miðvikudagur, desember 28, 2005

hananú. þarf að skipta tveimur gjöfum. fékk illt í magann af kínverskum mat í gær. tapaði í popppunkti og fór of seint að sofa eins og ég hef aulast til að gera hvern einasta dag frísins. sem er svosem gott og blessað að ýmsu leyti, mætti vera betra að öðru leyti. mig langar í lífsklukku sem vekur mig hægt og rólega með dagsbirtuhermi sem smýgur inn í merg og bein og vekur líkama minn áður en ég vakna alveg endurnærð á líkama og sál en ekki súr, örvinda og syfjuð eins og ég virðist vera þegar mestallur dagurinn er nótt.
svei mér þá ef þetta er ekki fyrsta árið sem ég tek eftir því að skammdegið hafi í raun áhrif á skapið og klukkuna í mér. og í fyrsta skipti hef ég spurt fólk útí þetta vandamál og í fyrsta skipti hef ég komist að því að flestum þykir bara drullu erfitt að rífa sig uppúr rúminu þegar dagarnir eru svona þunglamalegir.
einhvernvegin fór þetta alltaf framhjá mér, enda hef ég kannski ekki endilega verið þekktust fyrir að vera í óskaplegum tengslum við eigin líkamsstarfsemi og andlegt ástand. það hefur meira verið mömmu deild að tengja síkósómatíkina og jingið og jangið og allt það stöff. ég hef bara einhvernvegin verið.
hér með tel ég ákveðnu þroskastigi náð og þetta þroskastig hyggst ég taka með mér inn í nýja árið.
sem minnir mig á það... hvað í andskotanum ætlar fólk að gera á gamlárs? einhvernvegin heyrist mér að allir séu að fara að gera bara eitthvað og enginn viti alveg hvað það verði. eða er það bara í mínu umhverfi?
svei mér þá ef mig vantar ekki að fara að búa til míns eigins hefðir og hætta að stóla á annarramanna stöff.

miðvikudagur, desember 21, 2005

þar sem ég tilheyri þeim forréttindaríka þjóðfélagshópi sem nýtur þess að fá almennilegt jólafrí hef ég ekki verið og mun ekki vera dugleg að blogga þessa dagana. frumburðurinn er kominn í jólafrí og við splæstum sömuleiðis fríi á síðburðinn þrátt fyrir að því er virðist óendanlegan opnunartíma leikskólanna. við höfum eytt vikunni við turtildúfurnar í gjafakaup og kaup á ýmiskonar dótaríi sem hefur límst við okkur á leiðinni, auk þess sem við höfum ræktað líkama og sál. í dag fór svo jólafrísfjölskyldan í sundferð þar sem við fengum heila innilaug bara fyrir okkur og sturtuklefana svotil tóma þar sem aðrir virðast vera of uppteknir til að bleyta sig.
á morgun og hinn og á þorláki mun svo verða hangsað, jafnvel synt aðeins meira, og jafnvel bakaðar fleiri smákökusortir þar sem hinar tvær sem við bökuðum eru að klárast.
við munum sofa út, fara seint framúr, borða síðbúinn morgunmat í rólegheitum og stunda almennt dundur algerlega laus við stress, flýti og pirring. sama dagskrá verður viðhöfð á milli jóla og nýárs.
keyptir hafa verið slatta margir metrar af jólapappír og skrautborðum ýmiskonar sem munu verða vafðir eftir að kertasníkir svæfir börnin á þorláki, innihaldið í mexíkanska jólasaltfiskréttinn eru einnig komin í hús og föndrað verður við matseldina frá og með morgundeginum, enda langdreginn réttur í framkvæmd. jólakort hafa ekki verið send einni einustu sálu þar sem ég virðist vera haldin einhverskonar jólakortalæsingu, en það mun kannski rjátlast af mér einhverntíman í framtíðinni. eða ekki.
allt í allt er þetta semsagt barasta skrambi fín árstíð hérna í litla gula húsinu.
ef ég sé ykkur ekki á næstu dögum langar mig hér með til þess að óska ykkur öllum gleðilegra jóla, sólstöðuhátíðar, hanukka eða hvað það nú er sem þið kjósið að halda uppá, eða bara góðrar helgar ef trúarbrögð ykkar eru ekki í stuði þessa dagana. svo vil ég óska ykkur gleði, friðar og hamingju um leið og ég þakka fyrir liðna samfylgd, vonast eftir áframhaldandi samveru og bið ykkur vel að lifa.
sjáumst vonandi fljótlega aftur en ég er semsagt upptekin í bili við að gera allt og ekkert í góðu stuði.

mánudagur, desember 19, 2005

mikið er svona heiladauð starfsemi stundum góð fyrir egóið....tíhíhí

Your Seduction Style: Au Natural

You rank up there with your seduction skills, though you might not know it.
That's because you're a natural at seduction. You don't realize your power!
The root of your natural seduction power: your innocence and optimism.

You're the type of person who happily plays around and creates a unique little world.
Little do you know that your personal paradise is so appealing that it sucks people in.
You find joy in everything - so is it any surprise that people find joy in you?

You bring back the inner child in everyone you meet with your sincere and spontaneous ways.
Your childlike (but not childish) behavior also inspires others to care for you.
As a result, those who you befriend and date tend to be incredibly loyal to you.
Your Christmas is Most Like: The Muppet Christmas Carol

You tend to reflect on Christmas past, present, and future...
And you also do a little singing.

fimmtudagur, desember 15, 2005

einhverra hluta vegna var ég að hugsa um aldur í gærkveld þar sem ég lá og reyndi að sofna. hvimleiður vani að hugsa þegar líkaminn er að reyna að sofna... nema hvað, ætli ég hafi ekki verið að hugsa um aldur sökum þess að í gær gerðist sá merkisatburður að karl faðir minn gerðist sextugur. þá var ég semsagt að velta því fyrir mér að hann væri kominn samkvæmt íslensku tímatali á sjötugsaldur en það þykir mér einhverra hluta vegna hljóma of gamalt miðað við hvað hann er alls ekki gamall maður. svo hélt ég áfram að hugsa og mundi að ég sjálf telst núna vera á fertugsaldri, sem er líka alltof mikið hugtak fyrir svona litla stúlku eins og mig. nú og enn héldu þankagangar mínir áfram og eftir mikil brot í heila reiknaðist mér svo til að ég eigi son á tvítugsaldri og dóttur á tugsaldri.
sonur minn er nú hreinskilnislega sagt ekki með þroska til að teljast til tvítugsaldurs frekar en ég er með þroska til að vera á fertugsaldri frekar en pabbi er lítur út fyrir að vera á sjötugsaldri. hann er sennilega þroskaðri en ég en ég tel mig semsagt ekki hafa þroska til að segja til um þroska þeirra sem eru ofar mér í aldri þar sem ég hef engan samanburð innan þess aldurshóps við sjálfa mig.
nema hvað.... niðurstaða mín er eiginlega sú að ég tel aldurstímatal íslendinga vera niðurdrepandi og sjálfsmyndartruflandi og frekar svona glasið er hálf tómt eitthvað heldur en hitt.
leyfist mér hér með að leggja til að tugirnir verði taldir eftir því sem þeim er lokið og þar með á ég dóttur sem er barn, son sem hefur nýverið fyllt sinn fyrsta tug, er sjálf á þrítugsaldri og á móður á fimmtugsaldri og föður á sextugsaldri.
það hljómar einhvernvegin réttara.

laugardagur, desember 10, 2005

það er eitthvað kósí við myrkrið. það er líka eitthvað kósí við hlý föt og rauð nef og kinnar niðri í bæ þegar allt er upplýst og draslið vellur útúr búðargluggunum. eitthvað sem veldur því að ég er haldin óstöðvandi löngun í heita köku með rjóma og jólaöl.
það er ekkert kósí við hrannir af fólki sem treðst inn á milli hillna í búðum og streymir framhjá andlitinu á mér í verslanamiðstöðvum. veldur mér eiginlega bara svima og óþægindatilfinningu. lætur mig langa til að fara heim og horfa á súrrealísku jólaskreytingarnar eftir þriggja ára innanhúshönnuðinn minn.

mér þykja þessi upplýstu kósílegheit vera uppspretta góðrar tilfinningar sem veldur mér brosi í tíma og ótíma. það sem mér þykir skrýtnast er að sjá ekki fleiri bros á röltinu um bæinn. það eru flestir of uppteknir við að ana til þess að rölta. rölt er mun geðheilsuvænna og frekar brosaframleiðandi.
ég sé fólk bresta í bros þegar það mætir vinum og kunningjum. anið stöðvast um stund og alvarlega einbeitingarinnkaupahrukkan breytist í stutta gleði.
mér finnst að fólk ætti að vera duglegra að brosa til ókunnugra líka.
það er hægt að brosa til fólks af því að veðrið er svo frábært, af því að veðrið er svo vont að það er hreinlega fyndið, af því að við erum samferða í augnablik framhjá sniðugu fyrirbæri eða bara af því að það er gaman að gefa og þiggja bros.
en jæja... það er kannski bara ég....

fimmtudagur, desember 08, 2005

og kvabb kvabb kvabb og kvabb kvabb kvabb... litla gula konan segir kvabb kvabb kvabb, úti og inni. litla samstarfskonan segir kvabb kvabb kvabb, nöldur nöldur og kúkur í mín eyru.

hér með mun ég forða mér í faðm minnar yfirleittjákvæðu systur og við ætlum að kaupa jólapakka handa henni ömmugeddon.

mánudagur, desember 05, 2005

rembumst við og rembumst við að selja okkar hús
selja okkar hús
selja okkar hús
rembumst við og rembumst við að selja okkar hús
snemma á mánudags morgni

svona gerum við er við pússum okkar gólf
pússum okkar gólf
pússum okkar gólf
svona gerum við er við pússum okkar gólf
snemma á mánudags morgni

með nefið fullt af ryki og augun full af skít
augun full af skít
augun full af skít
með nefið fullt af ryki og augun full af skít
snemma á mánudags morgni

svona gerum við til að selja okkar hús
selja okkar hús
selja okkar hús
svona gerum við til að selja okkar hús
snemma á mánudags morgni

föstudagur, desember 02, 2005

mín ekki lengur makalaus. alveg makalaust hvað makaleysi er erfitt, slítandi, ágætt og afslappandi í senn. en nú eru hlutirnir semsagt aftur farnir að taka á sig upprunalegt form. ég er hætt að þurfa að elda og börnin eru svo límd við föður sinn sökum fyrrum fjarveru hans að þeim gæti ekki verið meira sama hvort ég er á svæðinu eða ekki, sem veitir vissulega heilmikla hvíld bæði andlega og líkamlega.
annars er síður gaman að segja frá því að makinn kom heim aftur nokkrum kílóum léttari, mörgum vöðvum stinnari, mörgum hárum klipptari og mörgum tónum brúnni.
sem aftur gerir það að verkum að ég lít út fyrir að vera feitari, grárri, þreyttari og lufsulegri í samanburðinum sem er ekki alveg mér í hag á þessum síðustu og verstu líkamsútlitsfegurðaræskudýrkunartímum. það er eiginlega bara svolítið erfitt að eiga sætan mann því að kröfurnar aukast, enda kvenaðilinn oft undir pressu að vera ekki eftirbátur karlaðilans í útliti.
ég get allavega huggað mig við það að ég er sko alls ekkert vitlausari en hann... að einhverju leyti ...held ég ....eða ekki ...heh