fimmtudagur, september 29, 2005

vinsamlegast lesið sexy sportacus þráðinn og látið mig vita hvaða ykkur sýnist.....muahahaha.....
http://www.nickjr.com/home/messageboard/viewboard.jhtml?bID=2112
jæja, þá líður að því að makinn yfirgefi oss, eins og hross. hryssan mun sitja ein eftir með sár á enni eða sárt enni og tvö folöld. hvort kom á undan, ísöld eða folöld?
nema hvað, ég óska hér með eftir vorkunn og miskunn og einkunn og forkunn svo sem væri ég einstæður faðir eða svokallaður grasekkill. grasekill er sá sem ekur á grasi eða sá sem reykir gras áður en hann heldur af stað út í umferðina.
ég geri mér hins vegar ekki fulla grein fyrir tilgangi þess að hafa gras með í ekkju/ekklastöðu tímabundiðyfirgefinna maka.
nema hvað, makinn leitar á heimaslóðir sökum framtíðardrauma, nostalgíutilfinningar og matgræðgi.
svo fær hann vonandi fljótt leið á heimalandinu og snýr aftur hingað sem við samlandar köllum heim, þangað sem vindurinn syngur fögur vögguljóð og spilar á ruslatunnulok, opin hlið og laust drasl í nýbyggingum. þangað sem vingjarnlegur faðmur vetrarkonungs klípur í kinn og strýkur öll bein á meðan frostrósaskreytt farartæki bræðir af sér vélarhrímið í morgunsárið.
ég gef honum tvær vikur og hann verður kominn aftur grátbiðjandi um myrkur og beinaskjálfta.

heppin ég að fá að vera eftir með börn og buru....
einkunn, miskunn, vorkunn, forkunn.

miðvikudagur, september 28, 2005

var að fatta (langur fattari sko) að hún tinna ævars klukkaði mig líka. ég fyllist stolti yfir því að vera tvíklukkuð hehe..... en ég er semsagt búin með tvo lista þannig að þetta ætti allt passa eins og smurt við rass.

þriðjudagur, september 27, 2005

tengdamóðirin lá í slökun á gólfinu með pínulitla bastkörfu á nefinu, einhverra hluta vegna. síðburðurinn kraup í uþb meters fjarlægð og var að dunda sér með borða í mexíkönsku fánalitunum. eitthvað höfðu koppaferðir farið fyrir ofan garð og neðan hjá þeirri litlu svo að það varð slys. hún gólaði vansældarlega á mig, móður sína, og vorkenndi sjálfri sér sökum pissubleytu. ég lyfti þeirri stuttu upp af gólfinu, skóf af henni blauta neðanklæðnaðinn og þurrkaði henni frá mitti til táar.
tengdamóðirin lá sem fastast og bastkarfan haggaðist ekki.
að loknum þurrkstörfum snéri ég mér á ný að þeim verkum sem ég hafði verið að sinna pre-piss og sú stutta skipti á borðanum og nýju áhugamáli.
og tengdamóðirin lá.
einum tíu mínútum síðar átti ég leið framhjá brúnu konunni í rauðu flíspeysunni (þ.e. tengdó) og gerði ég mér þá grein fyrir ástæðu þess að pissupollurinn sem ég þurkkaði upp hafði verið svona óhemju lítill og nettur.
ástæðan var sú að ég bý í tæplega hundrað ára timburhúsi í miðbæ reykjavíkur þar sem varla er hægt að gera ráð fyrir óhallandi gólffleti. af sömu ástæðu hafði megnið af pissinu breytt sér í litla lækjarsprænu sem smeygði sér ósköp dúllulega undir flískragann og inní hárgelið og niður undir bak tengdamóðurinnar.
hún hafði ekki orðið vör við neitt þar til hún sá mitt stóra rauða andlit fast í hláturgrettu beint yfir henni. þá reis hún upp og fann skyndilegan kulda færast yfir höfuðleður og bak sitt þar sem þvag dóttur minnar hafði tekið sér bólfestu.

og þá varð kátt í höllinni....

mánudagur, september 26, 2005

listi nr.2:
1. mér finnst gaman að skrifa svona lista um sjálfa mig en þykir þó ögn vandræðalegt að troða listum uppá annað fólk þannig að við svona tækifæri brjótast um í mér tilfinningar sem gera það að verkum að mig bæði langar og langar ekki til að gera annan lista.
2. ég tel mig vera mannþekkjara og held oft að ég sjái auðveldlega í gegnum fólk, þ.e. hverskonar týpur það er, en samt finnast mér flestir vera fínir þegar ég kynnist þeim og það þarf oft góðan slatta af óverdósi til þess að einhver fari virkilega í taugarnar á mér.
3. mig langar til að vera ódauðleg og ég er óhemju hrædd við dauðann. ég fæ stóran sting í magann þegar ég hugsa til þess að dagur dauða míns muni renna upp. sömuleiðis fæ ég stinginn þegar ég hugsa um mína nánustu.
4. ég skrifaði einusinni fullt af ljóðum en er hætt því í seinni tíð. ljóðræni neistinn er eitthvað slappur. einu sinni þegar ég var í tónmenntatímum í effbé, (fjölbraut breiðholti) skrifaði ég alltaf litla ljóðabók í hverjum tíma og skildi hana eftir á ofninum við hliðina á borðinu mínu. svo ímyndaði ég mér rómantískar sögur um manneskjuna sem fyndi ljóðin eftir dularfulla skáldið. litlu ljóðabækurnar voru alltaf horfnar í næsta tíma en í seinni tíð er mig farið að gruna ræstingafólkið og ruslatunnuna.
5. ég á óskaplega erfitt með kveðjustundir og er haldin kveðjufælni. ég græt jafn auðveldlega yfir kveðjustundum og ég geri yfir auglýsingum og bíómyndum. ég hef þó reynt að losna við þetta með því að grisja út sambönd við fólk sem ég hef í raun og veru hvorki gagn né gaman af að umgangast og þá leysi ég það einfaldlega með því að hverfa án þess að kveðja.

6. kveðjufælni mín og listaskrifanautn gera það að verkum að mér þykir sárt að þurfa að hætta að skrifa listann minn.....

föstudagur, september 23, 2005

ó, átti ég að segja frá fimm hlutum sem fáir/enginn veit um mig? því þá gerði ég vitlaust.....

miðvikudagur, september 21, 2005

ókey, þórdís sagði klukk við mig í kommentakerfinu mínu og eftir að hafa grennslast fyrir um þýðingu þessa klukks hef ég komist að því að mér er ætlað að láta í ljós fimm atriði um sjálfa mig.
skal gert:
1. ég borða ekki túnfisk, ólífur eða þorramat og drekk hvorki kaffi né rauðvín.
2. ég fæ niðurgang úr spenningi vegna ferðalaga eða stressi vegna ósættis og rifrilda.
3. ég er með hálfa framtönn úr plasti eftir að fá skíðalyftu í andlitið í austurríki 12 ára að aldri.
4. ég kann ekki að elda og finnst ekkert gott sem ég geri nema kökur. ég er líka lélegur föndrari.
5. ég er ógeðslega kaldhæðin og get verið algjör skítalabbi, en samt þarf ekki meira en ungbarnatær í sjónvarpinu til og þá er ég komin með gæsahúð og tár í augun. en í raun grenja ég meira yfir sjónvarpsefni heldur en raunveruleikanum því að í honum er ég barasta ansi hreint ánægð og kátur karakter.

og hananú.

klukk Lóa.

mánudagur, september 19, 2005

og enn túristast ég... nú liggur leiðin í lónið bláa þar sem hárlufsur svamla á milli tánna og höfuðleður breytist í strý. en strý varð ekki troðið nema stebbi træði strý. eintreður stebbi strý, tvítreður stebbi strý... og svo framvegis. sem minnir mig á það... langt síðan ég hef heyrt í honum stebba blessuðum.

jæja, það er víst verið að bíða eftir mér....... farin að tala á spænsku.
hasta la vista

miðvikudagur, september 14, 2005

lá í bleyti með tengdamóður og tengdamóðursystur og maka í einar þrjár klukkustundir í gær. ég er ekki vön slíkri langlegubleytu, en það var gaman.
þær áttu óskaplega erfitt með að losa um hömlur sínar og vaða berrassaðar í sturtu, en slepptu sér að lokum og berrössuðust með mér um ganga laugardalslaugarbúningsklefanna.
nema hvað, þegar mér hafði rétt svo tekist að sannfæra þær um ágæti þess að striplast innanum ókunnugar konur hittum við ekki nema hana ömmu mína berrassaða með sundhettu. hún var hin kátasta að kynnast kerlingunum mínum og kyssti þær og faðmaði. mér sýndist á svipnum á þeim að þeim hafi þótt fundurinn ansi hreint óþægilegur.
ég brosti bara og naut súrrealisma augnabliksins. hehehe..... pomm pomm pomm...

já og svo komst ég að því að tengdamóðir mín hefur síðustu tvær vikur klínt sig alla út í hárnæringu á hverjum degi því hún kláraði aldrei að lesa á umbúðirnar og hélt að hún væri með body-lotion í höndunum....hahahahahaha....og svo var hún voða ánægð með hvað húðin á henni varð stinn og stíf af nýja kreminu ..... hahahahaha... sniff ....hehe...púff... ha ha ...

fimmtudagur, september 08, 2005

ég spyr mig hvaða heilvita hálfvita dettur í hug að birta fullt nafn bloggara sem skrifar ekki undir fullu nafni? og það í dje vaff!
jújú blogg eru á internetinu og þar af leiðandi opinber og aðgengileg hverjum sem vill, en litlum blogglingum sem langar bara að vera memm í að ruglumbulla og eignast kannski í leiðinni smá hóp af svipað nafnlausum eða nafnlitlum félögum og kunningjum undir huliðshjálmi internetsins, ætti að leyfast að halda sínu heil- eða hálf nafnleysi.
ég get sem dæmi nefnt sjálfa mig, en þeir sem vilja geta auðvitað komist að því hver ég er og ýmsir vita það líka. þar með er þó ekki sagt að ég hafi áhuga á því að hver sem er komist í tæri við síðuna mína og hefur mér blessunarlega tekist að sneiða hjá því að bókstaflega allir sem vita hver ég er séu að lesa þetta krafs mitt, enda hef ég ekkert sérstaklega verið að auglýsa að ég sé að blogga.
en jæja, það verður víst ekki á allt kosið.

en í öðrum fréttum langaði mig til að segja frá því að í gær fór ég til heimilislæknis. ástæðan fyrir förinni var sú að ég ætlaði að fá beiðni til að geta farið til sjúkraþjálfara sem mun vonandi á mánudaginn losa um þá tvo hryggjarliði mína sem eru víst eitthvað fastir. þá get ég líka vonandi hætt að væla yfir því að vera illt í bakinu.
nema hvað, þar sem ég fer mjööög sjaldan til læknis útaf sjálfri mér ákvað ég að nota tækifærið og fá ýmiskonar smyrsl og dótarí til að losna við nokkur lítil vandamál sem hafa fengið að malla án þess að ég hafi haft sérstaklega fyrir því að heimsækja lækni vegna þeirra. sem dæmi má nefna krónískt sár í nefinu þegar kólna tekur (gen frá pabba), bólur þegar ég byrja á túr, áratugagömul varta á hæl sem vörtuplástrar hafa ekki virkað á og dularfull bóla á rasskinn hægri. (gaman að segja frá því...)
nema hvað, heimilislæknirinn minn er eins og einhverntíman áður sagði aldrei við, svo að ég lenti hjá enn einum staðgenglinum. hann reyndist ekki vera stóri krúttbangsinn sem ég fór með makann til (sælla minninga), heldur var þetta drengur á aldri við mig, jafnvel nokkrum árum yngri, nýútskrifaður og í þokkabót bara hreint ansi laglegur ef ekki bara sætur.
hann bauð mig velkomna og ég settist á móti honum við skrifborðið og hann setti sig í læknastellingar og ég í sjúklingsstellingar. ,,jæja, hvað er svo hægt að gera fyrir þig?" spurði hann. ,,tjaaa...sko, mér er illt í bakinu...." (og svo fylgdu nánari útlistingar á því vandamáli). eftir að það hafði verið leyst var ég víst einhverstaðar á leiðinni búin að gubba því útúr mér að ég ætti við fleiri vandamál að stríða sem ég vildi láta hann skoða, þannig að eftir baklausnina spurði hann mig hver hin vandamálin voru. þá hrökk mín dama í baklás og renndi á ljóshraða í huganum yfir listann sem ég hafði ætlað að láta hann laga og ritskoðaði hann all svakalega.
ef hann hefði verið miðaldra karl, nú eða kona á hvaða aldri sem var, eða óhugnalega ljótur jafnaldri minn hefði ég að öllum líkindum rifið mig úr sokknum og skellt vörtunni uppá borð, ýtt nefinu upp til að sýna innviði nasa minna, girt niður brókina til að ljóstra upp um rassabóluna og fleira.... en ég bara fór að stama og roðna og breyttist í heilalausan hálfvita þar sem ég ældi útúr mér ,,nei, bara ég fæ sár í nefið þegar það er kalt úti en ekkert meira...".
ég kom heim með beiðni til sjúkraþjálfara, lyfseðil fyrir sterakrem í nös, vörtu á hælnum, bólu á rassinum og túrbó. (sem er sko stytting á túrbólur)

það ætti að banna sæta stráka á heilsugæslustöðvum.

þriðjudagur, september 06, 2005

síðburðurinn orðin priggja síðan á laugardaginn og frumburðurinn fyllir sinn fyrsta tug í dag. hann á allt nema alla playstation leiki í heimi. hann vantar ennþá mikinn meirihluta þeirra. heiladauðir foreldrar fjárfestu þar af leiðandi í einum nýjum í safnið. sú yngri var mun auðveldari í gjafameðförum, enda vilja priggja ára tröllaprinsessur oft vera það.
á eftir mun heimili mitt fyllast af karlkyninu í bekk frumburðarins og er þar um að ræða töffaraher mikinn. bónushamborgararnir, bónussnakkið, gosið og skúffukakan sem ég töfraði fram úr ermunum í gærkvöldi bíða átekta og áfergju þeirrar sem mun að öllum líkindum verða þeim aldurtila (það er að segja veitingunum). til að vernda dreggjar geðheilsu okkar skötuhjúa fjárfesti ég í plastglösum, plastdiskum, plasthnífapörum og einnota servíettum. (ekki það að ég hef svosem aldrei átt annað en einnota servíettur...en það er önnur saga).

annars er bara allt gott að frétta. mexíkanaparið úr heimsókn hinni fyrri er farið heim í sólina og nú er vika í næsta mexíkanapar sem samanstendur af tengdamóður vorri og systur hennar sem eru í miðaldrahúsmæðraorlofi, nú staddar í le paris. þær eru víst frelsinu fegnar og mér skilst að þær stefni á svakalegt þjóðhátíðarpartí á heimili mínu þann 15. þessa mánaðar (þjóðhátíðardagur mexíkó) og ég sé fram á að föndraðar verði piñötur og allt. (til að skrifa orðið piñötur þarf ég að breyta lyklaborðinu mínu úr íslensku yfir í spænsku og svo strax aftur í íslensku til að fá ö), það er ýmislegt á sig lagt fyrir alþjóðlegu stafsetninguna skal ég segja ykkur... en ég nenni semsagt ekki aftur að skrifa þetta orð.

eins og sést eru stöðug jól á heimili mínu þessa dagana, enda fengum við fyrst gjafir frá mexíkönum 1 (mági mínum og svilkonu með kaupæði), svo fóru þau til parísar og komu aftur með fleiri gjafir handa okkur. nú svo voru gefnar gjafir á afmæli burðar nr. 1 og svo aftur í dag í afmæli nr. 2, og þá er bara eftir að klára þriggja kílóa m&m pokann og skúffukökuna og mexíkanska chili-nammið og sterku sósurnar áður en næsti skammtur kemur í hús á þriðjudaginn næstkomandi (ásamt meðfylgjandi gjafaflóði þeirrar heimsóknar). nú þegar þær fara heim verður orðið stutt í afmæli mitt og makans í nóvember, og þá koma jólin...
ætli ég sleppi ekki öllum tilraunum til að fækka kílóum fram yfir áramót, þetta lítur hreint ekki svo vel út.

púff

fimmtudagur, september 01, 2005

unaður

http://middlekingdomstories.blog-city.com/crazy_subtitles_home.htm
jón nuddari sagði að vandamálið væri í mjöðmunum á mér. er hann lét orð sín falla hrundi haugur af dauðum lúsum úr höfði mér. þá var ég svo aldeilis hlessa þar sem ég lá eins og klessa. svo potaði hann og kleip orðum sínum til stuðnings og ég lá með andlitið í gati þar sem ég umlaði og gargaði ofaní ilmandi nuddstofuhandklæðið. án þess að hafa hugmynd um það var ég í raun og veru aumari í rasskinnum efri heldur en nokkurntíman í bakinu sjálfu. bakið er bara birtingarmynd slæmra setustellinga og fótleggjakrossunar og almennrar mjaðmaskekkju af mínum eigins völdum.
,,svona eins og þegar viftuspaðinn í bílnum þínum hættir að virka þá er það kannski ekki vegna þess að spaðinn sjálfur er ónýtur heldur er bíllinn kannski bensínlaus", sagði jón til að útskýra vandamálið enn betur fyrir mér. ekki batnaði skákin hjá mér þegar hann skipti úr nudd-anatómíuútskýringum yfir í bifreiðasamlíkingar. ,,nú, stoppa viftuspaðar þegar bílar verða bensínlausir?" spurði ég ofaní gatið í mesta sakleysi. ,,nei, ég segi bara svona, ég meina bara eitthvað svona svo að þú fattir" svaraði jón. ,,ó, já, ég skil" umlaðist uppúr gatinu og svo ákvað ég bara að halda mér saman enda engin leið að vita hvort ég sjálf eða jón værum fáfróðari um bíla án þess að koma upp um míns eigins algera heimsku.
en nuddið sem slíkt var óskaplega gott og fínt. nema kannski stirðnaði ég örlítið upp, alveg ósjálfrátt, þegar blessunin hann jón vippaði fótunum á mér upp á öxl sér og hóf að nudda þá bókstaflega frá toppi til táa. ekki það að fótanudd er gífurlega þægilegt en ég á því miður ekki auðvelt með að leyfa fólki að káfast í tánum á mér, hvað þá ókunnugum mönnum sem eru með þær alveg ofaní andlitinu á sér.
ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að ég hef aldrei farið í fótsnyrtingu. biddu fyrir þér! má ég þá frekar biðja um rasssnyrtingu því ég átti töluvert auðveldara með að höndla jón á rasskinnunum á mér heldur en á tánum.

nema hvað, núna sit ég voðalega bein og rétt og óskökk og með fæturna herramannslega útglennta og olnbogana nálægt síðunum og úlnliðina í afslappaðri hæð á lyklaborðinu. svo er ég með bólgueyðandi rauða pillu í æðakerfinu einhverstaðar.

slaka á öxlunum og rétta mjaðmaskekkjur.
kæru lesendur, vinsamlegast lærið af mistökum mínum og notist við réttar vinnustellingar. þannig má vonandi koma í veg fyrir vöðvabólgufaraldur mikinn.

spurning um að kæra billa hlið fyrir að hafa komið okkur öllum fyrir framan tölvur og verið þannig valdur að vökunóttum og óþrjótandi tölvuverkjum.