fimmtudagur, mars 22, 2007


þetta er rassinn á dóttur minni sumarið sem við bjuggum á hverfisgötu.
ég vil fá svona veður aftur takk.
mig langar að hafa svona veður í 8-9 mánuði á ári. hina mánuðina má falla hlussulegur jólasnjór sem hægt er að hnoða í snjókall. ég þarf ekkert þar á milli. bara gott veður hlýtt eða gott veður kalt. vindur er óþarfi. rigning líka. ég þarf ekki mikið frost eða haglél. slabb er ónauðsynlegt með öllu. gola er fín, hún má vera.
er ekki einhvernvegin hægt að stilla mengunina og útblásturinn og hvað þetta allt heitir nú þannig að veðrið verði drullupasslegt allt árið? þarf alltaf allt að vera of eða van? í hæl eða hnakka? á tá og hæl? í sleggju og stein? í eyra eða ökkla? í fugl né fisk?
maður bara spyr sig...
ég væri svo hamingjusöm við svona fullkomnar veðuraðstæður vegna þess að ég lít alltaf mikið betur út í réttu veðri. þegar það er gott veður en snjór er ég voða krúttíleg svona í snjóbuxunum mínum fjólubláu sem ég fékk þegar ég var í kringum fermingu og í úlpu og með prjónahúfu og trefil og vettlinga og rautt nef og rauðar kinnar sem stingast út á milli húfunnar og trefilsins. hraustleg og glöð og útitekin.
þegar það er gott veður og sól fer ég í ljósu pilsin mín eða kálfasíðu buxurnar mínar og léttar rómantískar sumarblússur ef blússur má kalla. svo fer ég berfætt í opna sandala og tek hárið upp í tagl og verð örlítið brún eða bleik á húðina og þá njóta litir sín svo vel. hraustleg og glöð og útitekin.
við þessar aðstæður er ég uppá mitt besta þar sem ég spranga hamingjusöm um fröken reykjavík og sýg í mig fegurð um leið og ég dreifi hamingju minni um stræti og torg.

alla hina dagana, sem eru um 360 á ári fer ég bara í eitthvað af því að veðrið er bara einhvernvegin og ekkert er krúttílegt við neitt þar sem ég strunsa með andlitið ofaní brjósti til að reyna að forðast vindinn/haglið/rigninguna/frostið á leiðinni úr húsi í bíl eða bíl í hús. ekki hraustleg, ekki glöð og svo sannarlega ekki útitekin.

Engin ummæli: