mánudagur, nóvember 24, 2008

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

ég þoli ekki keðjubréf. verst þoli ég þessi væmnu vina-keðjubréf sem eru full af broskörlum og hjörtum og blikkandi drasli. þessi sem segja þér að þú eigir svona og svona marga vini ef pósthólfið þitt fyllist af sama helvítis bréfinu aftur og aftur. annars muntu deyja ein og yfirgefin. týnd og tröllum gefin.
fékk svoleiðis bréf í gær. blótaði sendandanum í ösku og sand. skrollaði samt af gömlum vana yfir bréfið á meðan ég jós skammaryrðum yfir tölvuna mína. svo kom ég að enda bréfsins sem reyndist alveg jafn drulluvæminn og afgangurinn af bréfinu. samt var eitthvað sem fékk mig til að lesa þennan stutta texta aftur. ég hef ábyggilega lesið þetta áður en í þetta skiptið fannst mér þetta bara eiga eitthvað svo vel við. sendi þetta að sjálfsögðu ekki áfram á neitt póstfang en get samt ekki á mér setið... þetta er klisja en ætli ég þurfi bara ekki á klisjum að halda þessa dagana: Life is short, Break the rules, Forgive quickly, Kiss slowly, Love truly, Laugh uncontrollably, and never regret anything that made you smile.

sunnudagur, nóvember 16, 2008

sjihihitt hvað það var gaman í gær. ég átti stórasta afmælisdaginn minn í heimi.
fyrst borðaði ég köku og gott brauð ásamt litlu fjölskyldunni minni og systurinni og pabbanum og ég blés á kerti og svona fínt. fékk kjól frá fjölskyldunni í gjöf og er hann fallegur mjög. að hádegismat loknum safnaðist múgur og margmenni saman á austurvelli til að halda uppá mig. einhverjir voru reyndar svo æstir að þeir fóru að kasta mat í alþingishúsið en það voru hvort eð er boðflennur sem ég kannaðist ekki við svo að ég firri mig algerlega ábyrgð.
að þeirri samkomu lokinni fórum við systur og mæðgur á hasar-basar á smiðjustíg þar sem viðstaddir sungu fyrir mig afmælissönginn undir styrkri stjórn effemm belfast. það var gaman. já og við fengum kakó og piparkökur.
nú eftir góðan blund heima snæddi ég ljúfar veitingar ásamt minni nánustu fjölskyldu (mínus frumburðurinn sem var í sveit að keppa og móðurmyndinni sem var í sveit að kenna). það var indælt. þaðan héldum við svo í laugardalshöllina þar sem ég barði höndina á mér til óbóta með hristu og aftur var afmælissöngurinn sunginn fyrir mig. í þetta sinn af um fimmþúsund manns plús þeim sem sungu með útvarpinu þar sem herlegheitin voru spiluð í beinni á rás tvö. mér leið eins og ég héti ólöf ragna grímsdóttir eða eitthvað svoleiðis. djöfull var þetta hrikalega eftirminnileg stund. já og svo hafði ég fengið fullt af skemmtilegum essemessum þegar ég kom af sviðinu sveitt og másandi frá fallegu fólki sem vildi óska mér til hamingju.
núnú, ekki var þó öllu lokið þó að hápunktinum hefði verið náð. úr höllinni brunuðum við niður á söntu maríu þar sem ég saup öl ásamt kærum vinum og kærum vandamönnum langt framundir morgun. starfsfólkið mitt yndislega hafði gert fyrir mig köku (nánar tiltekið var það hún joana frá póllandi sem bakaði) og ég blés aftur á kerti og enn eina ferðina var afmælissöngurinn sunginn.
í dag er ég í gleði-þreytu-kóma með marbletti í lófanum og pikkfast sólheimaglott á fésinu.
það verður erfitt að toppa þennan afmælisdag.

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

svei mér þá ef ég er ekki bara alveg pass.
en ég á bráðum afmæli. ó já. og þá ætla ég að sötra. og dansa. og syngja. og gleðjast.
skólaönnin er farin að styttast í annan endann og er það vel. nemendur mínar eru orðnar langþreyttar og heilabú mitt hefur sennilega rýrnað um ein 25% eins og peningarnir mínir. eitthvað er jólaspenningur farinn að láta kræla á sér og ég stóð mig að því í gær að velta fyrir mér komandi aðfangadegi og hátíðisdögum öðrum þar í kring. það er eitthvað við afmælistíðina sem hristir upp í uppáhaldarann í mér og mig fer að langa til að halda uppá allan fjandann. ætli ég haldi ekki bara uppá þrítugsafmælið mitt og þrjátíuogfjögurra saman þar sem þrítugsafmælið mitt fór eitthvað fyrir ofan garð og neðan sökum glóðurauga og heilahristings dótturinnar þarna um árið. hún er alveg búin að jafna sig blessunin þannig að ég sé mér fært að sletta úr klaufunum þetta árið svo lengi sem enginn fær þá flugu í höfuðið að láta sig detta á höfuðið á næstu dögum.

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

blessuð skítablíðan. í dag velur kaninn sér kóng og íslendingar halda áfram að kreppa. það er dásamlegt að fylgjast með 6 ára parinu, dótturinni og tengdasyninum, leika sér hér á stofugólfinu alsendis áhyggjulaus.
stundum finnst mér eins og ég hafi ekkert breyst síðan ég var unglamb. stundum finnst mér eins og ég sé eitthvað svakalega að þroskast með aldrinum. samt er ég einhvernvegin alveg sami imbinn og áðurfyrr. bara aðeins dýpri. eða ekki.
einu sinni þegar ég var á milli 13 og 19 samdi ég ljóð. á þeim sama aldri tók ég þátt í allri þeirri leiklist og öllum þeim félagsstörfum sem boðið var uppá. ætli ég hafi ekki verið dýpri þá eftir alltsamant. með aldrinum hefur heili minn og líf fyllst svo svakalega af hversdagslegum og helgidagslegum áhyggjum og umhugsunarefnum að plássið sem ég hafði fyrir sköpunina og frumlegheitin er uppurið. sem er eiginlega hálf dapurt þegar ég hugsa útí það.... af hverju var ég þá að hugsa útí það? tjah...góð spurning.
ætli þetta sé vandamál sem fylgir árunum á milli 20 og 40? börn og bura og sá pakki? ætli ég dýpki aftur uppúr fertugu? mikið væri það notalegt.
þangað til verður hægt að finna mig slefandi með blóðhlaupin augu í kóma fyrir framan sjónvarpið.

laugardagur, nóvember 01, 2008

í gær drakk ég bjór. í kvöld þarf ég aftur að drekka bjór.
tókstu eftir því að ég sagði þarf? ég þarf. ekki af innri þörf heldur ytri þörf. samfélagsleg þörf. æi skiptir ekki máli. heilinn minn er þreyttur.
nema hvað. í gær tókst mér að rústa á mér litlafingri vinstri handar og núna þegar ég skrifa stafinn a, meiði ég mig. a (ái). veistu hvernig ég fór að því? nei það veistu ekki. ég sló kaktus utanundir. svakalegur rokna kinnhestur. með handarbakinu og fingrunum. ég mæli ekki með því að fólk prófi að löðrunga kaktusana sína hvorki heima hjá sér né annarstaðar. í dag er ég svo með skrýtna kúlu á fingrinum sem er mjög sár (mig grunar að eitthvað sé fast í henni), og svo er nöglin aum og heit, eða þú veist, ekki nöglin sjálf því hún er ekki ...bla bla.... en ég held sko að ég sé með kaktusnál undir henni, hvernig svo sem mér tókst það.
þetta er í grófum dráttum allt sem heilasellur mínar ná utanum í dag. engin gagnrýnin hugsun í gangi. ekkert nema aumur putti og hausverkur.
aaaaa... ái