jón nuddari sagði að vandamálið væri í mjöðmunum á mér. er hann lét orð sín falla hrundi haugur af dauðum lúsum úr höfði mér. þá var ég svo aldeilis hlessa þar sem ég lá eins og klessa. svo potaði hann og kleip orðum sínum til stuðnings og ég lá með andlitið í gati þar sem ég umlaði og gargaði ofaní ilmandi nuddstofuhandklæðið. án þess að hafa hugmynd um það var ég í raun og veru aumari í rasskinnum efri heldur en nokkurntíman í bakinu sjálfu. bakið er bara birtingarmynd slæmra setustellinga og fótleggjakrossunar og almennrar mjaðmaskekkju af mínum eigins völdum.
,,svona eins og þegar viftuspaðinn í bílnum þínum hættir að virka þá er það kannski ekki vegna þess að spaðinn sjálfur er ónýtur heldur er bíllinn kannski bensínlaus", sagði jón til að útskýra vandamálið enn betur fyrir mér. ekki batnaði skákin hjá mér þegar hann skipti úr nudd-anatómíuútskýringum yfir í bifreiðasamlíkingar. ,,nú, stoppa viftuspaðar þegar bílar verða bensínlausir?" spurði ég ofaní gatið í mesta sakleysi. ,,nei, ég segi bara svona, ég meina bara eitthvað svona svo að þú fattir" svaraði jón. ,,ó, já, ég skil" umlaðist uppúr gatinu og svo ákvað ég bara að halda mér saman enda engin leið að vita hvort ég sjálf eða jón værum fáfróðari um bíla án þess að koma upp um míns eigins algera heimsku.
en nuddið sem slíkt var óskaplega gott og fínt. nema kannski stirðnaði ég örlítið upp, alveg ósjálfrátt, þegar blessunin hann jón vippaði fótunum á mér upp á öxl sér og hóf að nudda þá bókstaflega frá toppi til táa. ekki það að fótanudd er gífurlega þægilegt en ég á því miður ekki auðvelt með að leyfa fólki að káfast í tánum á mér, hvað þá ókunnugum mönnum sem eru með þær alveg ofaní andlitinu á sér.
ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að ég hef aldrei farið í fótsnyrtingu. biddu fyrir þér! má ég þá frekar biðja um rasssnyrtingu því ég átti töluvert auðveldara með að höndla jón á rasskinnunum á mér heldur en á tánum.
nema hvað, núna sit ég voðalega bein og rétt og óskökk og með fæturna herramannslega útglennta og olnbogana nálægt síðunum og úlnliðina í afslappaðri hæð á lyklaborðinu. svo er ég með bólgueyðandi rauða pillu í æðakerfinu einhverstaðar.
slaka á öxlunum og rétta mjaðmaskekkjur.
kæru lesendur, vinsamlegast lærið af mistökum mínum og notist við réttar vinnustellingar. þannig má vonandi koma í veg fyrir vöðvabólgufaraldur mikinn.
spurning um að kæra billa hlið fyrir að hafa komið okkur öllum fyrir framan tölvur og verið þannig valdur að vökunóttum og óþrjótandi tölvuverkjum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli