiri konur í háskólanum en karlar en svo er aftur annað mál að þær sækja meira í að vera heima með börnunum (og eru líka betri í því) og eru þar af leiðandi óstabílli starfskraftar... og það er sko ekkert jafnrétti í því að verða að velja konu í stöðu ef maður og kona eru jafn hæf til starfans. aumingja karlarnir sem sækja um, eins og eitthvað sé þeim að kenna... og svo eru femínistarnir alltaf að væla yfir öllu, nöldra yfir auglýsingum, skemmtiþáttum og bloggsíðum. þær hafa engan húmor og fatta ekki að stundum er fólk bara að skemmta sér og að það er bara fallegt og gaman að horfa á sætar stelpur dilla sér. þær vilja þetta, þeir vilja þetta, hvað er málið?

vandamálið við femínista er að þetta er yfirleitt frekar menntað fólk, oftar en ekki vel lesið og kemur ósjaldan úr félagsvísindagreinum eða öðrum húmanískum fögum. þetta er fólk sem hefur lesið óteljandi kenningar og hefur tileinkað sér þá list að geta horft á samfélagið í gegnum hin ýmsu gleraugu og séð heildarmyndina.
það skoðar hegðun fólks í dag útfrá ríkjandi samfélagslegum mynstrum, sögulegri þróun, ríkjandi siðferðisreglum og öðrum óskrifuðum reglum,trúarbrögðum og fleiru. þetta er svo allt fléttað saman og útkoman gefur ákveðna sýn á hvert samfélag fyrir sig.
það fólk sem prófar að setja upp femínismagleraugun á ekki oft endurkvæmt. nálgunin er þó alls ekki persónuleg. rök eins og þau um frændann sem fékk ekki starfið útaf því að það kom kona á móti honum og hann lenti í jákvæðri mismunun tilheyra annarri umræðu. femínistinn vill breyta heildarmyndinni. til þess þarf að grafa djúpt og byrja að reyta arfann á botninum. bleikir bolir fyrir utan fegurðarsamkeppnir hljóma sennilega eins og húmbúkk þegar þeir eru dregnir uppá persónulega stigið. en fyrir fólk sem er að reyna að pota sér leið inní hugmyndafræði almennings og vill opna augu annarra fyrir því að hlutirnir séu ekki eins og þeir eru af einhverjum náttúrulegum orsökum og að forsendurnar á bak við hegðun karla og kvenna séu komnar til vegna aldagamallar og úreltrar félagsmótunar sem er ekki endilega jákvæð þó hún sé gömul, eru svosem ekki margar leiðir færar. en þær gefast ekki upp og gera sitt besta til að benda á það sem þær hafa séð í gegnum gleraugun sín. þær sjá samfélagið abstrakt. þær fá persónuleg mótrök.
á þennan hátt mun rifrildinu aldrei ljúka.

ég er þeirrar skoðunar að það sé til tvennskonar fólk.
þeir sem nota gleraugu og þeir sem nenna ekki til augnlæknis.