sunnudagur, mars 04, 2007

eyddi fimmtudegi til laugardags við nám. eyddi laugardegi til sunnudags í veikt barn. mun eyða mánudegi í vinnu og veikt barn. veik börn eru vinna. veika barnið vinnur mig alltaf í spilum.
ég er þreytt á geði eftir þessa daga. ég get ekki annað en hlakkað til frískleika barnsins míns og þess að klára verkefnaskil og kennsluundirbúning næstu daga. við skulum bara segja að ég hlakki til í næstu viku. eða kannski bara hlakka ég til næsta fimmtudags. það er nær.
kannski hlakka ég bara til næstu nætur sem ég mun geta sofið í heilu lagi. hún kemur vonandi fljótlega. vonandi. kannski samt ekki fyrr en um næstu helgi. kannski ekki.
ég hlakka eiginlega bara til að fá að vera ein. í smá stund. það er nauðsynlegt að vera stundum ein. bara smá. það er lýjandi að hlusta á fólk allan daginn. alltaf.
kannski hlakka ég bara til þess að allir fari að sofa nema ég og líka þegar slökkt verður á sjónvarpinu. þá verður þögn. ég hlakka til þagnarinnar.
ég hlakka til þess að fá reglu aftur á dagana mína. regla er góð. stundum ekki. mig langar í bakpokaferð í kringum heiminn. ég hlakka til þegar ég kemst í svoleiðis ferð. ég hlakka til að hætta að skulda peninga. það veitir líka ákveðna ró. inní sálinni. það er óþægilegt að skulda. skuldir setjast í undirmeðvitundina og skapa óróa, svona seyðandi ósýnilegt stress. það er kannski þess vegna sem fólk verður þunglynt og allskonar skrýtið. nema þeir sem eiga allt og skulda ekkert. það eru fáir. verst fyrir þá að hafa ekkert til að hlakka til.

Engin ummæli: