mánudagur, október 30, 2006

ég eyddi síðari hluta föstudags og fram að síðari hluta laugardags í félagskap tuttuguogeitthvað unglinga. einn var víst orðinn tvítugur og sá sem á eftir mér kom sem aldursforseti er tuttuguogfimm. hitt liðið var á milli fimmtán og sautján-átján.
skólaferð semsagt.
á tímabili hafði ég áhyggjur, verður að segjast eins og er. ég vissi frá upphafi að einhverjir hefðu í huga að koma með áfengi með sér og það stressaði mig nokkuð.
síðar átti eftir að koma í ljós hvurslags ljós eru í þessum skóla. sumir stundum svolítið stærri að utan en að innan, en í heildina blessaðir öðlingar.
semsagt, allt fór vel fram. eitthvað var um að hormónin næðu yfirhöndinni og sumir áttu víst erfitt með að hemja kynkvötina. lítill hvítur hundur sást á sveimi í félagsheimilinu, en ég var of upptekin við að sigra trivial til að láta hann pirra mig. annars hafa mér alltaf þótt litlir hvítir hundar hvimleiðir. sérstaklega poodle.
nema hvað, ég sigraði trivial á aldri. vil ég meina. þetta var afmælisútgáfan sem virðist hafa verið miðuð við árið 1985, en amk heyrði ég ekki mikið um spurningar þar sem eitthvað átti að hafa gerst fyrir þann tíma. af þeim sökum bar ég höfuð og herðar yfir aðra keppendur, enda megnið af þeim fætt í kringum 1990 og gátu ekki með neinu móti munað eitthvað sem gerðist á milli 1987 og 1995. muahahahaha.... (ég lendi reyndar í vandræðum með spurningar um eminem og tölvuforrit einhverskonar..ehe). einn guttinn reyndi að vera flottur á því að minna mig á hvurslags eiginlega forngripur ég væri, en hann fékk það í bakið blessaður daginn eftir þegar honum féll í skaut að þrífa karlaklósettin. vonandi kennir það honum að vera ekki dónalegur við ungar konur.
eitt sem vakti athygli mína innanum þessa krakka var hversu tæknivædd þau eru. sumir voru með fartölvur, góður slatti með ipod (með 30gb minni og bíómyndaskjá!), einhver var með lítinn ferðadvdspilara og allir sem ég sá voru með síma með ljósmynda og vídeóupptökuvél. minn var sá eini sem náði ekki sambandi við umheiminn, enda gamall, ódýr og aumingjalegur innanum allan þennan lúxustæknivarning.
mér taldist til að sumir væru að minnsta kosti með kvartmilljón í vösunum af tækni. og afþreyingin glumdi langt frameftir nóttu þar til slökknaði á fólkinu og græjunum í morgunsárið.
ég er enn að reyna að jafna mig á svefnleysi næturinnar, enda orðin gömul í hettunni..hehe... eða ekki.
já og við fórum á laugardaginn að sjá hval vera skorinn. magnaður skratti. mikið af keti sem ég skil ekki alveg hver ætlar að eta. ekki ég aðminnstakosti.

fimmtudagur, október 26, 2006

mikið ógurlegt ansans hugmyndaleysi hrjáir mig. þegar ég sest fyrir framan tölvuna og hugsa mér til skrifings kemur einhvernvegin ekkert upp á yfirborðið. allt þetta sniðuga sem mér dettur í hug þegar ég ligg og reyni að sofna er einhverstaðar gleymt og grafið í djúpum sálarfylgsnum, eða jafnvel ekki. kannski bara gufað upp í veður og vind. nóg er svosem af veðrum og vindi í þessu landi, oseisei.
mér dettur ekkert í hug til að segja frá úr daglega lífinu. það rúllar bara og ég er alltaf að skána í matargerðarlistum. hef amk orðið lyst á því sem ég elda þó það séu engin listaverk, kannski lystarverk.
mér dettur heldur ekkert í hug til að kvarta yfir úr þjóðlífinu. nóg er um kvartanir út um allt svo ég sé ekki að bæta í þann pytt.
ég var að enda við að lesa rokland hans hallgríms. skemmtileg bók og skemmtileg aðalpersóna sem kvartar yfir því sama og fólk kvartar amk einu sinni í hverju dagblaði sem ég les. hann gerir það bara í þriðjaveldi.
ætli það sé eitthvað til í því að neysla lélegs sjónvarpsefnis hafi sljóvgandi áhrif á heilann?
ég sat tildæmis í aulahrolli mínum og horfði á tyru banks og fyrirsæturnar í gærkveldi. ætli það séu þær sem hafa strokað hugmyndir mínar út í dag? ég spyr mig...
best að passa sig á sjónvarpinu í kvöld og sjá svo hvort ég verð eitthvað gáfulegri á morgun.

þriðjudagur, október 24, 2006

nú lentum við í pípurum.
eins og sumir vita búum við í tveimur litlum íbúðum (löng saga) en þannig var mál með vexti að í annarri þeirra voru allir ofnar ískaldir. þá hringdi ég í pípara sem mætti á réttum tíma og allt, en stóð sig ekki betur en svo að hann vissi ekkert hvað hann ætti að gera. minn vinur hringir í félaga sinn, eitthvað hærra settan í fyrirtækinu og við biðum. og biðum. loksins kom hann, skrúfaði eitthvað í einum ofni í íbúðinni sem var ekki köld og þvældist svo um húsið í leit að vitleysunni. að lokum komust þeir að þeirri niðurstöðu að þeir skildu kerfið ekki og ráðlögðu okkur að finna pípara sem hefði eitthvað meira vit á þessu skrýtna húsi.
núnú, og við gerðum það. hann mætti blessaður og þvældist hér upp og niður þangað til hann fann útúr vandamálinu sem hann hafði í raun ekki meira vit á en hinir í upphafi, og lagaði allt. fyrir það rukkaði hann okkur tæpan tíuþúsundkall.
nokkrum dögum síðar fékk ég reikning frá fyrirtækinu með ringluðu píparana uppá rúmar átjánþúsundkrónur. að sjálfsögðu gleypti ég bara loft og munnvatn og fékk hálfgerðan svima yfir upphæðinni sem mér var gert að greiða fyrir nákvæmlega ekki neitt. svo hringdi ég í fyrirtækið og spurði en þeir sögðu mér þar að hann hefði víst skrúfað í einn ofn og að þetta hefði verið unninn tími. ég tjáði honum að mestur tíminn hefði reyndar farið í að sitja og bíða eftir öðrum þeirra sökum lítils sjálfstrausts hins fyrri, og svo í að heyra frá þeim að þetta væri ómögulegt, að við þyrftum sennilega að láta skipta um allt kerfi í húsinu sem myndi kosta hátt í milljón.
bla bla bla sögðu þeir og það var ekki fyrr en makinn minn spjallaði við yfirmann fyrirtækisins og skammaði hann að þeir beygðu sig og ,,leyfðu" okkur að borga bara rúmar tólfþúsund krónur. sem ég og gerði til að losna við hausverkinn.
ég get þó ekki að því gert að mér þykir þetta hafa verið ansi blóðugur peningur og hefði glöð viljað eyða honum í eitthvað allt annað.
hér með mæli ég ekki með fyrirtæki sem heitir faglagnir.
þó svo að það sé rétt að kerfið í húsinu sé ruglað og píparinn sem setti upp mælana hafi greinilega verið óttalegur þöngulhaus, þá sýndi þolinmóði píparinn sem á eftir kom að það var hreint ekki ómögulegt að komast til botns í vandanum og leysa hann.
hann heitir guðmundur og er héðanífrá sá sem ég mun alltaf hringja í.

sunnudagur, október 22, 2006

fór á loftöldurnar í gær. á ekki armband en fékk mig keypta inn á pravda uppúr klukkan tíu í þeim tilgangi einum að berja augum einu manneskjuna sem er búin til nákvæmlega úr sömu genablöndu og ég. samt þykir fæstum við mjög líkar, sem sýnir bara hvursu margt sniðugt getur komið útúr því þegar pabba mínum og mömmu er blandað saman.
nema hvað, hún systir mín og aríaprinsinn hennar, semsagt mágur minn, voru að leika listir sínar undir nafninu fm belfast. drullu var það gaman og drullu eru þau klár.
ég stóð á palli ásamt svilkonu minni og eldri systur mágsins, sem er í óspurðum fréttum að bjóða sig fram í samfylkingunni (og það segir mér fleira gott um hana en margt annað), og horfði stolt á.
frétti síðar að einn af fullu útlendingunum sem voru beint uppvið sviðið var með kynfæri sín hangandi úti allan tímann og þótti nett stressaðri söngkonu það ekki afstressandi en henni tókst með glæsibrag að láta ekki á neinu bera útaf þessum bera, amk. tók ég ekki eftir neinu þar sem ég dillaði mér með bros á milli eyrnanna.

jebb.... það var nú svo og svo var nú það

laugardagur, október 21, 2006

næst á dagskrá er extreme makeover mental edition. ég hef ákveðið að reyna að minnka froðuna á milli eyrna minna með því að hætta að eyða öllum föstudags og laugardagskveldum fyrir framan fólk að eiga líf í hollívúd á meðan ég sit og soðna í heilanum með tár í augunum yfir þeirra vandamálum og sorgum sem eru ekki einu sinni alvöru.
mig minnir nú að ég hafi kvabbað yfir þessu áður, en aldrei er einu kvabbi ofaukið í ofanálag umfram allt líka.
nú er ég á leið með síðburðinn í göngutúr til að kaupa spilastokk og teninga. svo þarf ég að gramsa eftir dómínókassanum í geymslunni því dómínó er virkilega skemmtilegt spjel.
svo ætla ég að hætta að eyða umframtímanum mínum í að kvarta yfir að gera ekkert og ætla frekar að nota hann í að gera allt þetta sem ég kveinka mér andlega yfir að vera ekki að gera þar sem ég ligg andvaka af kókdrykkju og hugsunum.
já og ég ætla líka að fara að drekka minna kók. (þetta kemur allt í smá bútum)
sem minnir mig á eina málsháttinn (eða orðatiltækið, get einhvernvegin aldrei verið viss um hvað er hvað stundum og yfirleitt eða allavega oft) sem ég hef tekið eftir og tekið mér að leiðarljósi eða mottói eða svoleiðis.
hvert ferðalag hefst á einu skrefi.

fyrsta skref: horfa ekki á sjónvarp í kveld (og er það laugardagskveld)

miðvikudagur, október 18, 2006

hvað er málið með brjóstaskorur? hvenær eru þær viðeigandi? eða eru þær alltaf viðeigandi?
af hverju er fólk alltaf að minna mig á nærfötin sín með því sem þau klæðast? síðan hvenær þykir eðlilegt að sjá í nærbuxurnar hjá fólki á förnum vegi? eða brjóstahaldara? á mánudagsmorgni?
er þetta ekki skemmtilegt? að hver einasta setning sé spurning? eða hvað?
erekki allir í stuði?

þriðjudagur, október 10, 2006

hananú. nú fæ ég krabbamein af því að drekka kók læt. svo fæ ég offitu af því að drekka kók ólæt. best að reyna bara að sleppa svörtum drykkjum yfir höfuð sýnist mér. er þó erfiðara en það hljómar.
skrattakornið að þurfa að sleppa svona mörgum skemmtilegum hlutum úr tilverunni bara til að vera heilbrigður.
fly on the wings of love hljómar nú í eyrum mér og ég er að dunda mér við að skipuleggja morgundaginn vinnulega séð. svo er ég líka að hugsa hvað í skrattanum ég eigi eiginlega að hafa í matinn í kveld. á sama tíma er ég að ákveða hvað ég eigi að kenna námskeiðsfólkinu mínu á eftir. ég þarf að muna að hringja í píparann. ætli arkítektinn eigi eftir að hringja í mig í dag eins og hann sagði? ég þarf að minna son minn á að læra heima og æfa sig á trompetinn. úff, það verður að þrífa heima hjá mér fljótlega og ég verð að muna að stinga í þvottavél á eftir. já og svo tók ég að mér að finna verð á hliði fyrir húsfélagið. muna líka að rukka þá sem skulda mér. og finna tíma til að fara í ræktina. hvað ætli hafi orðið um sunddót sonar míns? hann á að mæta fljótlega til tannlæknis, verð að muna það. sem minnir mig á það, ég þyrfti sjálf að fara að panta tíma. gott ef það þarf ekki að fara að smyrja bílinn hvað úr hverju, best að minna makann á það. já og fara yfir prófin.

magnað hvað heilinn rúmar mikið af drasli...

fimmtudagur, október 05, 2006

nýjast er það að frétta af fasteignaviðskiptum mínum að eigandi íbúðarinnar hringdi í mig áðan. blessaður drengurinn sagði mér frá því að þau hjónakorn væru að hugsa um að gefast upp á að búa erlendis og vildu helst hætta við að selja íbúðina sína svo að heimkoman verði sem þægilegust og vandræðalausust. hafði kauði hringt í herra slepju til að upplýsa hann um bakþanka þeirra hjóna en þá hótaði hann þeim því að við gætum lögsótt þau fyrir vanefndir á samningnum fyrrnefnda.
nákvæmlega það sama og hann sagði við mig þegar ég vildi bakka.
nú vilja báðir aðilar bara gleyma því að nokkur hafi skrifað undir neitt og halda lífinu áfram, en á milli okkar trónir gráspengdur slepjuþurs sem hótar öllum lögsóknum hægri vinstri.
seljandaljúfmennið var hinn kátasti þegar ég tjáði honum að ég hefði engan vegin í hyggju að kæra hann og sömuleiðis var þungu fargi af mér létt þegar ég fékk sömu fréttir á móti.
eina mögulega vandamálið í stöðunni er fasteignaskrímslið sem hengir sig nú í að hann eigi heimtingu á sölulaunum og væntanlega yrði honum skemmt að sjá seljandann lögsækja mig í þeim tilgangi að láta mig greiða þau fyrir að hafa aulast til að bjóða í kofann.
en nú er alveg eins þeim að kenna að hafa samþykkt tilboðið...ehe...

svei mér þá ef hlandið er ekki að hverfa frá hjartanu mínu.

þriðjudagur, október 03, 2006

já einhver er nú lægðin í fingrum mínum þessa dagana. heilastarfsemin er ekki eins virk og hún mætti vera, en hún á það til að grána í þoku hversdagsleikans.

nú sit ég semsagt og sinni starfi yfirsetukonu. starf yfirsetukonu felst í því að sitja yfir. gengt mér eru litlu nemendadvergarnir mínir sem ég er reyndar ekki að kenna þessa dagana því nú er ég spænskukennari og það er ekki sama hvenær hver kennir hverjum hvað. oseisei.

annars er það að frétta að ég skrifaði undir kauptilboð eins og fífl á föstudaginn og vil nú út eftir að eigendafíflin sáu sér ekki fært að neita tilboðinu. út vil ek sökum gífulegra magnaðrar vaxtapressu sem bankabáknið vill skella á herðar mér en ek vil eigi.
eftir að ég tilkynnti löggilta fasteignasalanum með gráa hárið og smeðjulega brosið um aðstæður mínar lét hann mig vita í óspurðum fréttum að þá væri hægt að lögsækja mig.
kemur þá uppúr krafsinu maðkurinn í mysunni eins og skrattinn úr sauðaleggnum í dauðans ofboði. mannandskotinn sleppti því að hafa fyrirvara um fjármögnun í samningnum ,,því að við litum að hans mati út fyrir að vera svo örugg með okkur". og ég eins og fífl og fáviti (sem ég get stundum verið, ekki oft en stundum), las ekki út og inn samningshelvítið vegna þess að ég hef lesið svona samninga svo oft og þeir hafa alltaf verið eins MEÐ FYRIRVARA UM FJÁRMÖGNUN. mér hefur meira að segja verið sagt af fasteignasala að fyrirvarinn atarna sé fastur og óhagganlegur liður í svona samningum. en nei. ekki í þessu tilfelli.
og hér sit ég með hjartað í buxunum, köggulinn í hálsinum, lífið í lúkunum, hland fyrir hjartanu (sem er í buxunum) og tárin í augunum og vonast eftir því að verða ekki lögsótt af slímkenndum smjörlegnum fasteignasala með álímt smeðjubros sem nær engan vegin til augnanna.