þriðjudagur, febrúar 05, 2008

vegna þess að við erum fólk sem hættir ekki að líta í kringum sig, litum við í kringum okkur í gær. í því fólst að fara og skoða lítið einbýlishús við njálsgötuna, enda aldrei leiðinlegt að eignast heil hús.
núnú, við hittum rímaxparið fyrir utan kumbaldann. eigandinn hafði verið upptekinn við að sópa frosnum hundaskít uppúr snjónum við húsið en þegar hann ýtti glansandi skítugu hárinu frá andlitinu og sá okkur var okkur boðið inn í skoðunarferð. makinn minn fór fyrstur af stað. um leið og hann kom inn þóttist hann þurfa eitthvað að skoða í garðinum en notaði tækifærið þegar hann smeygði sér framhjá mér til að segja mér á spænsku að það væri ekki hægt að fara þarna inn. fyrst datt mér í hug að hann væri pjattrófa og aumingi (þessir útlendingar!). en þegar ég sá grænu slikjuna í andlitum rímaxfólksins vissi ég að það að fara inn í húsið væri meira en að segja það. í kurteisis og forvitnisskyni beit ég á alla jaxla og dýfði mér inn. þvílíkan kattarhlands, hundaskíts, svita, reykingasubbufnyk hef ég aldrei á ævi minni fundið. húsið var í einu orði sagt viðbjóður. og þarna inni í fáránlegum rýmum og ógeðslegum hálf-herbergjum bjó hárglansi ásamt hellingi af gæludýrum og þremur unglingum. mér sýndust gæludýrin hafa það ágætt. hinsvegar þegar ég sá dapurleg andlit unglinganna innanum allt ógeðið leið mér eins og ég hefði fundið fólk sem hefði verið tekið í gíslingu og verið látið þjást allt sitt líf. undarleg upplifun sem situr í mér.
þegar út var komið hvíslaði rímaxgaurinn að hann þyrfti alltaf að taka ofnæmispillur áður en hann sýndi þetta hús. ég kinkaði kolli um leið og ég reyndi að snýta kattahlandsfýluna úr nösunum. ég fékk hroll af og til út kvöldið og finn ennþá netta ógleðitilfinningu þegar ég rifja heimsókina upp.
ég óskaði rímaxparinu bara góðs gengis með söluna. ég segi allavega pass.

Engin ummæli: