fimmtudagur, ágúst 31, 2006

svei mér þá ef ég hef ekki nælt mér í anorexíu í síðustu viku þegar ég dröslaðist aftur í litla líkamsræktarsalinn minn. þar steig ég á vigt og fann hvernig himnarnir hrundu yfir mig, sem aftur hjálpaði ekkert til þar sem það er ákveðin þyngd í himnunum. samt er ég ekkert mikið þyngri en ég var í vor. ég er bara aðeins meira biluð en ég var í vor. og nú þjáist ég af geðveilu á háu stigi sem felst í stanslausri löngun til að borða drasl og hreyfa mig til að losna við kílóin atarna og borða hollan mat og liggja eins og klessa, allt á sama tíma. kannast einhver við sindrómið?

nema hvað. nýju nemendurnar mínar eru eintómir snillingar. stórskemmtilegt fólk og ekki skemmir að þau eru drullusniðug upp til hópa. mig er reyndar farið að gruna að nokkur þeirra séu komin í beinan ættlegg af bibbu á brávallagötunni, enda flæða gullmolarnir uppúr þeim eins og þau fái borgað fyrir, sem er ekki.
ein tilkynnti okkur tildæmis um daginn að sessunautur hennar væri hræddur við loft. skömmu síðar kom í ljós að drengurinn var lofthræddur.
ég er farin að stelast til að skrifa hjá mér svona ,,best-of" lista...hér er byrjunin á honum:
tvær óstjórnlausar lestir rákust saman og mikil skelfing tók um sig. smátt saman róaðist þó fólkið en lögreglan talaði við lestarstjórana og svipti af þeim ökuleyfinu.
ég versla áfengið mitt í vínvörubúðinni.
kæru ræðugestir...
vinkona mín var með bólimíu...
stundum getur það hentað sér vel að prufureyna hlutina.
hér er ég með lykil sem ég man ekki hvað gengur að...en ég er búin að einka mér skáp.
nú og þá tók ég bara mál með vexti og reddaði hlutunum.

stundum velti ég fyrir mér hvort ég er eina manneskjan í stofunni sem virkilega tekur eftir þessu... en mikið assgoti langar mig oft til að skella uppúr. hef þó hemla á mér.

snillingar segi ég...eintómir snillingar...

Engin ummæli: