þriðjudagur, júní 28, 2005

þú hér?
merkilegt hvað þessi árstíð ruglar mínu annars skipulagða rútínueðli. og ég sem er ekki einu sinni komin í frí.

ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ég sé nokkuð bloggari lengur þar sem starfsemin er svo til hætt að vera fastur hluti tilveru minnar. að auki hef ég þjáðst af krónískum hugmyndaleysiskomplex undanfarna mánuði og fæ hreinlega ekkert upp í höfuðskelina þegar ég sest niður til þess að skrifa.
ég hef til að mynda ekkert horft á sjónvarp í lengri tíma og hef þar af leiðandi enga skoðun á því sem þar fram fer. sá td. aldrei allt í drasli, hef ekkert séð af hemma gunn síðan hann var grafinn upp aftur, veit ekkert um silvíu nótt, sirkus eða brúðkaup sumarsins. ég les reyndar alltaf bæði blöðin sem ég fæ ókeypis inn um lúguna hjá mér (nema fréttablaðið um helgar því ég virðist vera í einhverskonar fréttablaðshelgarstraffi, fæ það bara á virkum dögum), og svo er forsíðu dv og glanstímaritanna þröngvað uppá sjónsvið mitt þegar ég stend í biðröð í bónus. þar fæ ég gloppótta innsýn í líf bubba og fleiri. heildarmyndin fer annars eftir því hversu oft ég þarf að gera innkaup. (ég versla ekki - nota bene, því pabbi minn segir að kaupmenn versli, viðskiptavinir kaupi). (já og það er engin vél í ristavél sem ætti þar af leiðandi að heita brauðrist). (já og mér er sagt í vinnunni að það sé rétt að segja góðan dag, en góðan daginn sé vitleysa). (já og svo á að segja hafa gaman af og að gefnu tilefni).
nema hvað, ég hef ósköp litla skoðun á gangi lands, þjóðar og umheims þessa dagana. er meira með nefið í eigin nafla (ekki þó bókstaflega), og reyni að vera jákvæð og bjartsýn á sumarið þrátt fyrir endalausa vætutíð.
reyndar er ég alvarlega farin að velta fyrir mér að fara á stúfana og setjast að á stað þar sem meðalárshiti er um og yfir 20 gráðum á selsíus. það er að hluta til vegna þess að eftir því sem árin færast yfir virðast þau líða hraðar og hér á landi er allt of stutt á milli vetra. ég er ekki fyrr búin að hreinsa snjógallana úr fatahenginu en það er kominn tími til að rífa þá upp aftur. hvað þá ef mig langar að hætta á að vera úti í náttúrunni þó svo að um sumarmánuð sé að ræða.
béskotans vitleysa. mín lund er léttust þegar heiðskýrt er úti og hlýtt. hvað þá ef hitinn helst langt framá nótt. þá er ég í s-inu mínu. engisprettusöngur setur svo punktinn yfir i-ið. mig langar að búa á stað sem byrjar á s-i og endar á i-i. og þá á ég ekki við á sauðárkróki, stykkishólmi, stöðvarfirði, seyðisfirði eða í sætúni.
adiós amigos.

laugardagur, júní 25, 2005

kannski alveg þess virði að reyna.... ég skrifaði allavega undir á www.one.org

miðvikudagur, júní 22, 2005

fékk þagnarkvörtun frá þórði... ég er hérna ennþá.
var að enda við að fá staðfestingu á því að ég er hreint ekkert svo slæm í kennslumálum. svei mér þá ef ég komst ekki bara í enn betra skap en ég var í fyrir, sem var þó ansi gott.
nema hvað, nú er það að frétta að frumburðurinn svífur seglum þöndum í átt að fyrrum heimaslóðum keikós heitins þar sem hann (frumburðurinn en ekki keikó) mun sparka tuðru ásamt hundruðum ef ekki þúsundum jafnaldra sinna í litríkum íþróttatreyjum og stuttbuxum. það verður gaman hjá honum. mesta spennan fyrir mig verður þegar ég fer að taka uppúr töskunum hans á mánudaginn því þá mun ég sjá hversu hárri prósentu farangursins hann hefur gleymt/týnt/skemmt.
svo er það að frétta að hér heldur skólastarf áfram sökum hraða og fríið ekki enn í sjónmáli á þessum bænum. hinsvegar er ég mjög glöð að stór hluti samstarfsfólks sé á leið í frí á undan mér vegna þess að ég er að því komin að byrja að sparka í sköflunga ákveðinna aðila.
mér þykir alltaf jafn skrýtið að til skuli vera fólk sem meðhöndlar lífið með endalausu kvabbi, kvarti og nöldri, neikvæðni og pirringi. mér þykir alltaf jafn leiðinlegt að umgangast svoleiðis fólk og hvað þá að vera innilokuð með slíku fólki tímunum saman.
jæja, komið er að hlustunarprófi....
sjáumst sem fyrst.

föstudagur, júní 17, 2005

föstudagur, júní 10, 2005

jæja, aðeins minna að gera í dag. þetta er allt að koma...
ég lét nemana horfa á konur á barmi taugaáfalls í morgun. semsagt bíómyndina eftir almodovar. nú þegar ég hugsa um það hefði sannarlega verið gaman að geta bókstaflega látið þau horfa á konur á barmi taugaáfalls, en ég er svosem ekki alveg viss hvaða konur ég hefði getað beðið um að mæta.
nema hvað, myndin er frá áttatíuogeitthvað og það sést á henni. en hún er samt skemmtileg. þó get ég ekki sagt að allir átjánárakrakkarnir hafi verið sammála mér. ég býst eiginlega frekar við því að þau telji kvikmyndasmekk minn og húmor frekar slappan, svo ég taki vægt til orða.
það er reyndar alveg satt, sé miðað við húmor og kvikmyndasmekk almennt hjá átjánárakrökkum. en þó eru til undantekningar og það eru þeir sem verða uppáhaldsnemarnir mínir af því þeir kveikja á perunni og glotta á réttum stöðum.
mér þykir mjög vænt um glott. glott eru skemmtileg. bara orðið eitt og sér segir mikið um hvað glott eru frábær. glott. eitt glott, mörg glott, glott er flott og mikið gott lottu skott. ó já.
það er smá föstudagur kominn í frúnna. eða er ég frúna? frúna mína, frúnna minna. já, frúna átti ég við.
seisei.

hvað varð um bílasölu guðfinns?

mánudagur, júní 06, 2005

samkvæmt verkefnalista sem blekið er ekki enn þornað á, sem ég var semsagt að enda við að gera, mun ég ekki hafa tíma til annars en að vinna þessa vikuna.
þar af leiðandi set ég yður á hakann og hlakka til að sjá ykkur sem fyrst.

og hananú.

föstudagur, júní 03, 2005

tölvan mín vaknaði hress og kát í morgun, eins og enginn hafi í hana skorist. mikið létti það á mínu hjarta og lund sem var á við hund þó ég hafi farið í sund og léttst um hálft pund eins og sprund sú sem við hlið mér stóð eftir síðasta fund þar sem ég gat ekki orða bund-
ist og fékk mér blund í stað þess að drekka bölvað glund-
ur sem boðið var uppá þessa stund þar sem rætt var um heimanmund. (ég ætla ekki að skrifa brund því mér þykir það ekki við hæfi á svona siðsamlegri bloggsíðu).

makinn minn er líka kominn heim. það er gott nema þegar hann missir pissudropa á gólfið fyrir framan klósettið. en það verður víst ekki á allt kosið.
þeir pissa sem drekka sagði máltækið... rapparinn sagði þeir pissa sem drekka mannvitsbrekka þeir engan dissa sem að verða aldrei hissa er þeir missa frá sér vitið en ekki skitið hvernig er á það litið jó jó jó.

jamm... í kvöld er árshátíð nemanna skólans míns. okkur gamla fólkinu er boðið með. það voru kosningar. ég komst ekki á lista yfir 5 vinsælustu kennarana af 10 sem segir mér að ég sé í mesta lagi í 6 sæti og þá eru ansi margir óspennandi karakterar með mér í flokki. ég komst heldur ekki í efstu 5 sæti um kynþokkafyllsta starfsmanninn. ég er hinsvegar ekki alveg viss hvað mér á að þykja um þá staðreynd...
mér þykir skrýtið að tengja saman kennslu og kynþokka...en mannfræðingurinn í mér segir mér að þetta sé eiginlega frekar merki um tímana sem við lifum á en annað, það skiptir greinilega miklu máli fyrir unga fólkið að finna kynþokka.
á meðal nemenda er valið um fallegasta fólkið,kynþokkafyllstu nemendurna, flottasta rassinn, höstler ársins, mesta krúttið, fallegasta brosið (og svo nokkra neikvæðari flokka eins og kennarasleikja ársins oflr.). en í miklum meirihluta eru kosningar um útlitsfegurð og kynþokka.
ég man eftir herra og ungfrú hólabrekkuskóla en ekki kynþokkatitlum...
eða man ég illa?

fimmtudagur, júní 02, 2005

ég er ekki góður kennari. ég kann ekki að skamma fólk, ég kann ekki að segja nei, ég ber of mikið traust til ókunnugra, ég trúi að aðrir eigi að hafa dómgreind til að halda kjafti þegar almenn skynsemi kallar á þögn, ég verð sorgmædd yfir áhugaleysi, ég þoli ekki málfræðiheiti og ég kann enga kennslutækni.

í öðrum álíka upplífgandi fréttum er það helst að ég er einhverra hluta vegna að steypast út í bólum á fésinu. gæti verið að ég sé að smitast af unglingaskrílnum... ekki hjálpar til að mér tekst ekki að afgosdrykkja mig.

já, og ég er ekki heldur góð móðir. á laugardaginn borðuðu börnin mín kalda pizzu á körfuboltamaraþoni, á sunnudaginn borðuðu þau bragðlausan fisk, á mánudaginn fengu þau afganginn af bragðlausa fiskinum, á þriðjudaginn borðuðu þau (eða ekki) ofkryddaðan kjúkling og í gær dró ég þau í drekann að éta hamborgara og franskar.
ef ég væri raunverulega einstæð ættum við sennilega öll við offituvandamál að etja.

svo ég haldi nú áfram með góðu fréttirnar gerðist það í morgun að ég sullaði vatni yfir lyklaborðið á tölvunni minni með þeim afleiðingum að það er enn slökkt á henni. nú er ég semsagt við lánstölvu. í tölvunni minni eru öll gögnin sem ég ætlaði að vinna með í dag, skyndiprófið sem átti að vera tilbúið fyrir morgundaginn og tónlistin sem ég ætlaði að nota með hlustunaræfingunni.

einhverra hluta vegna er ég ekkert rosalega hress og skemmtileg ákkúrat í augnablikinu.

miðvikudagur, júní 01, 2005

for-dómar = að dæma fólk fyrirfram, semsagt án þess að þekkja það, útfrá fyrirframgefnum hugmyndum um staðalímyndir fólks úr ákveðnum hópi. þarf ekki endilega að vera áfellingardómur, bara dómur svona eins og dómgreind, dómur-að gera sér einhverja ákveðna hugmynd um eitthvað án þess að vita.

eníhús, ég er farin í sund.