þriðjudagur, júní 27, 2006

mikið er ég löt þessa dagana. er þó að kenna og kenni þar engri um nema mér sjálfri kenni ég mér meins. kenni þeim að leita kennileita.
það er annars blessuð blíðan. skýjað og kalt. ætli það væri mikill bransi í því að flytja inn sól og heita vinda? sum lönd hafa offramleiðslu af slíku og við gætum vel skipt á sól og hita fyrir til dæmis vatn. við eigum vatn.
ég á tvo norska frændur sem eru íslenskir. þeir tala litla íslensku en eru þó skemmtilegir mjög. þeir segja bara jedúddamía og setja puttana upp eins og ítalir. bráðum mun ég eiga norskt frændsystkini sem er rétt tæplega íslenskt í gegnum ömmu sína. svo gæti vel farið í framtíð að ég eignaðist rétt tæplega íslenskt mexíkanskt barnabarn fari svo að afkvæmi mín velji sér þarlenda maka. innst inni við beinið vona ég þó að svo verði ekki. það er sjálfselskan í mér. sú hin sama vildi helst að heimurinn snérist í kringum sjálfa mig, en svo er víst ekki.
ég er með sautján armbönd á handleggjunum. mömmu minni þykir þau ekki sparileg. ég fæ einu sinni á ári skrýtna tilfinningu í úlnliðina og þá tek ég þau af mér í tvo daga. þá finnst mér ég vera berrössuð.
nú langar mig mest til að leggja mig en ég verð víst að halda áfram að taka þátt í samfélaginu aðeins lengur.
svo koma norsku frændurnir með óléttu norsku konuna og íslensku frænkuna sem talar eiginlega bara norsku og norska manninn hennar og dótturina sem er sú eina sem talar eitthvað af viti í íslensku í mat til móður minnar í kveld. þar bý ég í augnablikinu svo ég er að fara í mat líka. það er fínt því mamma er góður kokkur og norska liðið er hinn fínasti félagskapur. gott ef ég get ekki skilið líka hrafl í því sem þau segja á norsku. ef þau tala hægt.

Engin ummæli: