tengdamóðirin lá í slökun á gólfinu með pínulitla bastkörfu á nefinu, einhverra hluta vegna. síðburðurinn kraup í uþb meters fjarlægð og var að dunda sér með borða í mexíkönsku fánalitunum. eitthvað höfðu koppaferðir farið fyrir ofan garð og neðan hjá þeirri litlu svo að það varð slys. hún gólaði vansældarlega á mig, móður sína, og vorkenndi sjálfri sér sökum pissubleytu. ég lyfti þeirri stuttu upp af gólfinu, skóf af henni blauta neðanklæðnaðinn og þurrkaði henni frá mitti til táar.
tengdamóðirin lá sem fastast og bastkarfan haggaðist ekki.
að loknum þurrkstörfum snéri ég mér á ný að þeim verkum sem ég hafði verið að sinna pre-piss og sú stutta skipti á borðanum og nýju áhugamáli.
og tengdamóðirin lá.
einum tíu mínútum síðar átti ég leið framhjá brúnu konunni í rauðu flíspeysunni (þ.e. tengdó) og gerði ég mér þá grein fyrir ástæðu þess að pissupollurinn sem ég þurkkaði upp hafði verið svona óhemju lítill og nettur.
ástæðan var sú að ég bý í tæplega hundrað ára timburhúsi í miðbæ reykjavíkur þar sem varla er hægt að gera ráð fyrir óhallandi gólffleti. af sömu ástæðu hafði megnið af pissinu breytt sér í litla lækjarsprænu sem smeygði sér ósköp dúllulega undir flískragann og inní hárgelið og niður undir bak tengdamóðurinnar.
hún hafði ekki orðið vör við neitt þar til hún sá mitt stóra rauða andlit fast í hláturgrettu beint yfir henni. þá reis hún upp og fann skyndilegan kulda færast yfir höfuðleður og bak sitt þar sem þvag dóttur minnar hafði tekið sér bólfestu.
og þá varð kátt í höllinni....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli