fimmtudagur, júní 22, 2006

rölti í gær niður á gauk á stöng til þess að horfa á mexíkó keppa við portúgal í fótbolta. þar héldu allir með portúgal nema ég sem æpti og gólaði yfir leiknum og var sú eina sem drakk bjór. hinir drukku kaffi og héldu sig á mottunni.
mexíkó tapaði en komst samt áfram í næstu lotu.
ég er ekki mikil fótboltamanneskja en á svona stundum verð ég spennt. mér þykir líka sérstaklega gaman þegar mér líður eins og ég þekki leikmennina persónulega. sú tilfinning kemur til af því að úti í mexíkó snýst öll tilveran um fótbolta þessa dagana og miklar upplýsingar hafa síast inn í minn annars fótboltasnauða heila.
til dæmis veit ég að kvenfólki í mexíkó þykir rafael marquez vera sætastur þó svo að hann hafi orðið óvinsæll í gær eftir að slá hendinni í boltann og verða þar af leiðandi valdur að víti. nú og svo er fonseca kallaður kinkin og er mjög vinsæll svona eins og stórstjarna og hann spilar með liði sem heitir chivas sem er uppáhalds lið allra í minni tengdafjölskyldu. þjálfarinn er frá argentínu og ekki eru allir sáttir við að hann sé útlendingur, hann reykir mikið og hefur verið gagnrýndur af fjölmiðlum fyrir að blóta og vera dónalegur. svo fylgdist ég með tárin í augunum með fréttum þegar faðir markmannsins osvaldo sanchez lést úr hjartaáfalli tveimur dögum fyrir fyrsta leik mexíkó, osvaldo var flogið heim í jarðaför í skyndi og svo aftur út ásamt fullri flugvél af fjölskyldu rétt fyrir fyrsta leikinn. áður en sá leikur hófst færði markmaður íran honum blómvönd og þá fékk öll mexíkanska þjóðin tár í augun.
þá daga sem landsliðið keppir eru allar götur í mexíkóborg fullar af fólki í grænum landsliðsbolum. fánar standa útum glugga á húsum og bílum og þegar liðinu hefur gengið vel heilsast ókunnugir glaðlega og margir bílar flauta til heiðurs landsliðinu. þá er gaman.
þessa dagana snýst eins og áður sagði allt um fótbolta í mexíkó. kókdósir skarta myndum af leikmönnum, þemað í barnaboxum hamborgarastaða er fótbolti, ef þú kaupir brauð eru límmiðar af fótboltakörlum í pakkanum, í töppum á bjórflöskum gætir þú unnið ferð til þýskalands til að sjá liðið keppa, sjampóbrúsar hafa verið framleiddir með fótboltatappa, ef þú kaupir þvottavél gætir þú unnið ferð út, hin ýmsu fyrirtæki auglýsa þjónustu og vörur sínar með tilvitnunum í heimsmeistarakeppnina, símafyrirtæki gefur þér landsliðsboli ef þú kaupir gemsa og forsetaframbjóðendur keppast við að senda leikmönnum velgengniskveðjur.
semsagt, þessir fáu menn sem skipa liðið þurfa að standa undir miklum væntingum.
ekki vildi ég vera þeir.

Engin ummæli: