föstudagur, maí 23, 2008

nú er ég aldeilis lifandi bit. ég var að fá bréf frá intrum justitia þar sem stendur ,,nú er málið orðið alvarlegt. lokaaðvörun!" meira að segja er upphrópunarmerki. í bréfinu er mér hótað lögfræðiinnheimtu og leiðindum frá og með tuttugasta og áttunda þessa mánaðar. forsagan er sú að sonur minn æfði fótbolta fyrir langa löngu en ákvað að hætta og fara að æfa körfubolta. við létum bara vita af því og allt í góðu. svo fórum við til útlands eins og glöggir muna. eftir að við komum heim fékk ég rukkunarbréf fyrir æfingagjöldum í knattspyrnudeildinni. ég lét vita að þetta væri misskilningur vegna þess að rúmt ár var liðið síðan drengurinn hætti að æfa.
líður nú og bíður og fyrir nokkru fékk ég aftur harðort bréf frá rukkunarfyrirtækinu. ég hringdi enn og aftur og bað um að losna við skrattann atarna. og svo andaði ég rólega. þangað til í dag. nú er ég alveg að verða komin með intrum uppí kok. ég hringdi aftur í knattspyrnudeildarfjandann og bölsótaðist á afar kurteislegan hátt, enda ekki vön því að ráðast munnlega á fólk. ekki líkamlega heldur ef útí það er farið...
og svo skrifaði ég tölvupóst. mikið vona ég innilega að þeir troði blessaðri skuldinni þangað sem sólin eigi skín enda þykja mér svona hlutir með endemum ergjandi og viðurstyggilegir.
svo er það bara júrópartí á morgun.

Engin ummæli: