þriðjudagur, febrúar 19, 2008

aðfararnótt þriðjudags. klukkan er hálf tvö. ég á að minnsta kosti eftir að vaka í tvo tíma í viðbót. tengdamóðirin er á leiðinni í hús. lendir eftir klukkutíma. ég kann ekki við að liggja bara og hrjóta þegar blessuð kerlingin kemur eftir að hafa komið sér ein og óstudd yfir hálfan hnöttinn. fyrir fólk frá mexíkó er hægara sagt en gert að fljúga í gegnum júessei því þau þurfa vegabréfsáritun til þess að svo mikið sem stíga fæti í landið. til þess að fá vegabréfsáritun þarf að panta tíma í sendiráði kanans sem tekur nokkurn tíma að fá. eftir það tekur í kringum mánuð að fá vegabréfsáritunina, það er að segja ef þú færð hana á annað borð. för hennar hingað var ákveðin með minni fyrirvara en tveimur mánuðum svo að hún neyddist til að fljúga fyrst til evrópu og svo hingað. það er töluvert lengra flug. einhverja klukkutíma hefði hún sparað sér með því að fljúga til london. hún treysti sér þó ekki þangað þar sem hún talar ekki ensku svo að við sendum hana til barcelona. þaðan kemur hún svo núna. einum og hálfum sólarhring eftir að hún lagði af stað að heiman, en hún er að ferðast ein í fyrsta sinn. og hún hefur hvergi fengið heila nótt. mikið tímarugl. ætli hún verði ekki gangandi brunarúst þegar hún kemur hingað með báðar þrjátíuogtveggjakílóaferðatöskurnar sem hún er með með sér.
það minnsta sem ég get gert er að halda mér vakandi í tilefni dagsins. í virðingar- og væntumþykjuskyni.
eitthvað er sjónvarpsdagskráin farin að verða dapurleg á þessum tíma sólarhrings. ætli ég skelli mér ekki bara á þátt af cheaters. hápunktur lágmenningarinnar. það er ég.
ú ú og svo fæ ég bráðum allar nýjustu kjaftasögurnar að sunnan. jibbí!

Engin ummæli: