mánudagur, júlí 18, 2005

ég er með risastóran marblett á handleggnum. bæði fyrir ofan og neðan olnboga.
það er sko frekar lágt til lofts í kjallaranum hjá mér og ég var stödd af einhverjum orsökum inni á baði (sem er í kjallaranum), ásamt makanum. nema hvað, ég fékk þessa góðu hugdettu að hefja meting um hvort okkar gæti sparkað hærra upp í loft, enda fullviss um að ég sjálf hefði ekkert stirðnað síðan ég horfði á karate kid hérna um árið og æfði karatespörk í allar áttir. nema hvað, makinn, sem er um 7 sentimetrum hærri en ég byrjaði leikinn og sparkaði ansi hátt. innra með mér glotti karate krakkinn gamli góði þar sem ég hysjaði upp um mig gallabuxnaskálmarnar og gerði mig tilbúna fyrir hið svakalegasta spark sem nokkurntíman hefði sést norðan alpafjalla. gott ef ég var ekki farin að hafa nettar áhyggjur af því að gera gat í loftið... nema hvað, þegar ég vippaði hægri fótlegg af öllu afli í átt að halógenljósinu átti sá vinstri við ofurefli að etja og ákvað að vera ekkert að hafa of langt bil á milli þeirra bræðra þannig að hann fylgdi á eftir. það segir sig svo sjálft að tveir fótleggir á sömu manneskju á leið upp í loft gera fátt annað en að kippa öllum stuðningi og jarðtengingu undan öðrum hlutum líkamans. og ég skelltist ásamt öllum mínum kílóum í gólfflísarnar en lappirnar stóðu eftir upp í loft.
á svona augnablikum er erfitt að ákveða hvort skuli gráta eða pissa í sig úr hlátri. ég gerði svona nokkurnvegin bæði. í einu.
og nú er ég með marblett stóran og feitan og fjólubláan.
alveg magnað hvað hægt er að upplifa svona móment hægt.

Engin ummæli: