fimmtudagur, maí 31, 2007

í gær átti ég að vera komin með heimasíma. gaurarnir sem tengdu hann tengdu eitthvað í kross þannig að þeir sem ætluðu að hringja heim til tómasar og annettu konunar hans hringdu heim til mín og öfugt. í dag eiga að þeir að koma aftur til að laga mistökin. ef þeir hefðu ekki tengt mig í kross við mann sem vinnur hjá símanum hefði ég þurft að bíða í mánuð eftir því að þeir kæmu. áðan fór ég yfir til að spyrja annettu hver staðan væri og hún byrjaði að tala. og tala. og tala. og ég var að kúka í buxurnar en hélt ró minni með bros á vör. ég hafði aldrei heyrt konuna tala, enda hef ég alltaf hitt hana þegar hún situr þögul undir söng eiginmannsins. en mikið andskoti getur konan talað. úff.
nú svo fór ég heim að kúka.... hehe.... eftir það fóru börnin mín í heimsókn í nýja skólann sinn sem heitir ,,la granjita" sem lauslega þýtt er litli bóndabærinn. þetta er pínulítill skóli, átta krakkar í hóp, og sá eini sem ég fann þar sem þau þurfa ekki að vera í skólabúningi og strákarnir þurfa ekki að vera með knallstutt hár. þar munu þau læra ensku, þýsku, dans, myndmennt, á tölvur og fleira. í hverri viku fara þau svo á hestbak þar sem þau læra að umgangast hestana sem skólinn á. þar eru líka hundar, kettir, kanínur, páfagaukar, skjaldbökur og óeitruð slanga. það sem mér leist best á við skólann atarna er að hugmyndafræðin er svipuð og heima á fróni. mikið er lagt uppúr því að krakkarnir leiki sér, fikti og séu skapandi, lítið er lagt uppúr heimavinnu og heraga. það er lesið fyrir þau, þau syngja og fá að dunda sér á bókasafninu innanum skjaldbökuna og slönguna. afkvæmin mín voru hin kátustu og munu byrja formlega í skólanum í ágúst.

áðan eldaði ég tacos. það að ég hafi eldað er nýlunda í sjálfu sér, en það tókst bara vel þó ég segi sjálf frá. á morgun kemur til okkar indíánakona sem ætlar að elda mat fyrir alla vikuna. fyrir það borga ég henni um 1500 kall. á þriðjudögum mun önnur indíánakona koma að þrífa alla tæpu þrjúhundruð fermetrana okkar. fyrir það mun ég borga henni annan 1500 kall.
fyrst ætlaði ég að vera voða hörð á því að fá engan. mér þykir hálf skrýtið að láta þrífa ofaní mig. en svo fór ég að reyna að halda öllu í horfinu og svei mér þá ef það er ekki óðrar konu æði. sérstaklega þar sem ég þarf líka að vera að læra, hafa ofanaf fyrir börnunum mínum og hinum sem eru hlaupandi hér út og inn og hlusta á nágrannakonurnar slúðra. nóg að gera.

hér í metepec er frekar kalt. við erum í um 3000 metra hæð yfir sjávarmáli og mér skilst að þetta sé eitt af kaldari svæðum landsins. á daginn verður ágætlega heitt, ekkert óþægilegt, en á kvöldin kólnar. ég man ekki af hverju ég var að segja frá því... arg.... jæja, ég segi þá bara það sem ég ætlaði að segja seinna þegar ég man það.

miðvikudagur, maí 30, 2007

fráskilda unga konan á vin. vinurinn gisti hjá henni í nótt. nágrönnunum þykir hún fara of geyst í sakirnar, enda ekki nema um vika síðan hún henti hinum út.
hún laumaði honum heim til sín í skjóli nætur. nágrannarnir komu heim úr bíó eftir miðnætti og sáu bílinn hans. það er ekkert hægt að fela í svona litlu samfélagi.

nú er ég að fara að skoða skóla fyrir börnin mín. og kaupa númer í gemsann minn.
en fyrst þarf ég að fara í sturtu. mexíkanar fara alltaf allir í sturtu á morgnanna. meira að segja ruslakarlarnir lykta vel í upphafi dags. í neðanjarðarlestinni þegar allir eru á leiðinni í vinnuna eru allir glansandi hreinir og greiddir. og þá er best fyrir mig ruddalegu víkingakonuna að reyna nú að minnsta kosti að vera líka svona hrein. ekki það að ég sé eitthvað skítug að eðlisfari... en hérna er ég extra hrein.

og með það að leiðarljósi er ruddalega stórvaxna víkingakonan farin í sturtu.

mánudagur, maí 28, 2007

á laugardaginn komu karlar til að setja upp hjá okkur símakerfið og internettengingu. á meðan hliðlöggan hljóp til að sækja mig fóru þeir og komu ekki aftur. ég er hvorki komin með síma né internet. nú sit ég í húsi númer níu og skoða netið en á mig horfir rangeygur köttur.
makinn er nýkominn heim eftir að hafa verið alla helgina að ljósmynda einhvern hóp sem heitir high school musical, eitthvað disney eitthvað, en hann tók myndir af þeim frá því að þau komu þangað til tónleikum þeirra lauk í gærkveld. svo fór hann og drakk bjór með shakiru sem hélt víst líka tónleika í gær. á meðan var ég heima að læra um fagmennsku kennara. arg.
einn af nágrönnunum sem ég gleymdi að telja upp vinnur hjá símanum - telmex (obvious nafn). makinn hringdi í hann og símafíflin verða send innan skamms aftur.
nema hvað... nágranni þessi heitir tómas. hann og kona hans sem ég man ekki hvað heitir eru barnlaus en sennilega bæði um 38 ára. tómas er gaur sem öllum finnst fyndinn og skemmtilegur nema mér. hann er eins og froskur í framan með óhemju stóran munn. einhverntíman á lífsleiðinni lærði hann söng og nú er varla hægt að koma saman án þess að ofvaxni froskurinn syngi út í eitt. og hann er ekkert að raula mannandskotinn. hann syngur eins hátt og hann getur, sveiflar og geiflar stóra munninum á sér og passar sig að allir heyri hvað hann syngur vel og hvað hann er klár að kunna öll möguleg lög. aðþrengda eiginkonan hans situr stillt með hendur í kjöltu og svip sem segir mér að hún telji sig varla þess verða að eiga svona flottan og kláran frosk...nei, ég meina mann.

spænski eiginmaður konunnar sem uppgötvaði framhjáhaldið á rauðan hummer. í gær stóð rauði hummerinn í bílastæðinu og ég fylgdist með nágrannakonunum þykjast eiga erindi hver heim til hinnar til þess að geta kíkt laumulega inn um gluggana hjá þeim, enda ekkert vit í öðru en að komast að því hvort hún taki við honum aftur eða ekki. svo hittust þær í einu eldhúsinu og blótuðu honum í sand og ösku og vonuðu heitt að hún myndi ekki gefast upp. þær segja henni samt ekkert um það, brosa bara og heilsa glaðar.

nema hvað... rangeygi kötturinn er búinn að gefast upp á mér, það er farið að rigna og dóttirin orðin svöng. best að gera eitthvað í því.

ps. lóa, við skulum endilega setja upp eitthvað voða dularfullt í kringum komu þína um jólin... og þið hin sem ætlið að heimsækja mig, búið ykkur til spennandi karaktera sem þið getið leikið hérna svo að gellurnar í hverfinu hafi nóg að gera við að njósna um alla undarlegu íslendingana...hehehe

laugardagur, maí 26, 2007

ég hef aldrei horft á þættina um aðþrengdar eiginkonur. einhverra hluta vegna held ég að ég sé flutt þangað.
hér eru þrettán hús í þremur raðhúsalengjum sem eru lokaðar af með stóru hliði. í hverju húsi býr fólk á aldrinum 30-40 með eitt eða tvö börn, einn til tvo bíla og eitt til tvö gæludýr.
í númer eitt býr hollenskur maður ásamt mexíkanskri konu sinni og tveimur unglingum sem eru meiri mexíkanar en hollendingar. hann heitir erik en ég man aldrei hvað konan hans heitir og hef ósköp lítið séð af henni og unglingunum.
í númer tvö býr mágur minn ásamt konu og tveimur unglingum. sá eldri er fótboltastrákur, 18 ára og sá yngri er ansi frekur og leiðinlegur 13 ára. svilkona mín í númer tvö er drottning kjaftasagnanna og veit allt um alla. hún er víst hætt að tala við nokkrar af nágrannakonunum sökum rifrilda og rugls...en það þýðir ekki að hún sé hætt að fylgjast með þeim og þeirra lífi.
í númer þrjú býr 28 ára stelpa með tveimur ungum sonum. hún er víst að skilja við spænska manninn sinn eftir að hafa uppgötvað framhjáhald og umræður um það virðist vera heitasta efnið hjá svilkonunni og þeim sem eru enn vinkonur hennar.
ég veit ekkert um fólkið í fjögur og fimm.
í númer sex búa fabiola og pepe ásamt spastískum syni og fjögurra ára dóttur. fabiola og svilkonan tala ekki saman eins og er en þær voru vinkonur.
í númer sjö búa veronica og luis ásamt lítilli dóttur. veronica og svilkonan eru miklar slúðurvinkonur og áfengisdrykkjufélagar. hinar tala í laumi um að eiginmaðurinn sé of eftirlátssamur við hana þar sem hann svæfir stundum dótturina og lætur hana alveg í friði þegar hún vill fá sér í glas og vaka frameftir.
ég bý í númer átta.
í númer níu búa loreto og fefu (loreto er konan), ásamt tveimur sonum, 12 og 14 ára. sá 14 ára er pínulítill og er að bíða eftir að fá ný nýru en þau sem hann fékk fyrir 12 árum er víst að gefa sig. þeir bræður eru góðir vinir frumburðar míns enda skemmtilegir strákar. loreto og svilkonan eru óaðskiljanlegar og svakalegar í slúðrinu. ég sat með þeim í gærkveldi og hlustaði á konu sem heitir frakkland (francia) lesa stjörnukortin þeirra sem þær úuðu og andvörpuðu yfir. í dag eru þær að reyna að átta sig á því hvernig þær geta lifað eftir spádómunum.
í númer tíu býr trúaða parið með litlu stelpuna. þau eru kölluð flanders fjölskyldan af slúðurkerlingunum.
um restina veit ég ekkert ennþá.
hér eru börnin úti að leika allan liðlangan daginn, hlaupandi úr húsi í hús, karlarnir vinna og konurnar rölta á milli heimila til að skiptast á skoðunum um hvaða ísskáp sé best að kaupa, hvaða fötum sé best að fara í í jógatíma og síðast en ekki síst til að skiptast á upplýsingum um nýjasta slúðrið.

ég er eiginlega of kaldhæðin fyrir svona samskipti... en ég læt mér nægja að glotta innra með mér.

föstudagur, maí 25, 2007

hananú. flugvélin frá njúv jork flutti mig suður yfir landamærin á methraða. flugið kom klukkutíma of snemma í hús sökum einhverra vinda og strauma og vindstrauma svo að ég stóð ein með kerru undir töskufjalli og barn eins og kirsuber ofaná efstu töskunni og beið eftir að vera sótt. svo komu nokkrir mexíkanar hlaupandi að sækja mig, kyssa mig og knúsa mig og þá var ég keyrð í nýja heimið mitt. svo var haldið partý. reyndar var það tvöföld afmælisveisla en ekki velkominpartý.
þar var etið og drukkið og á milli klukkan ellefu og tólf að staðartíma (þegar ég var orðin ansi slompuð úr þreytu og ferðarugli), stóðu 7 stuttir menn með yfirvaraskegg og stóra hatta og spiluðu mariachitónlist fyrir afmælisbörnin. það var þá sem það sló mig.....
ég er komin til mexíkó.

núna er fyrsti heili dagurinn að renna upp (hér erum við sko 5 klukkutímum á eftir íslandi klukkulega séð) og ég er að hugsa um að byrja á því að fara í sturtu, reyna að finna eitthvað af nothæfum fötum í ferðatöskunum, fá mér morgunmat (ef það er eitthvað til í ísskápnum) og horfa í kringum mig.

svo tölum við saman...

fimmtudagur, maí 24, 2007

jæja. nú ligg ég í stóru rúmi á ramada plaza hotel á jfk flugvelli. ekkert merkilegt hótel svosem, alveg eftir flugvallahótelauppskriftinni bara. ég er að horfa með öðru auga á beina útsendingu frá einhverjum voða idol-tónleikum, sýnist þetta vera lokaþátturinn... hef svosem ekkert fylgst með þessum skratta, en það er ekkert annað í sjónvarpinu hérna, ótrúlegt en satt.
nema hvað... í morgun fór ég að eta súpu ásamt beggu vinkonu og svo fórum við fjölskyldan útá flugvöll. ég fæ alltaf kúkasting úr stressi þegar ég kem að keflavíkurflugvelli. meira að segja þó að ég sé að sækja einhvern. meira samt þegar ég er að fara.
svo fórum við mæðgur, ég enn eina ferðina með tárin í augunum. hrikaleg lenska.
flugferðin gekk vel. síðburðurinn hagaði sér stórkostlega vel, ég horfði á rómantíska gamanmynd með drew barrymore og hugh grant... bara af þeim upplýsingum getur ágætlega þenkjandi fólk gert sér grein fyrir kalíberinu af kvikmynd.
ég fékk kjúkling í einhverju raspi með osta og skinkufyllingu, salat og lítin kökukubb. einhvernvegin finnst mér eins og ég hafi borðað þetta áður í flugvél. nema bara að núna var umgjörðin hálf fátækleg eitthvað. mætti halda að flug-okur group væri að spara.
nú jæja... við lentum í njúv jork og lentum í ótrúlega stuttri bið eftir vegabréfaskoðun, svo hirtum við öll okkar hundrað kíló af farangri og fórum út að leita að gulum leigubíl. þegar röðin kom að okkur í leigubílaröðinni reyndist okkar maður vera að því er mér virtist arabísk-ættaður maður á sjötugsaldri. hann vippaði farangurshaugnum í skottið og við settum okkur afturí þar sem ég lét hann hafa heimilisfangið hér á ramadan. svo keyrði hann af stað. og hann keyrði. og hann keyrði. og hann keyrði í hring eftir hring eftir hring. á endanum var það ég sem sagði honum hvar hann ætti að beygja með því að lesa vegaskiltin. svo skildi maðurinn okkur eftir við innkeyrsluna að hótelinu (ekki í anddyrinu heldur slatta frá því), muldrandi æ, æ, æ... og vildi svo fá tuttugu og fimm dollara fyrir skutlið sem undir eðlilegum kringumstæðum myndi kosta tíu. ég borgaði honum fimmtán og hann fór í burtu í fýlu. töskugaurinn sem kom út að hjálpa okkur með draslið blótaði bílstjóranum í sand og ösku þegar hann sá hvar farangurinn var og heyrði hvað hann hefði keyrt með okkur í langan tíma og hvað hann vildi rukka fyrir.
á morgun fer ég í hótelskutlunni. það var ekki rétt hjá makanum að það væri þægilegra fyrir mig með allan þennan farangur að fara í leigubíl frekar en skutlunni. þeir rata allaveganna.
nú, við mæðgur keyptum okkur smá snarl og hoppuðum svo aðeins í rúminu áður en sú litla datt útaf og nú er ég semsagt hér....að skrifa.

jordan sparks vann american idol í ár. þetta tilkynnti ryan seacrest einmitt á þessu augnabliki og paula abdul er að gráta.
ef þú varst að fylgjast spennt/ur með þáttunum og vildir ekki vita það þá.... heh... sagði ég ekki neitt.

þriðjudagur, maí 22, 2007

kona á barmi taugaáfalls.
í gær fékk ég leirskál með haus frá samstarfsmanni og konu hans, leirlistakonunni. áðan fékk ég svona leyndóbox og hálsfesti með hvítum steini frá mjög svo krúttlegum nem-öndum.
er von að maður þurfi að hlaupa á klóstið að grenja?
ég veit ekki hvað þetta er, en á einhverjum tímapunkti í lífi mínu skrúfaðist frá einhverri stöð í heilanum á mér sem veldur því að ég á á stundum mjög, ef ekki of, auðvelt með að tárast og hreinlega bresta í grát. stundum brest ég í söng og stundum brest ég í dans en stundum brest ég bara í grát. eins og þegar ég þarf að segja bless við fallegt fólk. ég væri ekki góður kynnir á fegurðarsamkeppnum....
djók... ég á við svona hinsegin fallegt fólk... svona sem mér þykir vænt um.
hananú, nú er ég byrjuð að tárast... assgotinn....

ég tárast stundum yfir auglýsingum, græt oft yfir bíómyndum, grenja stundum úr hlátri en allra verst er ég þegar komið er að kveðjustundum.

úff....

mánudagur, maí 21, 2007

móðir mín hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði að ég væri að ofkeyra mig. ég raða of mörgum hlutum á of lítinn tíma. mér finnst mjög gaman að vera upptekin. ég vil helst vera að gera eitthvað allan daginn. en ég á börn. núna á ég til dæmis lasið barn sem þarf bara að ég setjist niður og sé. ég hef oft bara verið. ég er samt betri í því að gera. stundum tóma vitleysu reyndar.
í dag ætlaði ég að gera voða margt og mikið. síðburðurinn sá til þess að ég er heima. þegar ég fór að hringja út upplýsingar um fjarveru mína og leiðbeiningar gerði ég mér grein fyrir því að það að ég færi ekki af stað í dag er bara alls ekkert svo slæmt. fólk bjargar sér alveg fullkomlega án mín og ég hef fullkomlega gott af því að vera heima með litlu lösnu skessuna mína. mamma var meira að segja svo væn að splæsa á mig manneskju til að þrífa íbúðirnar sem ég ætla að skila á morgun.
í gær tæmdi ég þær um leið og ég pakkaði ofaní töskur og gerði rannsóknaráætlun í gegnum fund á netinu. smáhlutir eins og að borða gleymdust í hamaganginum, en þá kom hún móðir mín enn eina ferðina mér til bjargar með samloku í poka.
en núna er ég semsagt heima hjá foreldrum mínum, farangurinn bíður í töskum og íbúðirnar standa tómar. það sem ég á eftir að gera eru salthnetur. (eru peanuts ekki annars salthnetur?)

nema hvað, á laugardagskveld fór ég út að borða með mastersvinkonu minni til að halda uppá að hún er búin að losa sig við risastóra tímamótaritgerð af bakinu. einu stóru fargi létt þar af bæ. við áttum mjög kósí kvöldstund yfir mat og drykk og fórum svo að kíkja á skemmtistaði borgarinnar þar sem okkur leist í grófum dráttum ekki á neitt. við höfum samt gaman af því að vera litlu fýlupúkarnir í horninu og það er gamanið sem gildir.

á föstudagskveld (svo ég fikri mig nú aftur á bak í tíma), fór ég í hið alræmda kveðjupartý/sumarhátíð með samstarfsfólkinu mínu. þar var skræpótt fólk innanum skræpóttar skreytingar til dæmis að húlla. það var mikið sungið og hlegið og talað og hlegið og brosað og hlegið. sumir borðuðu orma úr flöskum og sumir voru ekki eins góðir og sumir með húllahringinn. sumir elduðu ógeðslega góðan mexíkanskan mat sem sumir borðuðu með bestu lyst á meðan sumir drukku áfenga drykki. sumir spiluðu á gítar með hárkollu og sumir spiluðu á píanó en sumir aðrir spiluðu bara á myndavélar.
þegar sumir voru farnir heim að sofa langaði suma að skella sér í pottinn og sumir fylltu hann af vatni á meðan sumir þurftu að sannfæra suma um að koma með útí. sumir töluðu um að fara á spottanum í pottinn en stungu svo af en að lokum enduðu sumir í hálfgerðri súpu ofaní pottinum þangað til sumir fóru uppúr og létu suma aðra vita að klukkan væri orðin fáránlega margt.
svo fóru sumir í leigubíl heim til sumra til að halda aðeins áfram en þegar þangað var komið héldu sumir áfram að spjalla en sumir sofnuðu. svo man ég ekki meir því ég var þessi sem sofnaði. kom heim þegar laugardagur var löngu kominn.

en djöfull eru sumir skemmtilegt fólk!

föstudagur, maí 18, 2007

eins og það er leiðinlegt að hætta að vinna hérna, þá er það líka rosa gaman. ég fékk fullt af blómum og konfekti og stuttermabol og rosalega bleikar nærbuxur sem stendur iceland á rassinum á og hópknús og kveðjupartý. ég ætti kannski að koma alltaf aftur til þess að geta hætt aftur því það eru allir svo góðir við mig. reyndar er einn aðili sem kallar mig föðurlandssvikara, en ég kýs að líta svo á að það sé bara merki um væntumþykju :)

í dag var dimmisjón, og er enn. ef þið hafið séð hvítar kanínur og fígúrur úr winnie pooh teiknimyndunum þá eru það börnin mín.

nú sit ég á skrifstofu skólans og er símadama eða eitthvað svoleiðis... væri rosalega asnalegt ef ég legðist fram á borðið og fengi mér smá blund?

fimmtudagur, maí 17, 2007

bílskúrinn hennar ömmu er fullur. ferðatöskurnar eru fullar. bensíntankurinn á bílnum er fullur. í dag fór ég með fullri rútu af krökkum í heiðmörk að labba á fullu. á leiðinni heim var rútan full af blautu fólki. þvottavélin mín þvær á fullu fullt af fötum. núna er ég full af súkkulaði. á morgun verð ég full.
fullt að gerast.

samfylkingin og sjálfstæðisflokkurinn....mmm...jújú...kaupi það sosum...gæti virkað.

það sem ég þarf að muna:
kaupa bækur í bóksölu stúdenta
loka símanum
slökkva á orkuveitunni
losa mig við afganginn af húsgögnunum
þrífa íbúðina
fara í mexíkanapartý með fallega samstarfsfólkinu mínu
fara á flandur með fallegu vinkonunni minni
fara í hárgreiðslu
fara til ömmu að borða
brosa og borða súkkulaði

ps. fékk ógeðslega flottan síma frá mömmu minni í gær. verst að það hringir enginn í hann...

miðvikudagur, maí 16, 2007

ég er að fara í klippingu á mánudaginn, ligga ligga lái. ég fer sko að staðaldri ekki oftar en á 3 ára fresti og stundum sjaldnar, á hárgreiðslustofur og læt flikka uppá mig. þess á milli er ég bara í lubbastuði. núna er ég einhverra hluta vegna að verða gráhærð og pjattdjöfullinn sem situr á öxlinni á mér hvíslar að mér að ég verði nú að sparsla uppí gránuna. femínistaengillinn sem situr á hinni öxlinni á mér fussar og sveiar yfir pjattinu, röflar eitthvað um að það sé kúl að vera með gráar strípur því þær séu minnismerki um lífshlaup mitt og reynslu og að það sé vitleysa að eltast við þvingandi fegurðarstaðla.

eníhús... ég er að hugsa um að fá mér topp.

mánudagur, maí 14, 2007


ég horfði á sjálfa mig í bíómynd í gærkveld. hafði ekki séð myndina síðan á frumsýningu í háskólabíói árið...tja... 1994 ef ég man rétt.
mikið assgoti er ég óarga-afdala-illa léleg leikkona. mér leið samt betur eftir að hafa horft á myndina í heild sinni vegna þess að í minningunni var ég eina manneskjan í myndinni sem kunni ekki að leika og leit asnalega út. hinir voru allir hipp, kúl og góðir leikarar. í gær sá ég að þau voru alveg jafn afkáraleg og ég. þrettán ára komplex hefur verið aflétt.

ég er hreinlega ekki frá því að ég líti betur út í dag, enda glæsipía....muahaha
í geðveilu minni er ég viss um og svekkt yfir að við af mér taki fólk sem er klárara, betra og skemmtilegra en ég sem mun sýna framá að ég var ekkert eins ágæt og ég hélt og tókst að telja öðrum trú um. þá á ég við í starfi.

spurning um að redda mér tíma hjá sálfræðingi....

sunnudagur, maí 13, 2007

ríkisstjórn sníkisstjórn. sumir eru of hrokafullir og sumir fatta ekki muninn á valdahroka og öryggiskennd. kannski er ég óskýr í hugsun núna en það er ruglandi að reyna að skilja hvað sumir eru að segja þarna í stjórnmálaforingjaþættinum sem er fyrir framan mig núna.
er ekki málið að vera hógvær pólitíkus? ég er hrifin af fólki sem gleymir ekki hvaðan það kemur.
ekkert fútt í júróvisjón, stjórnin heldur velli (skv. þeim tölum sem eru í gangi núna klukkan rúmlega eitt).... óskaplega óspennandi alltsaman.

annars fór ég út á lífið í gær. mamma var svo væn að passa síðburðinn til þess að ég gæti límt mig á systur mína og vini hennar sem eru einstaklega skemmtilegt fólk.
við byrjuðum á því að fara á tónleika á nasa þar sem við drukkum bjór og eitthvað svona. á einum tímapunkti vatt sér upp að mér ung kona og spurði mig hvort ég væri að fara að flytja til mexíkó. ha, jú, sagði ég eða eitthvað svoleiðis og þá kynnti hún sig sem þórdísi. ég fattaði ekki alveg hvernig hún vissi hver ég var, enda þóttist ég aldrei hafa séð hana áður. en á einhvern hátt, sem ég er ekki alveg viss um hver var ennþá, kveikti hún á perunni held ég þegar systir mín sagði óvart hæ við hana fyrir utan nasa en hló svo þegar hún fattaði að þetta var ókunnug kona og afsakaði sig með því að vera ansi nærsýn. sem hún er.
nema hvað, þórdís er semsagt meðlimur hérna í tenglalistanum mínum, meðal annars, og ég verð að segja að það var mjög gaman að hitta manneskjuna á bakvið síðuna. magnað hvernig hægt er að ,,þekkja" fólk í gegnum svona síður án þess þó beint að þekkja það. er hægt að þekkja fólk án þess að hitta það? er hægt að eiga vini sem þú hefur aldrei talað við? mér fannst að minnsta kosti eins og ég þekkti hana þórdísi á einhvern skrýtinn hátt þó svo að andlit hennar væri mér algerlega nýtt.
í gamla daga átti ég helling af pennavinum sem ég hafði aldrei hitt. strákur frá costa rica sendi mér lyklakippu með nafninu mínu, peter frá bandaríkjunum skrifaði mér oft í viku (reyndar hitti ég hann), strákur frá japan sendi mér spólu með tónlist og strákur frá ísrael sendi mér kasettu sem hann talaði sjálfur inná þar sem hann sat í einhverju svona öruggu herbergi ásamt fjölskyldunni sinni á meðan sprengjur féllu fyrir utan húsið.
fyrsta pennavinkona mín var sænsk, litla systir au-pair stelpu frænku minnar sem passaði okkur systur líka stundum. sú sænska skrifaði mér á sænsku (enda vorum við bara 9 ára og óskrifandi á ensku), mamma þýddi bréfin og ég svaraði á íslensku og systir hennar þýddi þeimmegin.
á einhverjum tímapunkti duttu bréfaskriftir uppfyrir, sennilega á einhverju kúlista-unglingatímabili, en ég átti heilan kistil fullan af bréfum þegar best lét.

bloggsíður bloggfélaga minna eru einhverskonar staðgengill gömlu pennavinanna. pennar eru dottnir útúr menginu en skrifin eru til staðar þó svo að þau séu kannski orðin opinber og ætluð öllum.

ókey, á meðan formaður framsóknarflokksins talar ætla ég að slengja fram kenningu. það er undir ykkur komið að sanna hana eða afsanna hér og nú.
kenningin hljómar svona:
Allt fólk sem bloggar átti pennavini sem börn og/eða unglingar.

föstudagur, maí 11, 2007

jújú. ég horfði á júróvisjón. veit eiginlega ekki hvort ég eigi að byrja... ég verð staðfastari á hverju ári í þeirri skoðun minni að þetta sé orðin peningasóun. svo ætla ég bara að þegja.

sem minnir mig á það.... hefur þú reynt að klippa á þér táneglurnar eftir að hafa borið á þig krem á tærnar og hendurnar?
ég gerði það nefnilega í gær. vaxklessurnar eru sko farnar af fótleggjunum svo mér datt í hug að klára fótsnyrtinguna mína þegar ég var nýkomin úr sturtu. fyrst makaði ég á mig andlitskremi, svo líkamskremi og að lokum iljakremi sem gerir allt þetta harða undir fótunum mjúkt. og svo tók ég upp naglaklippurnar.
það er hægara sagt en gert að beita þeim þegar allt er sleipt. og nú er ég með skakkar táneglur.
þetta með fótsnyrtilegheitin er ekki alveg að gera sig hjá mér...

fimmtudagur, maí 10, 2007

fór áðan og hitti stelpurnar sem ég var einu sinni að vinna með. gegt gaman og omg hvað kökurnar voru góðar. við vorum alveg bara lol eikkað gegt fyndið. veiga var alveg bara jess!!!!! og ég alveg bara sjúúúúklegt!!!! :D en þá var anna sigga eikkað að djóka mriháttar og hinar stelpurnar þvílíkt rofl lol :D :b elín var alveg að fatta djókið og sagði önnu bra hey, feis... hulda nottla héddna gaur!!! lol :Þ
jeg var nottla þokkalega sprungin á marskökunni sem var alveg bra pjúk góð eins og é viti ekki hvað hún er gegt góður kokkur!!!!! bra alveg bra gegt kvöld!!!!! :D á morgun verð ég alveg sjiiiitttt hva ég er búna drekka mikið kók!!!! fookk!!! ekki alveg að fatta hvrnig ég á að sobbna!!!omg!!!

miðvikudagur, maí 09, 2007

ég er farin að fatta útá hvað mínimalistastíllinn gengur. öll þessi heimili sem hafa verið til sýnis í lífsstílsþáttum og tímaritum þar sem ekkert virðist vera á heimilinu nema örfá húsgögn og innréttingar. auðvitað er þetta til að hjálpa fólki við flutninga. þessi heimili tilheyra fólki sem hefur flutt oft og er komið með ógeð á því að eiga dót. þess vegna þykir þeim best að búa með næstum því ekkert.
ég held að ég eigi eftir að enda á forsíðu lífsstílstímarits einhvern daginn. fyrirsögnin verður ,,kíkt inn hjá maju, mínimalisminn tekinn með trukki".

magnað annars hvað er hægt að eiga mikið skran, samt þóttist ég vera gaur sem er alltaf að losa sig við frekar en að safna. en það safnast nú bara samt.

sem minnir mig á það. ég er að sjóða egg og var næstum því búin að gleyma því. verð að hlaupa....

mánudagur, maí 07, 2007

til sölu:
þriggja sæta ikea sófi, dökkblár. 20 þús.
nýlegur grár stór ísskápur með 3 frystiskúffum. 20 þús.
risastórt amerískt hjónarúm, ógeðslega þægilegt. 30 þús.
ikea bast-ruggustóll 1000 kall.
golf station 98 árgerð með 2 nýjum heilsársdekkjum og nagladekkjum, duglegur bíll, brotið eitt stefnuljós og biluð rúða farþegamegin frammí (bæði sökum klaufaskapar í mér) 100 þús.

anyone?
síminn minn er 8497826

annars er bara allt á fullu að pakka og klára og redda og laga og geyma.
jájá....

miðvikudagur, maí 02, 2007

ég á svilkonu sem er lítil. hún er töluvert pjattaðri en ég. hún kaupir sér allskonar fegurðargræjur vegna þess að hún er mjög upptekin af því að vera fögur. hún var á íslandi um jólin síðustu og á meðan hún var hér fórum við meðal annars í hagkaup í skeifunni. sem er svosem ekki í frásögur færandi.
í hagkaupum keypti hún sér pakka sem innihélt vaxtúpuhitara, vaxtúpur, rúlluhausa á vaxtúpurnar og einhverskonar pappírsstrimla í poka. þetta hafði hún hugsað sér að nota til að kippa af sér yfirvaraskegginu og öðrum óæskilegum hárum. ferð hennar var of stutt fyrir hana til að ná að koma græjunni í gagnið og sökum óhentugrar rafmagnssnúru (ameríska vs. evrópska kerfið), skildi hún pakkann ásamt innihaldinu eftir á baðherberginu mínu.
þennan pakka hef ég horft margsinnis á og innra með mér hafa bærst blendnar tilfinningar. ég hef einhvernvegin aldrei treyst þessu fyrirbæri sem felur í sér að maka á sig heitu vaxi, klína pappír ofaní það og rykkja svo af. en bikiníklædda konan utaná pakkanum virkaði voða hamingjusöm og broddalaus... svo að ég lét hana plata mig.
í gærkveld þóttist ég vera orðin nógu loðin til að þetta myndi blíva svo ég stakk græjunni í samband og undirbjó umhverfið fyrir kósí pæjustund sem ég ætlaði að nota til þess að fegra mig og vera svolítil dama, svona ,,elskaðu sjálfa þig" móment eins og stendur í öllum kvennablöðum að maður verði að fá sér. kertaljós, ilmolíur og læti. gott ef ég fékk mér ekki súkkulaði líka.
nema hvað, í leiðbeiningunum stóð að ef loftbólur hefðu myndast væri vaxið orðið nógu heitt og jújú, loftbólur og læti. svo ég settist á nærbuxunum á púða miðaði stautnum með rúllunni 45° (eins og stóð í leiðbeiningunum) og rúllaði í átt að hárvexti frá hné niður að ökkla. svo klíndi ég meðfylgjandi blaðsnepli ofaní vaxið, andaði djúpt og kippti.
það var ekki eins vont og ég hafði átt von á. blaðið fylltist af hárum og ég hljóp fram voða stolt að sýna makanum.
svo settist ég aftur niður, enda ekkert vit í því að stoppa með eitt berrassað strik á fótleggnum innanum allt loðið. svo ég byrjaði uppá nýtt, 45° allt eftir uppskriftinni. og líma og kippa.
gekk vel framanaf.
svo fór eitthvað að gerast. vaxstauturinn varð alltaf klístraðri og klístraðri í hvert sinn sem ég tók hann aftur uppúr hitaranum. blaðsneplarnir urðu alltaf klístraðri og klístraðri og eins hendurnar á mér. færri og færri hár festust í blöðunum og blöðin festust alltaf meira og meira við puttana á mér. á endanum sat ég með tárin í augunum, lekandi vaxrúllu, loðin blöð föst við alla puttana á mér sem voru líka fastir hver við annan og blettaskalla á fótleggjunum.
svo fylltist ég réttlátri reiði, klíndi blöðunum í ruslið, reyndi að losna við klísturhelvítið af fingrunum (eftir að hafa klístrað út allan vaskinn, sápustaukinn, handklæðið og sjálfa mig), henti vaxgræjunum eins og þær leggja sig og klifraði upp í rúm.
í morgun vaknaði ég með fáránlegustu hluti límda við kálfana á mér.
ég er ennþá með límklessur víðsvegar um kálfana, en ég finn ekkert fyrir þeim því lóin úr buxunum mínum hefur fjarlægt klísturleikann. nú bíð ég bara eftir því að þetta detti af sjálfkrafa. ég gefst upp.
vax er ekki málið.

þriðjudagur, maí 01, 2007

þegar ég var lítil var farið með mig í kröfugöngur á fyrsta maí. ég söng ísland úr nato og herinn á brott með rauðan fána í hönd. heima í stofunni var mynd af karli marx í ramma, sem ég hélt lengi vel að væri mynd af sveinka bróður afa. sveinn þessi vissi ég að var eitthvað merkilegur kall sem bjó í austur-berlín þannig að mörkin á milli hans og karls marx voru óskýr í mínum barnshuga.
mamma mín átti plötu sem hét áfram stelpur og ég kunni að syngja ,,já ég þori get og vil" og mig minnir að við höfum átt plötu með bergþóru árnadóttur, kristínu æi þarna með hvíta lokkinn, sænskum þjóðlagasöngvurum, leonard cohen, cat stevens, bob dylan og bítlunum.
mikið um gítartónlist með boðskap. og boney-m.
foreldrar mínir hlusta enn á sænska þjóðlagasöngvara og eiga geisladiska með bítlunum, leonardo cohen og fleirum. uppi á vegg hangir hvorki mynd af sveinka né karli marx og þau vilja frekar eyða verkalýðsdeginum í að spila golf en fara í kröfugöngur. ,,ég er hættur að nenna að krefjast" sagði faðir minn blessaður í dag. þau mega eiga að nóg hafa þau krafist um æfina. kröfur voru hugsjónamál og það var hiti í fólki.
mín kynslóð hefur haft það gott frá upphafi. okkur þykja ýmsir hlutir sjálfsagðir sem ekki væru eins og þeir eru í dag ef ekki hefði verið fyrir kröfur og baráttu hugsjónafólksins. eins og bara það að geta farið með börnin mín á leikskóla á meðan ég fer í vinnuna. og það að eiga rétt á námi á hvaða stigi sem er.
mín kynslóð á íslandi er léleg kröfugöngukynslóð. við fáum aulahroll í kröfugöngum, við sjáum ekki alltaf tilganginn með því að krefjast. við nennum því ekki.
mér finnst foreldrar mínir alveg eiga skilið að spila golf í dag. þau eru búin að krefjast nóg fyrir mína hönd og sína eigin.