einu sinni var ég að vinna á stað þar sem mér þótti starf mitt ekki eftirsóknarvert mjög. þó hafði það sína kosti. einn kostanna var sá að ég hafði nægan tíma til að þumbast um á netinu og lesa blogg og nægilega margar hugmyndir til að geta bloggað.
nú er svo komið að ég er í starfi þar sem mér finnst gaman en það hefur þann galla að ég er í fyrsta lagi ekki hangandi fyrir framan tölvu allan daginn, í öðru lagi hef ég engan tíma til að gera annað en það sem ég þarf bráðnauðsynlega að gera og í þriðja lagi hef ég um svo margt að hugsa að ég á ósköp fáar hugsanir eftir eftir vinnu. hér með er komin skýringin á orsökum míns eigins minnimáttarkenndar gagnvart gífurlega upplífgandi, hressilegum, skáldlegum og skemmtilegum textum hinna ýmsu bloggara í samanburði við að því er virðist eilífa ritstíflu hérnamegin alpafjallanna. en maður hefur sosum lent íðí verra.
nema hvað. lítill þröstur úti í garði hætti í augnablik að kroppa í brauðsneiðina sem ég henti út um baðherbergisgluggann í þeim tilgangi að hvísla að mér. hann lét mig vita að það væru að koma jól. mér skilst að samkvæmt einhverju siðavenjuhefðaalmanaki sé kominn þriðji í aðventu og allt að verða vitlaust.
ég er búin að fara á tvö jólahlaðborð (sem betur fer var ekki síld á hinu síðara, enda stútfullt af ólögráða matvendingum), en ekki komu þau mér í jólaskap. ég er óvart búin að hengja fullt af litlum ljósaperum í bandi út í glugga bara svona til að gaurarnir á neðri hæðinni líti ekki út fyrir að vera eina hressa fólkið í húsinu, en ekki kom það mér í jólaskap. ég sótti jóladraslkassana upp á loft en varð ekkert spennt yfir að kíkja ofaní þá, enda ekkert sem myndi seljast í kolaportinu þar á ferð. meira að segja hafa nokkara kúlur náð að brotna síðan í fyrra.
ég er farin að þurfa að dreifa út upplýsingum um þarfir og langanir barnanna minna í sambandi við jólagjafainnkaup stórfjölskyldunnar, en ekki kemur það mér í jólaskap. ég fékk meira að segja jólakort í gær. ekkert.
í dag stakk makinn uppá því að við færum að kaupa jólagjafir handa familíunni. mér tókst að sannfæra hann um að það væri betri hugmynd að ráfa á milli mismunandi skítafýlu í blautum fötum vegna þess að það var ókeypis aðgangur að húsdýragarðinum í dag. sú litla skemmti sér reyndar vel þangað til helvítis kalkúnninn fór að æsa sig. það er sko ekkert krúttlegt við kalkúna. hreindýrin voru svo merkileg með sig að þau litu ekki einu sinni við þegar við örguðum og góluðum á þau í aumri tilraun til að lokka þau til okkar. beljurnar kúkuðu á gólfið fyrir framan okkur og nautið guttorm hef ég aldrei séð öðruvísi en liggjandi og hálf vankaðan. svínin eru lítt skárri. reyndar voru nokkrir sætir grislingar í stíu sem eiginlega redduðu deginum fyrir mér þangað til ég fór að sjá eftir grísahakkinu sem við keyptum á tilboði í bónus um síðustu helgi. nú svo flúðum við rigninguna inn í kinda/geita/hesthúsið en sú flúun var skammvinn þar sem við ákváðum án orða á innan við 10 sekúndum að flýja aftur út í bleytuna. hvílík endemis viðbjóðs heilarýrandi nasamerjandi skítafýla. hef ég lent í ýmsu um ævina en sjaldan ef nokkurn tíman öðru eins. má ég þá frekar biðja um sköllótta kalkúnann með sinn óaðlaðandi bleika dela sem hann hreyfir út í loftið yfir goggnum.
ég er alvarlega að hugsa um að gerast grænmetisæta...
en nú sýnist mér fröken fix vera komin aðeins útfyrir efnið.
ég er semsagt ekki í jólaskapi og færist enn fjær því í hvert sinn sem ég hrekst inn í úttroðna verslunarmiðstöð með risavöxnu jólaskrauti, tónlistar,,stjörnum" sem ég hef aldrei á ævinni séð að árita diska, fólki algerlega uppi í rassgatinu á mér vegna troðnings og asa og þessa ólukkans jólatónlist sem ég enda alltaf með á heilanum í þrjá mánuði á eftir. pant ekki vera með.
mitt jólaskap er frekar að finna í hlýjum fötum í svölu veðri undir stjörnubjörtum himni eða jafnvel þunglamalegri snjókomu einhverstaðar þar sem enginn bíll keyrir, enginn sími hringir, ekkert fólk blaðrar og enginn syngur múkk.
þá leggst ég á bakið í frostglampandi grasið eða mjúkan snjóinn, horfi til himins og óska ykkur öllum gleðilegra jóla í huganum.
en þangað til það gerist sit ég bara hér með helvítis seríuna flækta í gardínunum, jólaskrautið meira og minna brotið í kassanum og slökkt á útvarpinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli