miðvikudagur, nóvember 29, 2006

mér leiðist remba. remba á heima á klósettinu. það er hannað fyrir rembing og útkomu hans.
mér leiðist þegar fólk rökstyður skoðanir sínar illa eða ekki.
mér leiðist þegar fólk setur heilu kynin, þjóðirnar, heimsálfurnar og/eða trúarhópana í einn lítinn pakka, njörvar niður og stimplar eins og pósthússtarfsmaður djöfulsins.
mér leiðist þegar fólk þykist vita allt um það sem það veit ekki neitt nema það sem sjónvarpið og aðrir miðlar hafa stappað saman, maukað og hrært og matað ofaní það.
mér leiðist þegar fólk heldur að það sé merkilegt umfram það sem hver og ein mannvera er merkilegt fyrirbæri.
mér leiðist þegar fólki þykir það með tilveru sinni hafa unnið sér inn einhver meiri mannréttindi en aðrir.
mér leiðist þegar fólk fattar ekki að það er eintóm heppni að hafa fæðst inní svona samfélag eins og við eigum í dag. það var aldrei valmöguleiki.
mér leiðist þegar fólk fattar ekki að sú staðreynd að þau urðu að manneskjum í líkama karls eða konu en ekki sáðfruman við hliðina á því í sundinu mikla er algjör tilviljun.
mér leiðist þegar höfuð fólks eru lok lok og læs og allt í stáli fyrir því að ræða, skoða, velta fyrir sér og kanna nýja og ólíka möguleika á skoðunum og afstöðu.
mér leiðist þegar fólk hefur skoðun af því að það heldur að hún sé flott.
samt er ég alveg í góðu skapi

mánudagur, nóvember 27, 2006

af hverju hafa konur óbeit á líkamshárum sínum? hvaðan kom þetta með að við séum fallegri hárminni á líkama en hárprúðar á höfuðleðri? ekki þykir fallegt þegar konur eru hálfsköllóttar á höfðinu (nema í undantekningartilfellum eins og sjinned ó konnor). en þó erum við vinsamlegast beðnar um að vera sköllóttar í handakrikunum, á leggjunum og vel tilhafðar á þríhyrningnum.
ég viðurkenni alveg að ég tek þátt í þessum hárafasisma og líður helst til druslulega og subbulega ef langur tími líður á milli snyrtinga.
þetta getur alveg farið út í öfgar og valdið konum sálarkvölum og þjáningu. fyrir utan þjáninguna sem fylgir kláða og inngrónum hárum.
bölvuð endalaus tískuvesöld

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

ég er allskonar samsull af genum og áhrifum úr umhverfi mínu. ég er eiginlega hálfgerð klessa. þversagnakennd klessa.
ég hef augnlit frá föðurömmu minni í gegnum pabba. beyglaða næstminnstutá frá langömmu minni í gegnum afa og pabba. ég á bágt með að segja nei eins og móðuramma mín. mér þykir óþægilegt að láta hrósa mér en ég þrífst á hrósi. ég vil ekki láta fara mikið fyrir mér en ég vil láta taka eftir mér. ég vil ekki láta hafa fyrir mér en ég elska þegar haft er fyrir mér. mér finnst ég vera drusluleg en samt er ég eigilega bara fín. mig langar að vera listræn og skáldleg og ég trúi því að ég geti það, samt trúi ég því varla að ég geti það eða muni nokkurn tíman framkvæma eitthvað listrænt og skáldlegt. ég vil geta verið ströng og skoðanaföst en ég skil alltaf sjónarmið allra svo vel að ég skipti um skoðun auðveldlega. svo er ég ekki ströng því mér hefur aldrei verið vel við fólk sem hefur verið strangt við mig. svo vil ég að öllum líki vel við mig og fer einhverra hluta vegna í tilfinningalega steik þegar mig svo mikið sem grunar að einhverjum þyki ég ekki ágæt. en samt veit ég að það er óþarfi.
það er ekki auðvelt að vera þversagnakennd klessa.

mánudagur, nóvember 20, 2006

ég fór út í búð í hádeginu ásamt samstarfsfólki. svosem ekki í frásögur færandi enda fer ég yfirleitt með sama samstarfsfólkinu í sömu búð að kaupa sama hádegismatinn fimm daga vikunnar.
í dag gekk ég að salatbarnum og greip bakka en fékk svo letikast og skilaði bakkanum og bakkaði að samlokukælinum. þar nældi ég mér í samloku með raftaskinku og salati sem leit óskaplega vel út, hét meira að segja deli, og létta kókflösku til að skola herlegheitunum niður.
svo röltum við samstarfsfólkið saman heim í vinnu. á bílastæðinu fann ég farsíma ofaní snjónum sem reyndist tilheyra afar þakklátum nemanda sem hefur semsagt fengið símann aftur og hann virkaði og allt. það var góðverk dagsins.
sem minnir mig á að um daginn fór ég á framboðsfund guðrúnar ögmunds (sem gekk því miður ekki nógu vel í prófkjörinu). á leið minni út af fundinum fann ég stútfullt seðlaveski liggjandi í lækjargötu. ég hringdi í eigandann sem reyndist vera kona og skutlaði veskinu til hennar og hún var yfir sig þakklát og hringdi í mig daginn eftir til að fá að borga mér fundarlaun, sem ég og afþakkaði pent með þeim orðum að ég hafi bara verið að gera öðrum það sem ég vil að aðrir gjöri mér.
kristilegt siðferði langömmu minnar sem lét mig biðja heilu runurnar af bænum hefur greinilega skilað sér.
nema hvað, svo fór ég semsagt áðan upp á kennarastofu þar sem við settumst að snæðingi og spjalli eins og okkur er tamt samstarfsfólkinu, enda öll voða skemmtileg og sniðug og svöng.
samlokan mín var skorin í tvo þríhyrninga. öðrum þríhyrningnum tróð ég í andlitið á mér og smakkaðist hann hreint út sagt ansi vel.
svo var komið að seinni helmingnum sem ég tók úr boxinu og einhverra hluta vegna snéri ég honum við. hefur sennilega eitthvað með það að gera að mér þykir eðlilegra að borða samloku þar sem skinkan er neðst og salatið ofaná en ekki öfugt. (smá vottur af matareinhverfu).
nema hvað, þar sem ég snéri samlokunni við blasti við mér utaná brauðsneiðinni grár ormur sem lá þar í makindum sínum ábyggilega saddur eftir salatát.
síðan þá hef ég ekki haft matarlyst.
núnú, ég rölti aftur í búðina og sagði við afgreiðslustúlkuna: ,,góðan dag, það er ormur á samlokunni minni". þrjú ungmenni sem stóðu fyrir aftan mig og gæddu sér á salati urðu skrýtin í framan og fóru að rannsaka matinn sinn. ætli ég hafi ekki óvart skemmt aðeins matartímann fyrir þeim, sem er miður.
en nú bíð ég eftir símhringingu frá samlokufyrirtækinu sem mun áræðanlega bjóða mér ársskamt af samlokum sem ég hef ekki lyst á.
ég vorkenni eiginlega bara orminum sem hefði getað lifað góðu lífi á samlokunni sinni ef hann fengi að vera þar í friði. honum verður væntanlega fargað greyinu, eins og þetta væri honum að kenna.
auminginn...

föstudagur, nóvember 17, 2006

sökum veikinda hef ég 2 miða á sykurmolana sem eru falir fyrir einhverja peninga :)
síminn minn er 8497826

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

ég á afmælí dag
ég á afmælí dag
ég á afmæli sjahálf
ég á afmælí dag.
húrra!

skítakuldi ef útí það er farið... mér er þó hlýtt að innan.
fékk rooooosalega fallega skó frá makanum og burðunum. þarf samt stærra númer en það er allt í lagi.

mánudagur, nóvember 13, 2006

ég sé skilaboð um að ég eigi að færa mig yfir í nýrri versjón af bloggernum. því þori ég ekki, enda ekki nýjungagjörn manneskja í svona málum. svo stendur líka að ég eigi þá að nota google leyniorðið mitt sem ég á ekki svo að ég er hrædd um að týna öllu klabbinu. má ég ekki bara halda áfram svona? ætli einhver tölvugaur þarna úti eigi eftir að breyta öllu kerfinu svo að ég lendi í vandræðum og rugli? mikið vona ég ekki.
nema hvað. græna fólkið er alveg að hverfa af fótleggnum á mér, enda lá ég í sundi í klukkutíma í morgun í von um að það strokaðist út. ég held að græna fólkið sem gægðist uppúr peysunni minni í borgarleikhúsinu á föstudaginn sé amk alveg farið. mikið hló ég annars þegar ég sá bakið á mér í speglinum eftir að hafa verið voða fín í leikhúsi með grænt fólk á bakinu. (peysan er semsagt þannig að það sést í bak).
annars er það eitt að frétta að ég vaknaði eftir mjög annasama nótt við hlið andvaka síðburðar, algerlega pikkföst frá hálsi og niður með vinstra herðablaði. nuddpotturinn í laugardalnum mýkti mig aðeins upp en stíf er ég þó enn. ég væri alveg til í að láta klóna fyrir mig nýtt bak. fer það ekki að verða möguleiki fljótlega?

sem minnir mig á það.... hver haldiði að eigi ammæli á miðvikudaginn??!!
í dag er semsagt fyrsti í afmælisviku 2006. uppáhalds vikan mín.

föstudagur, nóvember 10, 2006

þegar ég sofna sofna ég fast. ég er yfirleitt gaurinn sem vaknar ekki við neitt, amk er ég ávallt betur sofin en makinn sem er aðeins stressaðri týpa en ég og grynnri í honum svefninn.
ég vakna samt alveg við vekjarasímann minn, klöngrast fram og vek frumburðinn og sofna svo vært aftur eftir að hafa fullvissað mig um að hann sé nægilega vaknaður til að koma sér í skólann á réttum tíma (og smyrja handa honum samloku í nesti).
um það leyti sem frumburðurinn lokar útidyrunum á eftir sér er yfirleitt kominn tími á síðburðinn að rumska. hún rumskar samt voða lítið. er meira svona..opna augun...komin í stuð. ég hinsvegar er oft mjög þreytt á milli vekjaraklukku og brottfarartíma eigins. þá verð ég að finna leiðir til að láta síðburðinn dunda sér í einsog hálftíma. það virkar yfirleitt með litum og blöðum, barnatíma um helgar. undanfarið hefur hún fengið leyfi til að myndskreyta veggi svefnherbergis okkar, enda verður það tekið í gegn og málað fljótlega. við það hefur sú litla skemmt sér marga blundina mína.
í morgun fór allt af stað eins og venjulega, ég hnoðaði frumburðinn til meðvitundar og smurði brauð. kvaddi hann og skreið upp í rúm. opnaði aftur augun við síðburðinn sem sat með tússlit á koddanum mínum og teiknaði kalla á vegginn. mig minnir að ég hafi brosað til hennar og að henni áður en ég datt aftur út.
einhverjum hálftímanum síðar rankaði ég aftur við mér til þess að hefja daginn loksins. sat þá sú litla til fóta. mér var kalt á hægri fótlegg sem stóð undan sænginni. ég stakk honum undir til að hlýja mér aðeins áður en ég fór framúr. svo fór ég framúr. þá sá ég afrakstur síðasta hálftíma.
fótleggurinn á mér frá læri og niður að tám er þakinn grænu fólki, grænum sólum og blómum og utanum allt er risastór ílangur hringur með geislum, svona eins og sól.
ég hætti við að fara í líkamsrækt í morgun og fór í þykkustu sokkabuxurnar mínar. þetta sést samt í gegn og fer ekki auðveldlega af.
fórnarkostnaður morgunsvefnsins.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

ég þekki marga útlendinga á íslandi.
allir þeirra sem ég hef rætt við eru sammála því að takmarka verði streymi útlendinga til landsins. þeir eru smeykir við þróunina.
magnaður skítur.

mér er sama hvaðan fólk er. við verðum bara öll að kunna að hegða okkur í mannlegu samfélagi þar sem áhersla er lögð á virðingu fyrir náunganum.
það fer í taugarnar á mér þegar fólk talar um jújú...evrópubúar..blabla... austantjaldslöndin...allir þurfa að læra íslensku...gott starfsfólk...bla... en þessir múslimar. já, þar skulum við sko passa okkur. það lið vill ekkert nema grafa undan vestrænum samfélögum og byggja moskur og sprengja sig í loft upp.
bölvað fordómaþvaður.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

núna langar mig að prófa hvort ég geti sett inn tónlist hingað inn og kannski gert eitthvað skemmtilegt í framhaldi af því. ef það tekst.
tónlist?

neibb, það tókst ekki. ég gat bara gert link á útvarpssíðu. djöh.
veit einhver hvernig ég get sett inn tónlistarfæla hingað?

bueller?

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Hér er góður pistill sem ég mæli með að þið lesið (ef það er einhver þarna úti)
PISTILL

ps: ég er að reyna að gera svona tengil í fyrsta skipti...vonandi tekst það
ég finn hvernig bölið læðist aftanað mér. eða frekar innanúr mér. þessi óhroði sem ég fékk í arf frá foreldrum mínum. af og til sýnir þessi óværa á sér klærnar, sérstaklega þegar ég má minnst við því. þegar ég er veik fyrir og viðkvæm. þá kemur hún. ég finn hitan sem hún sendir frá sér, kitlandi straumar sem minna á tilveru hennar. svo hlær hún beint uppí opið geðið á mér. í andlitið á mér. á vörina á mér. helvítis frunsuandskoti.
ætli þessir plástrar virki eitthvað?

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

makinn minn er útlenskur orðinn íslenskur þó svo að honum líði voða lítið íslenskum blessuðum. hann hefur verið hérna meira og minna síðan áður en það varð algengt að hitta útlendinga á íslandi sem voru ekki í sumarfríi og á leið út á land að hjóla.
síðan hann kom hafa margir komið sem er fínt og flott og gott fyrir landann og landið og eigum við slatta af vinum og kunningjum héðan og þaðan hérna.
ég get samt ekki að því gert að verða pirruð þegar ég stend sjálfa mig að því að vera smeyk við að ganga um miðbæinn á kvöldin eftir að hafa lesið um bandbrjálaða kynlífssvelta erlendinga sem bókstaflega taka konur og taka þær. það er ekki stemming sem ég vil hafa í samfélaginu þegar börnin mín stækka og þroskast. þá er einmitt búið að skemma þennan gamla kósí sjávarplássfíling sem ég hef alltaf verið svo hrifin og stolt af hér í litlu höfuðborginni. sérstaklega í miðbænum.
má panta að fá bara inn útlendinga með maka?