það er eitthvað kósí við myrkrið. það er líka eitthvað kósí við hlý föt og rauð nef og kinnar niðri í bæ þegar allt er upplýst og draslið vellur útúr búðargluggunum. eitthvað sem veldur því að ég er haldin óstöðvandi löngun í heita köku með rjóma og jólaöl.
það er ekkert kósí við hrannir af fólki sem treðst inn á milli hillna í búðum og streymir framhjá andlitinu á mér í verslanamiðstöðvum. veldur mér eiginlega bara svima og óþægindatilfinningu. lætur mig langa til að fara heim og horfa á súrrealísku jólaskreytingarnar eftir þriggja ára innanhúshönnuðinn minn.
mér þykja þessi upplýstu kósílegheit vera uppspretta góðrar tilfinningar sem veldur mér brosi í tíma og ótíma. það sem mér þykir skrýtnast er að sjá ekki fleiri bros á röltinu um bæinn. það eru flestir of uppteknir við að ana til þess að rölta. rölt er mun geðheilsuvænna og frekar brosaframleiðandi.
ég sé fólk bresta í bros þegar það mætir vinum og kunningjum. anið stöðvast um stund og alvarlega einbeitingarinnkaupahrukkan breytist í stutta gleði.
mér finnst að fólk ætti að vera duglegra að brosa til ókunnugra líka.
það er hægt að brosa til fólks af því að veðrið er svo frábært, af því að veðrið er svo vont að það er hreinlega fyndið, af því að við erum samferða í augnablik framhjá sniðugu fyrirbæri eða bara af því að það er gaman að gefa og þiggja bros.
en jæja... það er kannski bara ég....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli