úff. það er svo yndislegt þegar snjóa leysir og ruslið kemur aftur í ljós eftir snjóinn og slabbið. ég fékk hreinlega gæsahroll þar sem ég stóð úti í garði í gærkveld og andaði að mér laufléttum úðanum. svei mér þá ef ég kemst ekki í rómantískan fíling í úða og þoku. sérstaklega úða. en samt líka þoku. eiginlega bæði. samt...
eftir að hafa lesið um sýkta fingurinn á ingó og sýkta tannholdið í lóu hef ég verið að velta eigin heilsu fyrir mér og er skemmst frá því að segja að ég er eld-hress (sjö,níu,þrettán). nema auðvitað ef ég einbeiti mér að því að finna eitthvað þá gæti ég svosem minnst á bóluna sem er að angra mig í hársverði neðri í vestri, eða semsagt til vinstri á hnakkanum. svo er ég með bölvaðan kláða á olnboganum auk þess sem gamla meðgöngu grindareymslið hefur verið að minna á sig undanfarna daga. mig grunar sterklega líkamsræktarfjandann. í raun er sama í hvaða átt líf mitt stefnir, það kemur alltaf að einum og sama niðurstöðupunktinum. íþróttir eru hættulegar. heyrðu já og svo er ég með brotna fyllingu í jaxli en verð víst að bíða í eina 37 daga í viðbót eftir að komast að í hvíta stólnum. truflar mig svosem ekkert. annars finnst mér gaman að fara til tannlæknis. það er nokkuð sem ég hlakka alltaf til. svo fer ég annað hvort keyrandi eða í strætó (með stolt á vör) upp í mjódd þar sem kauði er til húsa. eiginlega á ég mér svona sérstakan tannlæknasvip, en í honum felst stolt, mont, ánægja, tilhlökkun og örlítið háð til handa þeim sem eru ekki eins heppnir og ég að vera á leiðinni til tannlæknis. svo þegar ég er á leiðinni heim (helst sem deyfðust því það er skemmtilegast), þá er svipurinn margfaldur. eiginlega hálfgert glott. ég vona alltaf að það sjáist utaná mér að ég sé lömuð í hálfu andlitinu (ég þarf mikla deyfingu), en því miður gerist það sjaldan að aðrir sjái ástandið utaná mér. tannlæknasvipurinn minn hugsa ég að sé svolítið eins og afmælissvipurinn minn, en hann nota ég í heilan dag aðeins einu sinni á ári auk þess sem ég svekki mig á því að vera ekki spurð um kennitöluna mína nema af daufheilum sem kveikja ekki á perunni og óska mér til hamingju. nema hvað...
hárgreiðslustofusvipurinn minn er ekki eins. hann er meira svona ,,hvað ertað horfa svona alltaf á mig? er ég skrýtin ha? ha?"
ég fer nefnilega svo sjaldan á hárgreiðslustofur að ég kem alltaf út í hálfgerðu menningarsjokki. ekkert stolt þar á ferð. svei mér þá ef ég hef nokkurn tíman gengið út af slíkum stað með ánægjutilfinningu í iðrunum.
nú sá ég valdimar flygering henda rusli í svörtu ruslafötuna fyrir utan regnbogann og ganga í burtu. en það kemur málinu sosum lítið við fyrir utan að staðfesta hversu skemmtilegt útsýnið er héðan af hverfisgötunni.
annars er ég að fara að flytja næstu vikurnar.
við skulum ekkert vera að minnast á það ógrátandi.
ég ætla að hringja í tannlækninn minn og reyna að fá tímanum flýtt til að hafa amk eitthvað til að hlakka til á næstunni.
já og svo er að koma vor.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli