ég spyr mig hvaða heilvita hálfvita dettur í hug að birta fullt nafn bloggara sem skrifar ekki undir fullu nafni? og það í dje vaff!
jújú blogg eru á internetinu og þar af leiðandi opinber og aðgengileg hverjum sem vill, en litlum blogglingum sem langar bara að vera memm í að ruglumbulla og eignast kannski í leiðinni smá hóp af svipað nafnlausum eða nafnlitlum félögum og kunningjum undir huliðshjálmi internetsins, ætti að leyfast að halda sínu heil- eða hálf nafnleysi.
ég get sem dæmi nefnt sjálfa mig, en þeir sem vilja geta auðvitað komist að því hver ég er og ýmsir vita það líka. þar með er þó ekki sagt að ég hafi áhuga á því að hver sem er komist í tæri við síðuna mína og hefur mér blessunarlega tekist að sneiða hjá því að bókstaflega allir sem vita hver ég er séu að lesa þetta krafs mitt, enda hef ég ekkert sérstaklega verið að auglýsa að ég sé að blogga.
en jæja, það verður víst ekki á allt kosið.
en í öðrum fréttum langaði mig til að segja frá því að í gær fór ég til heimilislæknis. ástæðan fyrir förinni var sú að ég ætlaði að fá beiðni til að geta farið til sjúkraþjálfara sem mun vonandi á mánudaginn losa um þá tvo hryggjarliði mína sem eru víst eitthvað fastir. þá get ég líka vonandi hætt að væla yfir því að vera illt í bakinu.
nema hvað, þar sem ég fer mjööög sjaldan til læknis útaf sjálfri mér ákvað ég að nota tækifærið og fá ýmiskonar smyrsl og dótarí til að losna við nokkur lítil vandamál sem hafa fengið að malla án þess að ég hafi haft sérstaklega fyrir því að heimsækja lækni vegna þeirra. sem dæmi má nefna krónískt sár í nefinu þegar kólna tekur (gen frá pabba), bólur þegar ég byrja á túr, áratugagömul varta á hæl sem vörtuplástrar hafa ekki virkað á og dularfull bóla á rasskinn hægri. (gaman að segja frá því...)
nema hvað, heimilislæknirinn minn er eins og einhverntíman áður sagði aldrei við, svo að ég lenti hjá enn einum staðgenglinum. hann reyndist ekki vera stóri krúttbangsinn sem ég fór með makann til (sælla minninga), heldur var þetta drengur á aldri við mig, jafnvel nokkrum árum yngri, nýútskrifaður og í þokkabót bara hreint ansi laglegur ef ekki bara sætur.
hann bauð mig velkomna og ég settist á móti honum við skrifborðið og hann setti sig í læknastellingar og ég í sjúklingsstellingar. ,,jæja, hvað er svo hægt að gera fyrir þig?" spurði hann. ,,tjaaa...sko, mér er illt í bakinu...." (og svo fylgdu nánari útlistingar á því vandamáli). eftir að það hafði verið leyst var ég víst einhverstaðar á leiðinni búin að gubba því útúr mér að ég ætti við fleiri vandamál að stríða sem ég vildi láta hann skoða, þannig að eftir baklausnina spurði hann mig hver hin vandamálin voru. þá hrökk mín dama í baklás og renndi á ljóshraða í huganum yfir listann sem ég hafði ætlað að láta hann laga og ritskoðaði hann all svakalega.
ef hann hefði verið miðaldra karl, nú eða kona á hvaða aldri sem var, eða óhugnalega ljótur jafnaldri minn hefði ég að öllum líkindum rifið mig úr sokknum og skellt vörtunni uppá borð, ýtt nefinu upp til að sýna innviði nasa minna, girt niður brókina til að ljóstra upp um rassabóluna og fleira.... en ég bara fór að stama og roðna og breyttist í heilalausan hálfvita þar sem ég ældi útúr mér ,,nei, bara ég fæ sár í nefið þegar það er kalt úti en ekkert meira...".
ég kom heim með beiðni til sjúkraþjálfara, lyfseðil fyrir sterakrem í nös, vörtu á hælnum, bólu á rassinum og túrbó. (sem er sko stytting á túrbólur)
það ætti að banna sæta stráka á heilsugæslustöðvum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli