þar sem ég tilheyri þeim forréttindaríka þjóðfélagshópi sem nýtur þess að fá almennilegt jólafrí hef ég ekki verið og mun ekki vera dugleg að blogga þessa dagana. frumburðurinn er kominn í jólafrí og við splæstum sömuleiðis fríi á síðburðinn þrátt fyrir að því er virðist óendanlegan opnunartíma leikskólanna. við höfum eytt vikunni við turtildúfurnar í gjafakaup og kaup á ýmiskonar dótaríi sem hefur límst við okkur á leiðinni, auk þess sem við höfum ræktað líkama og sál. í dag fór svo jólafrísfjölskyldan í sundferð þar sem við fengum heila innilaug bara fyrir okkur og sturtuklefana svotil tóma þar sem aðrir virðast vera of uppteknir til að bleyta sig.
á morgun og hinn og á þorláki mun svo verða hangsað, jafnvel synt aðeins meira, og jafnvel bakaðar fleiri smákökusortir þar sem hinar tvær sem við bökuðum eru að klárast.
við munum sofa út, fara seint framúr, borða síðbúinn morgunmat í rólegheitum og stunda almennt dundur algerlega laus við stress, flýti og pirring. sama dagskrá verður viðhöfð á milli jóla og nýárs.
keyptir hafa verið slatta margir metrar af jólapappír og skrautborðum ýmiskonar sem munu verða vafðir eftir að kertasníkir svæfir börnin á þorláki, innihaldið í mexíkanska jólasaltfiskréttinn eru einnig komin í hús og föndrað verður við matseldina frá og með morgundeginum, enda langdreginn réttur í framkvæmd. jólakort hafa ekki verið send einni einustu sálu þar sem ég virðist vera haldin einhverskonar jólakortalæsingu, en það mun kannski rjátlast af mér einhverntíman í framtíðinni. eða ekki.
allt í allt er þetta semsagt barasta skrambi fín árstíð hérna í litla gula húsinu.
ef ég sé ykkur ekki á næstu dögum langar mig hér með til þess að óska ykkur öllum gleðilegra jóla, sólstöðuhátíðar, hanukka eða hvað það nú er sem þið kjósið að halda uppá, eða bara góðrar helgar ef trúarbrögð ykkar eru ekki í stuði þessa dagana. svo vil ég óska ykkur gleði, friðar og hamingju um leið og ég þakka fyrir liðna samfylgd, vonast eftir áframhaldandi samveru og bið ykkur vel að lifa.
sjáumst vonandi fljótlega aftur en ég er semsagt upptekin í bili við að gera allt og ekkert í góðu stuði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli