mánudagur, júlí 13, 2009

þessa dagana hangir pólverji með stórt yfirvaraskegg utaná öllum gluggunum mínum. ég er á þriðju hæð og ekki vön fólki á gluggunum. þess vegna bregður mér í hvert sinn sem ég sé skapta. sat í rólegheitunum á bol og nærbuxum í sófanum í morgun og gluggaði í blaðið. birtist þá ekki helvítið áonum á glugganum og ég eins og bjáni á brókinni.
hann er sko að mála. hlýtur að fara að verða búinn... andskotinn hafi það.

við skruppum í ör-útilegu uppá hálendið um helgina. enduðum í heitum læk í landmannalaugum en tjölduðum reyndar ekki þar, enda svæðið eins og þjóðhátíð útivistarþjóðverja. landsvæðið, eins og margir hverjir vita, þarna uppfrá er hrjóstrugt og ekki mikið um gróður. eiginlega bara sandur og möl og hraun og svoleiðis. en okkur tókst að finna lítinn bala við litla á og lítinn foss hvar við tjölduðum eins og litla gunna og litli jón. lítill gróður. eiginlega enginn. hjúkk sagði ég til vonar og vara, en hef þó ekkert fundið fyrir blessuðu ofnæminu mínu það sem af er sumri.
við létum okkur hafa að tjalda í svakalegu roki, þurftum stundum að hafa fyrir því að halda okkur á jörðinni haldandi sitt í hvorn endann á risastóru tjaldi sem hafði breyst í segl. en það hafðist. og við fluttum inn. komum okkur fyrir og hituðum kakó og pylsur og sykurpúða og svoleiðis nokk.
og svo fór ég að tárast. og ég hnerraði. og mig klæjaði í nefið. og mig klæjaði í hálsinn. og mig klæjaði í augun. og ég hnerraði meira. og það lak á mér nefið.
nú get ég sennilega notað útilokunaraðferðina á þessar fjórar plöntutegundir sem uxu á svæðinu en ég var með svo blaut augu að ég sá ekkert hvaða plöntur þetta voru.
og ég er engu nær.
andskotinn hafi það.

annars er það bara hitabylgja. spurning um að skella sér í kjötsúpusund snöggvast.
og kannski borða ís eða tvo.

Engin ummæli: