fimmtudagur, nóvember 23, 2006

ég er allskonar samsull af genum og áhrifum úr umhverfi mínu. ég er eiginlega hálfgerð klessa. þversagnakennd klessa.
ég hef augnlit frá föðurömmu minni í gegnum pabba. beyglaða næstminnstutá frá langömmu minni í gegnum afa og pabba. ég á bágt með að segja nei eins og móðuramma mín. mér þykir óþægilegt að láta hrósa mér en ég þrífst á hrósi. ég vil ekki láta fara mikið fyrir mér en ég vil láta taka eftir mér. ég vil ekki láta hafa fyrir mér en ég elska þegar haft er fyrir mér. mér finnst ég vera drusluleg en samt er ég eigilega bara fín. mig langar að vera listræn og skáldleg og ég trúi því að ég geti það, samt trúi ég því varla að ég geti það eða muni nokkurn tíman framkvæma eitthvað listrænt og skáldlegt. ég vil geta verið ströng og skoðanaföst en ég skil alltaf sjónarmið allra svo vel að ég skipti um skoðun auðveldlega. svo er ég ekki ströng því mér hefur aldrei verið vel við fólk sem hefur verið strangt við mig. svo vil ég að öllum líki vel við mig og fer einhverra hluta vegna í tilfinningalega steik þegar mig svo mikið sem grunar að einhverjum þyki ég ekki ágæt. en samt veit ég að það er óþarfi.
það er ekki auðvelt að vera þversagnakennd klessa.

Engin ummæli: