föstudagur, september 28, 2007

það rignir í mexíkó. ferðalagið okkar hefst sennilega á mánudaginn.
hvað er annars að frétta af þér?

fimmtudagur, september 27, 2007

þann 7. júlí sl. gleymdi ég að opna viðhengi í bréfi sem ég fékk frá vini mínum skólastjóranum. núna fattaði ég það og var að lesa skilaboð sem mér voru send frá nemendum mínum þegar þau voru að hætta í skólanum. og ég get ekki hætt að gráta.
mikið er til fallegt fólk...

miðvikudagur, september 26, 2007

einhver var að segja mér í dag að 17 gervihnettir hafi fallið af himnum ofan. geimverur eru grunaðar um verknaðinn.
ég veit ekki með ykkur en mexíkanar eru hrifnir af samsæriskenningum og eiga ekkert svo erfitt margir með að trúa á tilvist geimvera. mig grunar að þeir séu ekki eins skeptískir og t.d. ég af því að hér á bæ gerast oft hlutir sem hljóma ótrúlegri en besta skáldsaga. og stundum byrja ég að efast...hvað ef þeir hafa rétt fyrir sér en ekki ég? hvað ef bretadrottning lét drepa díönu, frímúrarar stjórna heiminum og geimverur séu komnar til jarðar?

þriðjudagur, september 25, 2007

ég vann verðlaun í grímuafmælinu. er bara að bíða eftir að fá góðu myndirnar til að geta montað mig, en mæ ó mæ hvað ég var fín... þó ég segi sjálf frá.
gærdagurinn (sunnudagur) fór í mikla endemis leti og almenna þreytu. og núna erum við að skoða hvernig við ætlum að eyða tímanum fram að íslandsför. spurning um að skreppa á ströndina...hmmm.... hljómar hreint ekki illa svona til að hita upp fyrir íslenska veturinn.
veit einhver um íbúð með húsgögnum sem ég gæti fengið leygða í nóvember?
bara að tékka.
og já, svo var ég að setja örfáar myndir hingað.

langar einhvern með í strandferð?

laugardagur, september 22, 2007

í gær var einn af lengri dögum ævi minnar. hann byrjaði klukkan 4 um morguninn eftir tæpra 4ra tíma svefn. þá var góssinu okkar staflað uppí flutningabíl og þegar húsið var tómt var keyrt af stað. fyrst keyrðum við til mexíkóborgar, en þá má bæta því við að deginum áður höfðum við keyrt til borgarinnar og aftur tilbaka um kvöldið. í borginni skildum við eitthvað af dóti og tvö börn eftir hjá tengdaforeldrunum (börnin höfðum við reyndar skilið eftir kveldinu áður). svo keyrðum við hinumegin útúr borginni og alla leið niðrað sjó, eða til hafnarborgarinnar veracruz. það tók okkur eina 4-5 tíma og ég var komin með góðan massívan nálasting í rassinn þegar á áfangastað var komið. í veracruz borðuðum við á hinum fræga stað la parroquia, sem þið ættuð að kannast við ef þið hafið komið til veracruz. veracruz er nokkuð karabísk í útliti, milljón manna bær, og þangað fara ameríkanar að taka upp bíómyndir sem eiga að gerast á kúbu. þetta er víst það næsta sem þeir komast og bærinn er mjög kúbulegur í útliti. líka svolítið puerto ricolegur en fólk er víst almennt betur að sér í kúbu.
nema hvað, eftir að hafa borðað mat með flutningaköllunum tveimur kom rafael, tengiliðurinn okkar og kunningi síðan við bjuggum í cancun (fyrir löööngu síðan), og tveir félagar hans sem eru tollarar og skipaeitthvað. þeir tóku við peningunum okkar og pappírum og hoppuðu svo uppí bíl með okkur og sögðu flutningagaurunum að fylgja sér. og svo keyrðum við af stað.
og við keyrðum
og keyrðum
og keyrðum
allt í einu komum við að litlu vatni þar sem nokkrum húsum hafði verið klambrað saman í einni götu. þar í gegn keyrðum við þangað til við komum að enda götunnar. þar stóð nokkuð stórt skýli. í skýlinu voru þrír ungir mjög sólarlitaðir og skítugir drengir sem hjálpuðu flutningagaurunum að raða dótinu okkar í eitt horn skýlisins. okkur var sagt að leggja bílnum við hliðina á dótinu og takk fyrir takk. svo máttum við bara fara. tollgaurinn bauðst til að skutla okkur á flugvöllinn og þar sem við keyrðum í burtu frá skýlinu horfðum við útum afturglugga litlu druslunnar á dótið okkar og bílinn. svo litum við á hvort annað og hvísluðum að vonandi myndum við sjá það aftur. þetta var allavega dúbíus staður til að skilja allt þitt hafurtask eftir, og svooo mikið af moskítóflugum. maður minn, ég er eins og gatasigti fyrir neðan hné.
nema hvað, þreyttum en upptrekktum var okkur skutlað á flugvöllinn þar sem við keyptum miða með næstu vél til mexíkóborgar. sveitt, skítug og rakaklístruð settumst við svo í kaffiteríuna þar sem við drukkum bjór í þrjár klukkustundir. svo þurftum við að bíða í aukaklukkutíma í troðfullum biðsal þangað til okkur var hleypt í vélina. það var svolítið kósí stund að labba yfir völlinn í hlýrri hafgolunni og horfa á stjörnurnar á leiðinni uppí vélina. langt síðan ég hef farið uppí flugvél öðruvísi en í gegnum ljót göng.
núnú, svo fékk ég mér annan bjór í vélinni og við lentum í mexíkóborg um tíuleytið. þegar út var komið af flugvellinum þar blasti við okkur kílómeters löng röð í leigubíla. þar sem við höfðum enga krafta til að standa þolinmóð tímunum saman ákváðum við að rölta út á götu. það gerðum við og veiddum leigubíl fljótlega. og hann keyrði okkur heim. um leið og ég lagði höfuðið á koddann féll ég í þann dýpsta svefn sem ég hef nokkurntíman sofið. mig dreymdi að ég væri fljótandi í sundlaug og það var svo afslappandi að ég hef sjaldan vitað annað eins.
svo vaknaði ég núna áðan klukkan hálf ellefu eins og nýsleginn túskildingur.
og í kveld erum við að fara í bíómyndaþemað grímuafmæli. ég er að hugsa um að vera litla stelpan í grinch myndinni.
hananú.

miðvikudagur, september 19, 2007

maðurinn með hattinn stendur upp við staur. borgar ekki skattinn því hann á engan aur. hausinn oní maga. maginn oní skó. reima svo fyrir og hendonum útí sjó.

mexíkanar eru svolítið eins og kínverjar. þeir eru rosalega margir, þeir eru lang flestir svarthærðir og þeir eru duglegir við að búa til sjóræningjaeintök af öllum fjáranum.
einu sinni voru til íslenskir skór sem hétu x-18. mexíkani nokkur fór til íslands að heimsækja framleiðandann, fékk prufur af skónum til að skipuleggja sölu í mexíkó, fór með prufurnar í ódýra verksmiðju og hóf að selja alveg eins skó á flóamörkuðum. hér eru til ódýrar eftirhermur af dýrum úrum (ég gaf föður mínum til dæmis mjög lélegt rolex úr einusinni í jólagjöf), dýrum töskum, skartgripum, ilmvötnum og allskyns merkjavöru. á hverju götuhorni er hægt að kaupa ólöglegar útgáfur af geisladiskum og bíómyndum (reyndar oftar en ekki með hilarioso þýðingum sem koma myndinni nákvæmlega ekkert við), meira að segja ólöglegir tölvuleikir eru allstaðar til sölu. margir götusalar selja ólögleg eintök af bókum. maður verður bara að passa sig að tékka hvort þetta sé ekki örugglega réttur texti innan í kápunni. ef þú t.d. kaupir harry potter er ágætt að kíkja hvort það stendur einhverstaðar harry potter í textanum. svo eru líka veitingastaðir og barir sem nota nöfn sem hljóma eins og enska útgáfan þegar þau eru lesin á spænsku og lógóin eru næstum því alveg eins og frumútgáfan. hér eru t.d. jarro café (lesið harrocafé), taco beil, starbus café og ýmislegt fleira.
það sem mér þykir þó einna fyndnast er verslun sem er frekar nýleg, stór og vinsæl. hún heitir idea. í idea getur þú keypt nákvæmar eftirlíkingar af hinum ýmsustu vörum sem fást í ikea, nema bara aðeins dýrari. ikea þykir fínt hér á landi en sumir senda meira að segja eftir vörum þaðan frá bandaríkjunum því að í mexíkó er ekki til ikea. bara idea. ætli búðin sé ólögleg? það er alveg spurning...
svona sjóræningjastarfsemi er alveg ólögleg hérna í mexíkó. hún er bara svo algeng og svo orðin svo rótgróin að engum dettur í hug að það sé hægt að uppræta hana. af og til er stormað inní geisladiska og bíómyndaframleiðslur og tonn af diskum gerð upptæk. þrátt fyrir það er enginn skortur af vörum á markaðnum. þetta eru sterk öfl.

einu sinni gekk ég eftir svona ólöglegri markaðsgötu þegar gaur kom hlaupandi sem blístraði á alla að löggan væri að koma. á augnabliki hvarf markaðurinn eins og hendi væri veifað. um leið og hann hvarf kom lögreglubíll á hægagangi eftir götunni. salarnir hölluðu sér blístrandi uppað vegg og horfðu uppí loftið. jafnóðum og löggubíllin fór framhjá birtust básarnir aftur, eins og þeir vissu að löggurnar myndu ekkert vera að hafa fyrir því að líta aftur fyrir sig. um leið og bíllinn hvarf fyrir horn var götulífið komið í sama horf eins og ekkert hefði í skorist.

það versta og kaldhæðnasta er að kínverjarnir eru komnir og þeir eru víst að fara illa með mexíkanska sjóræningjamarkaðinn með því að bjóða skranið enn ódýrara.

mánudagur, september 17, 2007

í gær fórum við í bæinn þar sem við fengum fánalitina málaða á kinnarnar, allskonar fánalitað skran og lentum í sápufroðustríði. það er nokkuð sem mexíkanar eru gjarnir á að gera þegar þeir eru glaðir á almannafæri. að sprauta froðu hver á annan.
svo drukkum við tequila og öskruðum viva mexico.
í morgun skröltum við uppá þak þar sem við sáum flota mexíkanska flughersins hringsóla yfir borginni. reyndar er hún svo stór að flugvélarnar og þyrlurnar sáust í smá stund, hurfu svo í nokkra stund og birtust svo aftur. svolítið svona... vááá.. dúmmdídúmm.............. vááá... dúmmdídúmm.......................... æi þú veist.

djöfull eru þættirnir um stúlkurnar í playboyhúsinu annars klikkaðir!

laugardagur, september 15, 2007


í dag er sjálfstæðisdagur mexíkó. í kveld mun forsetinn góla ,,viva mexico!" af svölum stjórnarráðshússins á miðju zocalo-torginu. fyrst gólar hann viva hidalgo, viva morelos, viva la independencia og eitthvað svona fleira. í hvert sinn sem hann segir viva eitthvað hrópar mannhafið á móti viva! og þegar viva mexíkóið kemur í lokin hrópar lýðurinn þrisvar sinnum viva! svona svolítið eins og húrra húrra húrra.
við erum í borginni í dag. erum að hugsa um að skilja afkvæmin eftir hjá tengdaforeldrunum og skella okkur niðrí bæ að kíkja á herra calderón. hann er mis-vinsæll forseti. fylgjendur prd flokksins viðurkenna hann ekki sem forseta, segja hann hafa sigrað með svindli. og þau gera honum lífið leitt. ætli það verði ekki eitthvað baulað á hann í kvöld.

svo er rakarinn dáinn. hann var búinn að klippa og raka karlana hér í hverfi tengdaforeldranna í yfir hálfa öld. svo dó hann bara allt í einu. og nú vex hár tengdaföðurins og tengdamóðurafans villt og galið og þeir eru eins og villuráfandi loðin lítil börn sem vita ekki hvert þau eiga að snúa sér með allt þetta hár. rakarastofa dána rakarans er eins og tímavél. hérna uppi er mynd af henni og ef vel er að gáð má sjá glitta í rakarann sjálfan í felum í hvítu skyrtunni sinni.

fimmtudagur, september 13, 2007

ég held að ég sé opinberlega orðin eigandi íbúðar á skólavörðustíg. ef sú gata væri í matador spilinu væri hún ábyggilega dýr. það finnst mér svalt.
þá vantar mig bara að redda mér vinnu. anyone?

miðvikudagur, september 12, 2007

rakst á þetta skemmtilega vídeó núna rétt í þessu. takið eftir litlu sætu konunni í rauða gallanum. hún er amma mín.

þriðjudagur, september 11, 2007

rigning.
konur að púsla í næsta húsi.
kötturinn klórar sófann.
drengurinn að spila körfubolta í bleytunni.
stúlkan að horfa á barnatímann.
maðurinn sofandi við hlið hennar.
og ég að gera nákvæmlega ekki neitt.
hvað hét þá hundur karls?

mánudagur, september 10, 2007

allt stefnir í að ég þurfi ekkert að vera mikið lengur hér á landi. best að hoppa barasta aftur yfir í fyrsta heiminn þar sem allt er einfaldara. vantar einhvern spænsku-/félagsfræði-/tjáningarkennara? vill einhver fá mig aftur heim? er einhverjum ekki nákvæmlega sama hvar ég held mig? ha? þykir nokkrum vænt um mig? á ég ekki bara að hverfa af yfirborði jarðar? ha? er það ekki það sem þið viljið? ha? eða hvað?


neeei.... ég segi svona.... djohók maður. ha!

laugardagur, september 08, 2007

núna sit ég hér og get ekki annað. er í hermannafelustuttermabol. í spænsku er ekki hægt að búa til samsett orð. svona eins og sumarbústaðarborðstofuborðdúkur eða mannandskoti eða tölvuleikur eða skítalabbi eða táfýla eða sjálfstæðishetja.
það er líka ýmislegt hægt að segja á spænsku sem er ekki hægt að þýða almennilega yfir á íslensku. sérstaklega í blótdeildinni. blót hérna er mikið tengt móður fólks, kynlífi og kynfærum. stundum er öllu því blandað saman. eitt algengt blót væri til dæmis að biðja viðkomandi um að eiga kynlífsstund með móður sinni. óþekkt móðir sem starfar sem vændiskona er líka mikið ákölluð. en þegar ég er spurð hvernig við segjum það sama á íslensku er ég alveg pass. ég kann bara að ákalla andskotann og heimili hans. get í mesta lagi beðið fólk um að hoppa uppí rassgatið á sér, en það er samt líka einhvernvegin orðið asnalegt eftir að ég hætti að vera 10 ára.
það er nú svo og svo er nú það.
en ástæðan fyrir því að ég er í hermannafelustuttermabol er sú að við erum að fara í svona málningarslettubyssueltingarleik. sem er orð sem ég hefði t.d. aldrei getað sagt á spænsku. ég hefði þurft að segja (og það í öfugri röð), juego de atrapadas de pistolas de plastas de pintura. sem er samt asnalegt. enda er þetta bara kallað gotcha sem er ábyggilega komið af got´ya á ensku eða eitthvað svoleiðis.
og ég er að fá stressniðurgang - diarrea de estrés.

fimmtudagur, september 06, 2007

fórum með börnin á flugdrekasafnið. það er safn tileinkað börnum þar sem á að snerta allt og fikta í öllu. við sáum uppruna jarðarinnar í risastóru hvelfingarbíói þar sem maður lá í sætinu og horfði upp í loftið. við sáum risaeðlur á risaskjá í þrívídd. við flugum yfir mexíkó í bíósætum sem hreyfðust í takt við flugið okkar. við bjuggum til risastórar sápukúlur. við skoðuðum dýr í krukkum. við fiktuðum í allskonar dótaríi og skemmtum okkur konunglega.
svo komum við hingað heim til tengdó þar sem við ætlum að eyða helginni. á laugardaginn ætlum við í paintball með frændfólki og fleirum í tilefni frumburðarafmælisins.
núna erum við að fara að borða rosalega flotta köku.

miðvikudagur, september 05, 2007

næsta afmæli á morgun. frumburðurinn tólf ára. sjís maður. eins gott að ég á nóg af flórsykri og kakói og svona fyrir allar þessar kökur.

núna er föðurlandsmánuðurinn hérna í mexíkó. þann 15. er þjóðhátíðardagurinn og allan september er verið að halda uppá hann. Hús eru skreytt með fánum, götusalar selja skran í fánalitunum, skólar halda hátíðir þar sem börn eru klædd í indíánaföt og í kringum þann 15. eru haldin partý.
Hér með legg ég til að júní verði allur lagður undir þann 17. heima á fróni. júní verði gleðimánuður ársins þar sem allir ramba um stútfullir af þjóðarstolti.
aðra mánuði mættu sumir læra meiri þjóðarhógværð. hógværð er góð sé henni ekki snúið uppí undirlægjuhátt. rembingur er eitt af því leiðinlegra sem ég veit.

en nú er ég að fara í bað að skola af mér body-combat svitann.
já berglind. ég fór í body-combat. aunque usted no lo crea.

mánudagur, september 03, 2007

fyrir sléttum 5 árum bjó ég á freyjugötu. þann 3.sept. 2002 sat ég í vínrauðum plusssófa að horfa á gamanmyndir og borða uppáhalds pizzuna mína úr eldsmiðjunni. á nokkra mínútna fresti setti ég á pásu á meðan andlitið á mér herptist saman vegna verkja.
þegar bíómyndirnar og pizzan voru búin kom pabbi og skutlaði mér og makanum yfir götuna á lansann þar sem ég fór í bað.
klukkan tuttugu mínútur fyrir miðnætti kom hún svo í heiminn. hún lotta. og í dag er hún búin með hálfan áratug af lífi.
þegar hún vaknaði í morgun leit hún niður eftir fótleggjunum á sér, horfði svo á handabökin á sér, snéri sér að mér og sagði: ,, sjáðu, ég er orðin stærri!". ég er svei mér ekki frá því að hún hafi rétt fyrir sér.

sunnudagur, september 02, 2007

afmælið var skemmtilegt. fullt af börnum að hoppa á uppblásinni rennibraut. fullt af fólki að borða, tala og hlæja. prinsessur og hafmeyjur voru lamdar í spað með priki og útúr þeim hrundu hrúgur af sykri dulbúnum í fallegum pappír og plastdóti. kökurnar mínar slógu í gegn og sumir fóru meira að segja með kökusneiðar heim í nesti.
í dag er þreyttur sunnudagur. þeir eru stundum svolítið þreyttir greyin. ég ætla samt að reyna að finna hjá mér orku til að setja á myndasíðuna mína myndir úr afmælinu og kannski einhverju fleiru.

er ég á leið heim? kannski bara.

laugardagur, september 01, 2007

ein ég sit og baka
inní stóru húsi
enginn kemur að sjá mig
nema hellingur af nágrönnum
hoppaðu upp og lokaðu augunum
bentu í austur
bentu í vestur
bentu á þann sem að þér þykir bestur.

marensinn er flottur, gulrótarkakan brilli og súkkulaðikakan var pís of keik, svo ég leyfi mér aðeins að sletta. þeir sletta kreminu sem eiga það.

í morgun fór ég með tengdamóðurina í zumba tíma. það er svona dans-leikfimistími. við slettum úr klaufunum með hinum klaufunum. þeir sletta klaufunum sem eiga þá. leiðbeinandinn var lítill og brúnn hommi. þessi hommatýpa sem beygir úlnliðinn fram og nýtur sín við að dilla mjöðmunum. mjög skemmtilegur og glaður ungur maður. hann lét okkur dansa merengue, salsa, reggaeton og allskonar fleira skemmtilegt dótarí. og við dilluðum okkur og sveigðum mjaðmir og hendur í allar áttir svo að svitinn lak af okkur og niður á gólf. þeir sletta svitanum sem eiga hann.
tengdamóðirin var svolítið fyndin þar sem henni tókst einhvernvegin alltaf að fara í öfuga átt við alla hina. og svo hló hún, enda glöð mjög.
það var gaman.
fékk mig samt til að hugsa... af hverju hef ég aldrei gert svona með minni eigin móður? en koma tímar og koma ráð. koma líka leikfimi- og danstímar.