þriðjudagur, desember 21, 2004

í gær rölti ég um með síðburann lokaðan inni í bleikri feitri úlpu og bundinn niður í gamla bónuskerru. ekki svona kerru eins og fólk setur matvörur í við innkaup heldur svona kerru sem fékkst ódýrt fyrir einhverjum árum í bónus. eða var það rúmfatalagerinn? allaveganna...
við mæðgur röltum í hægðum okkar um hundraðogeinn og skoðuðum jólasveina í búðargluggum, seríur á trjám og fleiri skrautlega hluti sem líta vel út í myrkri. það lá við að ég kæmist í jólasköpin en samt...ég er enn í leit að herslumuninum. á einhver afgangs herslumun því mig vantar eitt stykki...?
þegar ég beygði út af laugaveginum og stefndi í áttina heim (sem er annars svosem ekkert svo langt frá téðum vegi), sá ég mann. ég er ansi vön því að sjá menn, og konur líka ef út í það er farið, en þessi maður var merkilegur að því leyti að hann var að koma útúr bílnum sínum. það hljómar svosem ekki spennandi en spennan í sögunni felst í því að maðurinn var hálfpartinn fastur. af hverju var hann fastur?, kynni einhver að spyrja sig. og þá kynni ég að svara því að hann hafi verið fastur sökum fitu. ég hef sveimér aldrei nokkurntíman séð annað eins. þarna sat hann og hélt í bílhurðina sem hann notaði til þess að toga sig út. vömbin á honum skiptist í þrjá hluta. hlutann yfir stýrinu, hlutan undir stýrinu og hlutann á bakinu. hann leit eiginlega út eins og tja... eyrnatappi í eyra, ofþaninn loftpúði, vatnsblaðra í ógöngum eða kennaratyggjó í nös. eða eitthvað,... þið grípið um skaftið á mér.
þetta var svona uppákoma sem mig hefði mikið langað til að staldra við og fylgjast með til þess að sjá hvernig maðurinn fór að þessu og hvort honum tækist að lokum að losa sig. en þá hefði ég sennilega verið að leggja manninn í einelti eða eitthvað svoleiðis. eins gott að vera ekki kennd við þessháttar sjúkdóma.
ég væri líka til í að hitta gaurinn sem tókst að sannfæra þetta flykki um að kaupa sér yaris!

Engin ummæli: