í dag átti ég mjög sérstaka stund. þegar sólin var að setjast fór ég að fyllast einhverri einkennilegri tilfinningu. núna er klukkan orðin margt og ég er hreinlega að springa.
ég er ekki alveg viss hversvegna.
áðan sat ég ein og horfði í kringum mig. heyrði fallegt lag í fjarska. svo horfði ég á fólk sem var upptekið af því að vera með vinum sínum, fjölskyldu eða mökum. sumir voru að kynnast. aðrir voru á ferðalagi. þau voru öll gestir á litla sæta veitingastaðnum mínum og það gerði mig stolta móður.
og ég fékk kökk í magann. skrýtinn fiðring í brjóstið og langaði mest til að gráta. ég var samt ekki beint döpur. mér fannst allt vera svo fallegt. ég var svo glöð að búa í svona lítill sveitaborg þar sem fólk treystir hvert öðru. mér fannst fólk vera svo falleg fyrirbæri. og þar sem ég sat þarna var ég algerlega að springa úr.... ást.
það er langt síðan mér hefur liðið svona. þegar tilfinningarnar komast varla fyrir í líkamanum og mér líður eins og ég komist ekki fyrir í sjálfri mér.
það sem framkallaði þó tárin var að ég var ein. alein. mig langaði svo mikið að vera elskuð. að einhver kæmi aftanað mér að ástæðulausu og kyssti mig á hálsinn. snéri mér svo við og leyfði mér að kyssa sig og faðma. fá að týnast í einhverjum.
en enginn kom.
og núna er ég með fullan maga af ást sem ég veit ekkert hvað ég á að gera við.
ætli mér líði kannski eins og manninum sem kom að mér á miðjum gatnamótum í gær og bað mig um að búa með sér? ég stóð á eyju á miðri snorrabraut þegar hann stöðvaði mig og sagðist vera stoltur af mér. hann var 65 ára, faðir þriggja dætra og nýbúinn að missa konuna sína. var líka aðeins búinn að fá sér í glas.
hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann væri líftryggður fyrir 34 milljónir og ég gæti fengið allan peninginn, hann hefði verið á breiðuvík og að mér væri frjálst að slá mér upp með hverjum sem væri svo lengi sem ég væri bara góð við hann þegar ég kæmi heim. og svo faðmaði hann mig. algerlega ókunnugur maðurinn. ég veit ekki einu sinni hvað hann heitir.
kannski var þetta atvik bara til þess að bæta í tilfinningahnykilinn sem er búinn að vera að safnast í maganum á mér undanfarið.
í hnyklinum leynist samúð, væntumþykja, höfnunartilfinning, ást, þrá, von, þreyta, gleði, dapurleiki, söknuður, reiði, leiði, hamingja og stolt.
en einmitt núna langar mig bara í ást. að gefa hana í sinni hreinustu mynd og fá það sama til baka. algerlega laust við allt hitt. engar flækjur. ekkert vesen.
er von að mig langi til að gráta?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli