þriðjudagur, september 19, 2006

makinn er sá sem hefur lag á að láta mat smakkast vel á þessu heimili. hann er svo góður í því að ég er eiginlega farin að verða fyrir vonbrigðum á veitingastöðum eftir að fá trekk í trekk mun betri mat heima hjá mér.
eftir 13 ár af eldamennsku fékk hann skyndilega þá flugu í höfuðið að fara í verkfall í eldhúsinu í óákveðinn tíma og afhenti mér þar með lyklavöldin að því herbergi heimilisins sem ég hef hve minnsta þekkingu á. jújú, ég veit sosum hvar allt er og svoleiðis en hef lítið vit þar fyrir utan. svo ekki sé minnst á gífurlega takmarkað matvælalegt hugmyndaflug.
í vinnunni er fólk farið að vorkenna mér og lauma að mér uppskriftum, en það sem mig vantar eiginlega umfram það er tilfinning fyrir matargerð. ég skil ekkert í kryddum og man sjaldnast eftir að nota slíkt og ég hef eins og ég segi ekkert hugmyndaflug. í bónus snýst ég í hringi og reyni að láta mér detta eitthvað nýtt í hug, en gengur lítið.
hér með mæli ég með því að fólk reyni að veita börnum sínum einhvern grunn að matargerðarviti áður en þau leggja af stað út í heiminn. guð má vita að ég hefði haft gott af því að læra að gera fleira en spagettí og kjötbollur.

Engin ummæli: