þriðjudagur, júní 28, 2005

þú hér?
merkilegt hvað þessi árstíð ruglar mínu annars skipulagða rútínueðli. og ég sem er ekki einu sinni komin í frí.

ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ég sé nokkuð bloggari lengur þar sem starfsemin er svo til hætt að vera fastur hluti tilveru minnar. að auki hef ég þjáðst af krónískum hugmyndaleysiskomplex undanfarna mánuði og fæ hreinlega ekkert upp í höfuðskelina þegar ég sest niður til þess að skrifa.
ég hef til að mynda ekkert horft á sjónvarp í lengri tíma og hef þar af leiðandi enga skoðun á því sem þar fram fer. sá td. aldrei allt í drasli, hef ekkert séð af hemma gunn síðan hann var grafinn upp aftur, veit ekkert um silvíu nótt, sirkus eða brúðkaup sumarsins. ég les reyndar alltaf bæði blöðin sem ég fæ ókeypis inn um lúguna hjá mér (nema fréttablaðið um helgar því ég virðist vera í einhverskonar fréttablaðshelgarstraffi, fæ það bara á virkum dögum), og svo er forsíðu dv og glanstímaritanna þröngvað uppá sjónsvið mitt þegar ég stend í biðröð í bónus. þar fæ ég gloppótta innsýn í líf bubba og fleiri. heildarmyndin fer annars eftir því hversu oft ég þarf að gera innkaup. (ég versla ekki - nota bene, því pabbi minn segir að kaupmenn versli, viðskiptavinir kaupi). (já og það er engin vél í ristavél sem ætti þar af leiðandi að heita brauðrist). (já og mér er sagt í vinnunni að það sé rétt að segja góðan dag, en góðan daginn sé vitleysa). (já og svo á að segja hafa gaman af og að gefnu tilefni).
nema hvað, ég hef ósköp litla skoðun á gangi lands, þjóðar og umheims þessa dagana. er meira með nefið í eigin nafla (ekki þó bókstaflega), og reyni að vera jákvæð og bjartsýn á sumarið þrátt fyrir endalausa vætutíð.
reyndar er ég alvarlega farin að velta fyrir mér að fara á stúfana og setjast að á stað þar sem meðalárshiti er um og yfir 20 gráðum á selsíus. það er að hluta til vegna þess að eftir því sem árin færast yfir virðast þau líða hraðar og hér á landi er allt of stutt á milli vetra. ég er ekki fyrr búin að hreinsa snjógallana úr fatahenginu en það er kominn tími til að rífa þá upp aftur. hvað þá ef mig langar að hætta á að vera úti í náttúrunni þó svo að um sumarmánuð sé að ræða.
béskotans vitleysa. mín lund er léttust þegar heiðskýrt er úti og hlýtt. hvað þá ef hitinn helst langt framá nótt. þá er ég í s-inu mínu. engisprettusöngur setur svo punktinn yfir i-ið. mig langar að búa á stað sem byrjar á s-i og endar á i-i. og þá á ég ekki við á sauðárkróki, stykkishólmi, stöðvarfirði, seyðisfirði eða í sætúni.
adiós amigos.

Engin ummæli: