miðvikudagur, apríl 29, 2009

er það ekki týpískt að þegar ég á miða til útlanda í skemmtiferð skellur á einhver helvítis grísapest um allan heim. gat nú verið....andskotans djöfull....
nú vona ég bara að stuðið verið liðið hjá áður en ég byrja að pakka niður. nenni ekki að fá far eftir læknagrímu. gæti litið nett hallærislega út.

talandi um pólitík þá fór ég að kjósa um daginn. hélt tryggð við uppeldi mitt og æsku og hallaði mér vel til vinstri. svo virðist sem þjóðfélagið sé að hallast í sömu átt. gott gott. vont slæmt og hræðilegt segja sumir... allt í góðu með það.

horfði á brokeback mountain um daginn. hrikalega sorgleg saga um tvo gaura, kúreka, við skulum kalla þá pálma og jóa til dæmis, man ekki hvað þeir hétu. hrikaleg dramatík. ég grét. minnir þó að ég hafi séð hana áður. grét líka þá.
magnaður skítur.

um helgina ætla ég bara að horfa á gamanmyndir. og fara í afmælisveislu. og drekka bjór. mikið af honum...

þriðjudagur, apríl 21, 2009

undanfarið hef ég fylgst mikið með fólki kasta steinum úr glerhúsum. í hinum ýmsustu formum og af ýmsum tilefnum. maður nokkur sem ég hef þekkt í fjölda ára missteig sig og grjótinu rigndi. í saumaklúbbum falla heilu grjótskriðurnar og að ég tali nú ekki um pólitíkusa sem ætla mig lifandi að drepa þessa dagana.
þar sem ég er svo ný-fermd er ég sullandi blaut í kærleiksboðskapnum sem prédikaður var yfir hausamótunum á mér um helgina og svei mér ef þar er ekki hollur andskoti á ferð. það mikilvægasta held ég að sé fyrirgefningin og náungakærleikurinn sem eru, að ég held, meginuppistaðan í velflestum ef ekki öllum trúarbrögðum og burtséð frá þeim, bara skrambi þörf skilaboð.
já, og að leita fyrst og fremst að hinu góða í fólki. hitt rífur niður og rústar eins og grjót í glerhúsi.
amen.

mánudagur, apríl 20, 2009

búin að ferma. þarf ekki að ferma meir fyrr en árið...uuu... 2016.
mingin-fer gekk vel. matarborðið var töfrum líkast, gestir glömpuðu í gleði sinni, barnið-fermingar leit út eins og ungur fallegur maður og smurt gekk allt. smurt mjög. ef ég væri skikkuð til að kvarta yfir einhverju væri það helst veðrið. liðið sem átti að sjá um það klikkaði all svakalega og hefur í beinu framhaldi verið rekið. eins og sjá má í dag voru þau fljót að hypja sig þessir andskotar.

mér tókst næstum því að fá ógeð á rjóma. ég held ég verði að hvíla mig á honum í smá stund til að skemma hann ekki fyrir mér.

en semsagt. ferming 2016.

þriðjudagur, apríl 14, 2009

í dag sat ég í vinnunni minni og bjó til fjögur próf. að auki undirbjó ég hvern einasta kennsludag sem eftir er fram að sumarfríi. þar var þungu fargi af mér létt. skrýtið hvernig ég hafði allt í einu einbeitingu í að sitja kyrr og skrifa, semja og hugsa. hana hef ég ekki haft lengi. einbeitinguna það er að segja.

móðirin bakar nú sem vitlaus væri fyrir ferminguna sem er á sunnudaginn næstkomandi og ég er búin að skipuleggja átta marensbotna í höfðinu. símtölum rignir inn þar sem fólk vill vita hvað drengurinn vill fá í fermingargjöf. ég er í hvert einasta skipti jafn ringluð í röddinni því ég veit hreinlega ekki hvað hann vill. nema pening, en það er eitthvað bara svo boring að segja það.

veitingastaðurinn og barinn rúlla og rúla en mér til mikils ama neyðumst við víst til að hækka verðin á matnum örlítið á næstu dögum. bara svona rétt til að lifa af.
semsagt...já.

ég er að hugsa um að fara að búa mér til alter ego sem lifir meira spennandi lífi en ég þessa dagana. þá fer ég kannski að finna eitthvað skemmtilegt að skrifa um.

en fyrst ætla ég að skoða lítið barn.

þriðjudagur, apríl 07, 2009

mér skilst að það kallist að vera á krossgötum þegar maður veit ekki í hvaða átt skal halda. eða eitthvað svoleiðis.
ég held að ég sé á þeim. ég veit ekki hvort ég á að beygja til hægri eða vinstri, halda áfram eða snúa mér við og halda tilbaka. á meðan ég reyni að komast að því hvert skal haldið stend ég kyrr með kjánalegan svip, lafandi neðrivör og tómlegt augnaráð. það er vonandi að eitthvað sparki mér af stað sem fyrst.

föstudagur, apríl 03, 2009

það er komið páskafrí, það er komin hlýja í loftið og það er komið húsmæðraorlof. innan skamms mun ég bruna útúr bænum með vinkonunni og við ætlum að setjast að í heitum potti þar til við getum ekki meir. svo ætlum við að eta og drekka vel og sofa svo enn betur. það verður gott og er mér algerlega nauðsynlegt einmitt núna.

þessa stundina er ég þó stödd á karömbu og eftir augnablik hefst hér blaðamannafundur. ekkert ríkisstjórnartengt heldur í tengslum við tónleikahátíðina aldrei fór ég suður. hér er múgur og margmenni og ég í grænum sófa útí horni þar sem sólin laumast til að skína á vanga mér. það er vor í loftinu og vor í andanum. farið er að glitta í bjarta geisla og ég finn að allt á eftir að verða gott. öðruvísi gott og mjög gott. ég á góða að og marga góða vini. ég er heppin að þekkja allt þetta góða og skemmtilega fólk og það er akkeri sem ég þarf á að halda.

það er góð tilfinning að finna vorið í hjartanu.

miðvikudagur, apríl 01, 2009

ofsalega er allt dramatískt um þessar mundir. það er dramatík heima, það er dramatík á kennarastofunni, það er dramatík í sjónvarpinu, það er dramatík úti í bæ og það er dramatískt veður. af allri dramatíkinni er ég orðin dofin. haldin dramatíkurdoða. þetta er allt orðið að risastórum hnútum sem sitja pikkfastir í öxlunum á mér og valda verkjum.
dramatískum verkjum.

ég er ekki mikið fyrir dramatík. ég kýs frekar að ræða hlutina, útskýra og fá útskýringar, fyrirgefa og vera fyrirgefið. mér er illa við að velta mér uppúr vandamálum og mér er illa við að vera gerð að vandamáli þegar ég leita einmitt statt og stöðugt að andstæðu vandamálanna. mér finnst gott að hreinsa andrúmsloftið, ræða málin, hafa allt á hreinu og fá loks tækifæri til að hlæja að sjálfri mér og því sem þótti svo alvarlegt. hlutirnir eru nefnilega lang oftast ekki eins alvarlegir og þeir virka og hljóma þegar þeim er skellt framaní mann. sé tímanum gefið færi á að gera sýnina skýra á ný sést yfirleitt að þetta hefði sennilega ekki þurft að vera svona mikið mál. það hefði kannski verið hægt að glotta að þessu. jafnvel hlæja.

nú myndi ég hlæja væri ég ekki dauð.