mánudagur, október 27, 2008

djöfull er ég ánægð með að fólk sé farið að dunda sér við að mótmæla. við litla familían höfum rölt til að mótmæla síðustu laugardaga, bara svona til að sýna lit og vera ekki alveg sama um ástandið. dóttirin er mjög spennt. spyr á leiðinni niður í bæ hvort við séum núna að mótmæla og þegar fólk heldur ræður vill hún að það fari nú að þagna svo við getum tekið til við mótmælin. í gær sönglaði hún ,,davíð burt" þar sem hún sat í aftursæti bílsins á leiðinni í bónus. hún var fyrst ekki viss hvort hún ætti að segja davíð urt eða hvað, en svo var það bara leiðrétt og hún sönglaði áfram. hún veit svosem ekkert hver þessi davíð er eða hvert hann eigi að fara en finnst samt gaman að mótmæla. það er ekki eins og hún hafi ekki reynslu í því. hún mótmælir öllu allan daginn heima hjá sér svo að opinber mótmæli eru í raun bara áherslubreyting hjá þeirri litlu.
frumburðinum finnst þetta samt hálf hallærislegt. eins og svo margt annað. þar sem hann er mikil tilfinningavera á hann í raun hálf erfitt með að gútera að fólk geti fengið af sér að úthrópa einhvern, vorkennir aumingja davíð sem hlýtur að líða illa heima hjá sér yfir eineltinu. það er gott að hann sé svona góð sál blessaður. frumburðurinn sko, ekki davíð.
annars gengur lífið sinn vanagang þrátt fyrir hærra verð á öllu og færri viðskiptavini á litlu söntu maríu. þetta með færri viðskiptavinina veldur þó reyndar smá kvíðahnút í maga, en það er fátt annað að gera en að bretta upp ermar, kyngja kögglinum og reyna að halda ótrauð áfram.
hvernig hefur þú það annars?

Engin ummæli: