tíminn gerir fátt annað en að líða. fyrir stuttu var ég glöð að nóttin varð björt. nú er ég glöð að kvöldin verða dimm. þá get ég kveikt á kertum. reyndar get ég það bara þegar síðburðurinn er sofnaður og makinn og frumburðurinn einhverstaðar annarstaðar en heima eða í stofunni. þeir hafa nefnilega ekki hugmyndaflug í margt annað en að kveikja á kassanum.
en þegar ég fæ stofuna útafyrir mig slekk ég ljósin og kveiki kertin. undanfarna daga hef ég einmitt verið svo heppin að fá að eiga stofuna mína ein. en í stað þess að sitja ein og hugleiða við kertaljós hef ég nú rifið gítarinn hennar mömmu úr unglingaherberginu, grafið upp söngbók með gítargripum og hamast nú sem iðinn hamstur við að glamra mig í gegnum lög. ég hef aldrei lært á gítar en gripin eru nú nokkuð idjótprúf sett upp. í dag er ég að drepast í þremur miðjufingrum vinstri handar eftir nótnaglamrið, en er þó stolt af meiðslunum.
í skólanum gengur allt sinn svínaflensugang. óvenjulega margir nemendur og kennarar eru veikir og nemendur gleðjast þegar kennarar veikjast því þá fá þeir frí í tíma.
í mötuneytinu er enn framleiddur trukkamatur og ég hef nóg að gera við að læra nöfn nemenda og kynnast nýju fólki. mikið að gera.
svo er ég kannski að fara að flytja. kemur í ljós á næstunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli