ég þekki mann sem kallar konuna sína alltaf vinuna. sæl vinan, segir hann þegar hann hringir í hana úr vinnunni. sæll vinur, segir hann við son sinn sem er í dag menntaskólakrakki en hefur verið ávarpaður á sama máta alveg frá fæðingu. þessi sami maður kallar samstarfskonur sínar líka vinurnar, algerlega óháð aldri þeirra, en hann kallar þó ekki þær konur sem sitja í stjórn og eru þar af leiðandi hærr-settar honum, vinan. konan sem hellir uppá kaffið og er jafnaldra hans er þó vinan. ég er vinan. bróðir hans sem er talsvert yngri en þó kominn langleiðina að fimmtugsaldrinum er vinur. karlarnir í vinnunni sem eru bæði yngri og jafn gamlir en eru kollegar eru ekki ,,vinur". golffélagarnir og laxveiðifélagarnir eru ekki ávarpaðir sem ,,vinur". sennilega ekki eiginkonur þeirra heldur og svo sannarlega ekki synir þeirra og tengdasynir, sérstaklega þeir sem hafa lagt eða leggja stund á viðskipta-, hag- eða lögfræði. dætur þeirra eru þó kallaðar vinan, óháð náms eða starfsvali.
notkun orðanna vinan og vinur er helber stéttskipting í þessu tilfelli og innan þeirrar stéttskiptingar er kynskiptingin skýrari en andskotinn. aldursskiptingin er nokkur en stétt- og kyn- er sterkast.
ég kalla engann vinan eða vinur. ég kalla börnin mín elskurnar og rassa og kjánaprik og rugludalla og svo kalla ég systur mína stundum líka rassa en aldrei vinan.
ég er haldin fordómum. svo sannarlega.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli