föstudagur, apríl 03, 2009

það er komið páskafrí, það er komin hlýja í loftið og það er komið húsmæðraorlof. innan skamms mun ég bruna útúr bænum með vinkonunni og við ætlum að setjast að í heitum potti þar til við getum ekki meir. svo ætlum við að eta og drekka vel og sofa svo enn betur. það verður gott og er mér algerlega nauðsynlegt einmitt núna.

þessa stundina er ég þó stödd á karömbu og eftir augnablik hefst hér blaðamannafundur. ekkert ríkisstjórnartengt heldur í tengslum við tónleikahátíðina aldrei fór ég suður. hér er múgur og margmenni og ég í grænum sófa útí horni þar sem sólin laumast til að skína á vanga mér. það er vor í loftinu og vor í andanum. farið er að glitta í bjarta geisla og ég finn að allt á eftir að verða gott. öðruvísi gott og mjög gott. ég á góða að og marga góða vini. ég er heppin að þekkja allt þetta góða og skemmtilega fólk og það er akkeri sem ég þarf á að halda.

það er góð tilfinning að finna vorið í hjartanu.

Engin ummæli: