mánudagur, nóvember 20, 2006

ég fór út í búð í hádeginu ásamt samstarfsfólki. svosem ekki í frásögur færandi enda fer ég yfirleitt með sama samstarfsfólkinu í sömu búð að kaupa sama hádegismatinn fimm daga vikunnar.
í dag gekk ég að salatbarnum og greip bakka en fékk svo letikast og skilaði bakkanum og bakkaði að samlokukælinum. þar nældi ég mér í samloku með raftaskinku og salati sem leit óskaplega vel út, hét meira að segja deli, og létta kókflösku til að skola herlegheitunum niður.
svo röltum við samstarfsfólkið saman heim í vinnu. á bílastæðinu fann ég farsíma ofaní snjónum sem reyndist tilheyra afar þakklátum nemanda sem hefur semsagt fengið símann aftur og hann virkaði og allt. það var góðverk dagsins.
sem minnir mig á að um daginn fór ég á framboðsfund guðrúnar ögmunds (sem gekk því miður ekki nógu vel í prófkjörinu). á leið minni út af fundinum fann ég stútfullt seðlaveski liggjandi í lækjargötu. ég hringdi í eigandann sem reyndist vera kona og skutlaði veskinu til hennar og hún var yfir sig þakklát og hringdi í mig daginn eftir til að fá að borga mér fundarlaun, sem ég og afþakkaði pent með þeim orðum að ég hafi bara verið að gera öðrum það sem ég vil að aðrir gjöri mér.
kristilegt siðferði langömmu minnar sem lét mig biðja heilu runurnar af bænum hefur greinilega skilað sér.
nema hvað, svo fór ég semsagt áðan upp á kennarastofu þar sem við settumst að snæðingi og spjalli eins og okkur er tamt samstarfsfólkinu, enda öll voða skemmtileg og sniðug og svöng.
samlokan mín var skorin í tvo þríhyrninga. öðrum þríhyrningnum tróð ég í andlitið á mér og smakkaðist hann hreint út sagt ansi vel.
svo var komið að seinni helmingnum sem ég tók úr boxinu og einhverra hluta vegna snéri ég honum við. hefur sennilega eitthvað með það að gera að mér þykir eðlilegra að borða samloku þar sem skinkan er neðst og salatið ofaná en ekki öfugt. (smá vottur af matareinhverfu).
nema hvað, þar sem ég snéri samlokunni við blasti við mér utaná brauðsneiðinni grár ormur sem lá þar í makindum sínum ábyggilega saddur eftir salatát.
síðan þá hef ég ekki haft matarlyst.
núnú, ég rölti aftur í búðina og sagði við afgreiðslustúlkuna: ,,góðan dag, það er ormur á samlokunni minni". þrjú ungmenni sem stóðu fyrir aftan mig og gæddu sér á salati urðu skrýtin í framan og fóru að rannsaka matinn sinn. ætli ég hafi ekki óvart skemmt aðeins matartímann fyrir þeim, sem er miður.
en nú bíð ég eftir símhringingu frá samlokufyrirtækinu sem mun áræðanlega bjóða mér ársskamt af samlokum sem ég hef ekki lyst á.
ég vorkenni eiginlega bara orminum sem hefði getað lifað góðu lífi á samlokunni sinni ef hann fengi að vera þar í friði. honum verður væntanlega fargað greyinu, eins og þetta væri honum að kenna.
auminginn...

Engin ummæli: