mánudagur, mars 12, 2007

ég er búin að vera með verk í jaxli og kjálka síðan ég fór til tannlækis síðasta þriðjudag. í morgun gafst ég upp á hörkutólastælum, fór að gráta og hringdi í áðurnefndan lækni sem bað mig vinsamlegast að drífa mig bara til sín svo hann gæti kíkt á mig. svo fór ég til hans og settist í stólinn. lýsti mjög nákvæmlega öllum mínum kvölum og höfrungum og gapti svo uppá gátt. hann boraði holu í nýju fyllinguna (reyndar eftir að hafa deyft mig) og fór svo að stinga prjónum eða nálum eða pinnum eða einhverju dóti lengst ofaní gatið og núa svo í hringi eins og handvirkur bor ofaní tannrótina mína. deyfing virkar ekki í rótinni bara svona ef einhver var ekki með það á hreinu. ég fékk pot ofaní fyrirfram auma tannrót svo nísti í öllum mínum beinum, innyflum og hársrótum. nú og svo var það rót númer tvö og að lokum rót númer þrjú. hann sagði að ef ég hefði verið komin með rótarbólgu hefði sársaukinn verið mun meiri. best að fá aldrei rótarbólgu. öll mín samúð er hér með tileinkuð fólki með rótarbólgu og konum sem fæða börn. og fleirum svosem en það yrði kannski langur listi að telja allt upp, en þetta er svona það sem mér dettur fyrst í hug... nema hvað... svo fyllti hann götin af einhverju gúmmulaði og lokaði fyrir. nú er ég semsagt með dauða tönn. það skrýtnasta er samt að mér er ennþá illt. ekki jafn, en er sársauki í dauðri tönn ekki svipað og að vera illt í hárinu? frekar ómögulegt?

fyrir fólk sem er að velta fyrir sér ástæðu þess að ég sé með svona ónýta tönn þá er hún sú að hún fæddist gölluð. það segir tannlæknirinn minn og hann er bestur og veit allt. þetta hefur ekkert með kókdrykkju að gera, enda drekk ég kók bara með einni tönn. ég bursta alltaf rosa vel, nota tannþráð og munnskol. þetta er bara fæðingargalli. bara svo þið vitið það.... og ég bursta á mér tunguna líka. og hananú.

Engin ummæli: