þriðjudagur, október 21, 2008

undanfarið hef ég reynt að hljóma gáfuleg í samræðum við fólk á förnum vegi en nú get ég varla meir. ég verð barasta að koma útúr skápnum með þetta. ég skil ekki alveg hvað er að gerast. ég skil ekki hvernig bankakerfið virkar, ég skil ekki hvernig ríkisstjórnin virkar, ég skil ekki hvernig fjármálaeftirlitið virkar, ég skil ekki hvernig alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virkar, ég skil ekki hvernig seðlabankinn virkar og ég skil ekki hvernig hlutabréfamarkaðurinn virkar eða peningamarkaðssjóðir. við skulum ekki einusinni fara útí kvótakerfið ógrátandi... ég held ég viti hvernig lífeyrissjóðir virka eftir að hafa unnið í slíkum og mér var sagt í æsku að ég ætti að geyma peningana mína í banka því þar væru þeir öruggari en heima eða í sparibauknum. þeir áttu líka að stækka í bankanum. þetta var innprentað svo vel og örugglega í mig frá blautu barnsbeini að ég á erfitt með að slíta mig útúr innbyggðu bankatraustinu.
með aldrinum hef ég þó lært að það að vera fullorðinn sé engan veginn ávísun á að vera klár, skynsamur, vel meinandi, sanngjarn og heiðarlegur. það er til fullt af fullorðnum bjánum. því miður. með enn auknum aldri er mér að lærast að það að vera stjórnmálamanneskja sé engan vegin ávísun á að vera klár, skynsamur, vel meinandi, sanngjarn og heiðarlegur. sem er skítt.
og talandi um traust. eftir hinn skamma en lærdómsríka tíma minn sem blaðakona á dv lærðist mér að fjölmiðlar eru fullir af allskonar liði sem alls ekki allt er klárt, skynsamt, vel meinandi, sanngjarnt eða heiðarlegt. sem er synd.

hverjum á ég að treysta? hvað er að gerast? hvar er ég?

Engin ummæli: